05.10.2020
Hljómsveitin KLAUFAR hefur nú sent frá sér fyrsta lagið í sex ár ár en hljómsveitin naut talsverðra vinsælda á sínum tíma, síðast með hljómplötunni ÓBYGGÐIR sem unnin var með Kristjáni Hreinssyni árið 2013.
Nú snúa KLAUFAR aftur með laginu VINA og má segja að þar sé hljóðheimurinn með örlítið breyttu sniði, hrár og heiðarlegur þótt ekki fari milli mála að KLAUFAR séu á ferðinni. Í laginu, sem er poppað dægurlag, má heyra stálgítar, kontrabassa, þétt plokkaðan kassagítar, gítarriff og trommur sem teknar eru upp á segulband á gamla mátann, sem veitir laginu skemmtilegan blæ.
Textinn fjallar um lífið og æviveginn sem við göngum öll. Flest viljum við reyna að lifa lífinu með stæl og þótt það gangi ekki endilega alltaf björgum við okkur á endanum.
KLAUFAR eru skipaðir fjórum valinkunnum og vel þekktum tónlistarmönnum sem hafa komið víða við. Þetta eru þeir Guðmundur Annas Árnason, Mummi, sem syngur, Sigurgeir Sigmundsson gítarleikari, Friðrik Sturluson bassaleikari og Birgir Nielsen trommuleikari.
Klaufar munu halda tónleika um leið og færi gefst og Covid leyfir.
Nýja lagið er einnig farið í dreifingu á helstu tónlistarveitunum.