20.09.2020
Jón Bjarki Oddsson er Kírópraktor sem mætir til Eyja a.m.k einu sinni í mánuði og þjónustar þá sinn kúnnahóp.
Þegar hann er ekki að taka á móti viðskiptavinum í Fótaaðgerðastofu Vestmannaeyja þá er hans aðalaðstaða í Kírópraktor Lindum en hann er stofnandi og meðeigandi þar. Og að sjálfsögðu eru allir Vestmannaeyjingar velkomnir þangað líka.
Tígull tók létt spjall við Jón Bjarka sem fræddi okkur um þjónustuna.
Segðu okkur aðeins frá þér:
Ég útskrifaðist sem Kírópraktor (Doctor of Chiropractic) frá Life University í Atlanta, Bandaríkjunum. Samhliða kírópraktornáminu út-skrifaðist ég einnig með gráðu í þjálfunarfræðum (e. Excercise Science)
Ég var í unglingalandsliðum bæði í handbolta og golfi og stunda golfíþróttina enn í dag.
Ég leitaði fyrst til kírópraktors 15 ára gamall vegna verkja í mjóbaki sem voru farnir að leiða niður í fætur, þá sérstaklega á morgnana og þegar ég var undir miklu álagi í íþróttum. Samhliða breyttum venjum fann ég hvernig kírópraktík hjálpaði mér að ná settum markmiðum hvað varðar heilsuna mína og sem íþróttamaður.
Þar kviknaði áhuginn á því að verða sjálfur kírópraktor og geta í samvinnu við skjólstæðinga mína hjálpað þeim að ná settum markmiðum. Ég legg mikið upp úr því að kenna fólki hvernig það getur hjálpað sér sem best sjálft.
Hverjir eru þínir helstu viðskiptavinir?
-Mínir helstu viðskiptavinir er fólk með stoðkerfisvandamál, bakverki, höfuðverki, vöðvabólgu svo dæmi sé nefnt. Aftur á móti er það farið að aukast verulega að fólk er farið að hugsa í fyrirbyggjandi aðgerðum, þá helst íþróttafólk. Í framtíðinni verður það vonandi þannig að fólk fari að hugsa meira í fyrirbyggjandi starfsemi, alveg eins og við gerum flest með tannlækna.
Er þetta fyrir allan aldur?
Já þetta er fyrir allan aldur
Hversu oft ertu að koma til Vestmannaeyja?
Í sumar var ég að koma tvisvar sinnum í mánuði en stefni á að koma ekki sjaldnar en mánaðarlega.
Hvar ertu þá til húsa?
Fótaaðgerðastofu Vestmannaeyja, hjá henni Valgerði Jónu.
Hefur þú einhverja tengingu til Eyja?
Pabbi minn og tengdamamma eru bæði fædd og uppalin í Eyjum. Amma mömmu megin er einnig úr eyjum, hún flutti upp á land fyrir gos.
Fyrir þau sem hafa áhuga á að nýta sér þjónustuna sem þú býður upp á hvert á fólk að snúa sér?
Hægt er að bóka tíma hjá Jóni Bjarka á heimasíðunni www.kirolindum.is eða í gegnum Noona appið og í síma 534-1010.