Átta leikir eru á dagskrá heimsmeistaramótsins í handbolta í Egyptalandi í dag, þrír þeirra í beinni útsendingu RÚV og RÚV 2.
Stórleikur dagsins er viðureign Íslands og Alsír
Alsír hóf keppnina á að vinna Marokkó í æsispennandi leik, 24-23. Ísland tapaði á sama tíma gegn Portúgal, 25-23.
Ísland og Alsír hafa mæst áður á HM í handbolta. Á HM í Kumamoto árið 1997 gerðu liðin óvænt jafntefli, 24-24. Ísland vann reyndar svo þann undanriðil og endaði í fimmta sæti mótsins sem er besti árangur Íslands á HM.
Á HM í Túnis vann Ísland svo öruggan sigur, 34-25. Það mótið komst íslenska liðið hins vegar ekki áfram úr riðlakeppninni og varð í 15. sæti sem er lakasti árangur Íslands á HM. Aftur mættust liðin á HM í Katar 2015. Þar vann Ísland 32-24 eftir að hafa lent 7-1 undir í byrjun.
Liðin mættust svo einnig á Ólympíuleikunum í Los Angeles 1984. Þar hafði Ísland betur, 19-15, og náði svo sjötta sæti, sem á þeim tíma var besti árangur liðsins á Ólympíuleikum.
Alls hafa þjóðirnar mæst átta sinnum og hefur Ísland unnið sjö leikjanna. Sá eini sem ekki vannst var jafntefli í Kumamoto 1997.
Leikur Íslands og Alsír er klukkan 19:30 í kvöld og er í beinni útsendingu RÚV og Rásar 2. Upphitun hefst í HM stofunni á RÚV klukkan 19:15.