KFS tóku á móti Vatnaliljum á Týsvelli í gær. Ian Jeffs, aðstoðarþjálfari karlaliðs ÍBV og A landsliðs kvenna skoraði þrennu fyrir KFS þegar liðið bar sigur úr býtum. Jeffs skoraði fimm mörk í þremur leikjum í 4. deild í fyrra og núna er hann búinn að skora þrjú mörk í einum leik. KFS vann leikinn örugglega 5-1 og er á toppnum í A-riðli þegar fyrstu umferð riðilsins er lokið. Næsti leikur KFS er á útivelli gegn Afríku þann 28 .júní.
Tígull heyrði í Gunnari Heiðari Þorvaldssyni þjálfara KFS. „Ég er mjög ánægður með peyjana og þeir stóðu sig virkilega vel í gær. Þeir voru að nýta sér það sem við höfum verið að taka fyrir á æfingum í vetur. Við erum með mjög gott lið og þar reynast inn á milli lúxus leikmenn með reynslu og er Ian Jeffs þar á meðal sem gerði sér lítið fyrir og var með þrennu í gær. Yngri leikmennirnir sem eru að taka sín fyrstu skref njóta góðs af því að æfa og spila með reynsluboltunum okkar sem hjálpar þeim vonandi í framtíðinni. Þetta var vel útfærður leikur og vonandi er þetta það sem koma skal á tímabilinu“ segir Gunnar Heiðar.
Það voru þrír leikir spilaðir í 4. deild karla í gærkvöldi, en leikið var í A-riðli, B-riðli og D-riðlinum. En KFS spilar í A-riðli.
KFS 5 – 1 Vatnaliljur
1-0 Ian Jeffs (’24)
2-0 Ian Jeffs (’51)
2-1 Bjarki Steinar Björnsson (’53)
3-1 Ian Jeffs (’60)
4-1 Daníel Már Sigmarsson (’71)
5-1 Daníel Már Sigmarsson (’82)
