Athyglisverðar sýningar í verslunargluggum – hefjast fimmtudaginn kl. 18:00
Þetta ár hefur verið skrítið svo vægt sé til orða tekið og horfum við inn í annan veruleika með ströngum samskiptareglum og samkomubanni. Það þarf ekki að rekja þær raunir nánar en ákveðið er að vera með sýningar sem falla að breyttum forsendum í nafni Safnahelgar. Verður sýnt í sjónvarpstækjum í gluggum verslana í miðbænum sem hefst klukkan 18.00 á fimmtudaginn 12. nóvember og rúlla sýningarnar áfram allan föstudaginn, laugardaginn og sunnudaginn. Kjörið tækifæri fyrir fólk að mæta á sýningu án þess að brjóta samskiptareglur.
Safnahelgin og síðar Safnavikan hafa verið ljósið okkar í upphafi skammdegisins sem hellist yfir okkur á þessum árstíma. Verið ein allsherjar menningarveisla í tónum og litum þar sem ótrúlegur fjöldi listamanna hefur komið við sögu þessi 16 ár. Ekki má gleyma bókakynningum sem margar hafa verið eftirminnilegar og hlut fræðimanna sem hafa flutt okkur fróðleik um hin ólíkustu mál.
Þegar öll sund virtust lokuð kom upp hugmynd í Sagnheimum að söfnin í Safnahúsi myndu fá verslunareigendur í miðbænum í lið með sér til að sýna í gluggum í sjónvarpi valið efni í eigu Ljósmynda- og Kvikmyndasafns Vestmannaeyjabæjar.
Það var vel tekið í þetta og verður sýnt á eftirfarandi stöðum:
Litlu Skvísubúðinni, Geisla, Smart, Baldurshaga við Bárustíg, Flamingó, Póley, Brothers Brewery, Pennanum, Miðstöðinni, Leturstofunni og Tölvun.
Þeim eru þökkuð snögg og góð viðbrögð. Vissulega hefði verið gaman að fá fleiri í lið með okkur en mikinn tíma tekur að klippa saman efnið, ekki síst kvikmyndirnar sem eiga eftir að vekja mikla athygli. Líka kjörið tækifæri fyrir fólk að skreppa í miðbæinn, fara rúntinn gangandi eða akandi og rifja upp gamla tíma og sjá framtíðina sem við eigum í leikskólakrökkum dagsins í dag en þær myndir er frá leikskólunum og Víkinni.