Íris R

Kæru Eyjamenn

06.04.2020

Nú eru komnar niðurstöður úr nær öllum þeim rúmlega 1500 sýnum sem tekin voru í skimun Íslenskrar erfðagreiningar hér í Eyjum. Ég vil færa Kára Stefánssyni og ÍE bestu þakkir fyrir þeirra framlag og fyrir að hafa brugðist svona vel við óskum okkar. Einnig vil ég þakka Hirti Kristjánssyni, umdæmislækni sóttvarna, og hans fólki fyrir frábæra frammistöðu við sýnatökuna sjálfa, sem er sú langumfangsmesta sem framkvæmd hefur verið í einu byggðarlagi á Íslandi, og sjálfsagt þótt víðar væri leitað.

Samtals hafa í heildina hátt í 2000 Eyjamenn farið í sýnatöku á einhverjum tímapunkti eða um 45% allra bæjarbúa. Hér eru því eðlilega mörg staðfest smit. Ef við yfirfærum þetta hlutfall sýnatöku á landið allt væri búið að skima um 170.000 Íslendinga en ekki um 28.000, eins og raunin er; og þá væri örugglega búið að staðfesta miklu fleiri smit á landsvísu.

Það er í raun mjög gott að þessi umfangsmikla skimun skuli hafi farið fram hér í Eyjum og að þessi smit skuli hafa verið greind. Þá er hægt að grípa til viðeigandi ráðstafana með einangrun og sóttkví, sem sýnt hefur verið fram á að virka svo vel til að hefta frekara smit. Þetta gefur okkur líka fyrirheit um að við komumst fyrr út úr þessu en ella.

Starfsfólk HSU í Eyjum hefur staðið vaktina fyrir okkur hér af miklum krafti og dugnaði. Ég er líka gríðarlega ánægð með allt starfsfólk leik- og grunnskóla og starfsfólk í öldrunar- og félagsþjónustu sem einnig hefur unnið frábært starf við mjög krefjandi aðstæður. Það sama má reyndar segja um allt starfsfólk Vestmannaeyjabæjar. Einnig ber að þakka öllu því fólki sem stendur í framlínunni í hinum ýmsu störfum og heldur samfélaginu okkar gangandi.

Við Eyjafólk höfum tekist á við þetta stóra samfélagsverkefni með æðruleysi og stillingu, eins og áður þegar hefur gefið á bátinn. Hertum reglum um samkomubann hefur verið sýndur mikill skilningur enda eru þær settar í okkar þágu. En þetta er ástand sem reynir á marga. Þetta er, a.m.k. tímabundið, gjörbreytt líf og raunar ný heimsmynd.

Það er fátt mikilvægara við þessar aðstæður en að ríghalda í gleðina og jákvæðnina, sama hvað! Við eigum auðvelt með að halda samskiptum við vini og ættingja gangandi með allri þeirri tækni sem stendur til boða í þeim efnum. Gætum alveg sérstaklega að þeim sem eldri eru og öðrum þeim sem eiga kannski erfiðara með að nota samskiptatæknina og þar með í meiri hættu á að einangrast. Starfsfólk Hraunbúða hefur t.d. verið alveg ótrúlega hugmyndaríkt og hjálplegt í þeim efnum og á miklar þakkir skildar.

Við erum vön því hér í Eyjum að klára okkur býsna vel af því mótlæti sem náttúran kýs að henda í okkur endrum og eins. Það munum við líka gera núna.

Förum vel og gætilega með okkur sjálf og aðra um páskana og njótum þeirra heima hjá okkur. “Vorið kemur víst á ný“!

Kærar páskakveðjur til ykkar allra
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search