13.12.2020
Aðventa, jól og áramót eru syrgjendum oft erfiður tími. Sumir vilja helst að hátíðinni ljúki sem fyrst og að desembermánuður hverfi hreinlega af almanakinu.
Í jólaundirbúningnum hvarflar hugur syrgjandans til látins ástvinar sem ekki fær að njóta hátíðarinnar og það getur því reynst honum mjög erfitt að undirbúa jólahátíð.
Það er dagamunur á fólki í sorg, hún er svo óútreiknanleg og erfitt er að skipuleggja fram í tímann. Syrgjandi gæti afboðað sig á síðustu stundu í
jólaboð eða dottið í hug að mæta í boð sem hann var áður búinn að afþakka. Sýndu þessu skilning. Láttu vin í sorg vita að þú styðjir hann þrátt fyrir að plön breytast.
NOKKUR RÁÐ TIL AÐ KOMAST Í GEGNUM HÁTÍÐARNAR
Jólahátíðin er í huga margra hátíð fjölskyldunnar. Því er mikilvægt að fjölskyldan ræði það hvernig hún vill halda upp á jólin og áramótin. Gerið ekki of miklar kröfur til ykkar eða fjölskyldunnar.
• Engin ein leið er rétt til þess að fara í gegnum aðventuna eða hátíðisdagana. Sum ykkar vilja fylgja fjölskylduhefðum en önnur vilja breyta til. Ágætt er að hugsa einungis um ein jól í einu. Gott er að láta jólaundirbúninginn og skipulag hátíðanna ráðast af því hvernig ykkur líður þessa stundina. Á næsta ári er hægt að hafa jólahátíðina með öðru sniði.
• Einbeitið ykkur að því sem þið treystið ykkur til að framkvæma. Ekki hugsa um hvað þið „ættuð að gera“.
Ef þannig stendur á hjá ykkur er líka í lagi að gera ekki neitt. Þegar fjölskyldan hefur ákveðið hvernig hún vill skipuleggja jólin, látið þá aðra vita.
• Látið það eftir ykkur að framkvæma á aðventunni aðeins það sem ykkur finnst skemmtilegt. Leitið leiða til þess að komast hjá því að gera það sem ykkur vex í augum.
Hafið í huga að það er hægt að kaupa bakkelsið. Biðjið um aðstoð við það sem ykkur þykir erfitt að framkvæma, eins og t.d. að kaupa jólagjafir, hengja upp jólaseríur eða skreyta jólatréð. Ekki hika við að biðja aðra um aðstoð.
• Ef þið hafið ákveðið að skreyta heimili ykkar fyrir jólin, fáið hjálp frá börnunum, fjölskyldu eða vinum. Það er í góðu lagi að gera hlutina öðruvísi en vanalega eða jafnvel að skreyta alls ekki neitt fyrir þessi jól. Gott er þó að hafa í huga að kertaljós og notaleg tónlist getur aukið á vellíðan ykkar.
• Það getur létt verulega álagið að þiggja matarboð hjá ættingjum eða vinum yfir hátíðarnar. Ef þið ákveðið að halda sjálf matarboð skoðið þá hvort þið viljið breyta út af venjunni, t.d. hafa annað í matinn eða bæta við nýjum hefðum.
• Verið góð við ykkur sjálf og búist ekki við of miklu. Þegar sorg er í hjarta er eðlilegt að vera sorgmæddur, einnig á jólum. Gráturinn líknar og hreinsar. Ykkur er óhætt að sýna tilfinningar og e.t.v. hjálpar það öðrum í fjölskyldunni sem einnig er að glíma við sorg.
• Þegar jólin nálgast getur verið gott að ræða við einhvern sem þið treystið fyrir tilfinningum ykkar, áhyggjum og þakklæti. Talið líka um það sem reynist ykkur erfitt. Þiggið alla hjálp sem ykkur býðst. Frídagar leiða oft til þess að söknuðurinn eftir ástvini magnast. Leyfið ykkur að fara í gegnum erfiða tilfinningu eins og söknuð.
• Mikill erill fylgir jólahátíðinni og þess vegna er mikilvægt fyrir ykkur að hvílast vel. Þið þurfið á allri ykkar orku að halda.
• Söknuður eftir ástvini fylgir okkur ævina á enda en reynslan hefur sýnt að flestir geta samt sem áður notið hátíðar eins og jóla, hátíðar ljóss og friðar.
www.sorgarmidstod.is