Í dag, á fullveldisdegi þjóðarinnar þann 1. desember, er hátíðisdagur í Vestmannaeyjum. Elsta samfellt starfandi hlutafélag á Íslandi og ein af burðarstoðum samfélagsins í Eyjum fagnar 120 ára afmæli
Saga Ísfélagsins er samofin sögu atvinnu- og tækniþróunar á öllum sviðum, ekki bara hér í Vestmannaeyjum heldur einnig hvað varðar uppbyggingu landsins alls.
Upphaf Ísfélagsins er að leita í þeirri þjóðfélagsbyltingu sem ruddi sér til rúms undir lok 19. aldar og við upphaf þeirrar 20. Smám saman varð mönnum ljósara að „sá guli er utar“ eins og þjóðskáldið orti. Línuöld hófst í Vestmannaeyjum laust fyrir aldamótin 1900 og þörfin á betri geymslum varð sífellt meiri þar sem beituskortur og aðstöðuleysi við geymslu hennar varð tilfinnanlegri. Þörfin á íshúsi til að mæta nýjum tímum varð upphaf þess að Árni Filippusson verslunarmaður, Gísli Lárusson útgerðarmaður, Magnús Guðmundsson formaður, Magnús Jónsson sýslumaður og Sigurður Sigurfinnsson hreppstjóri voru kjörnir í undirbúningsnefnd að stofnun hlutafélags um að reisa og reka íshús er gæti þjónað kauptúninu er þá hýsti um 600 íbúa.
Hlutafé hins nýstofnaða Ísfjelags Vestmannaeyja hf. var kr. 1.400 en var fljótlega aukið. Þrátt fyrir það voru fyrstu árin erfið og þurftu eigendur oft að hlaupa undir bagga með því að leggja sjálfir fram fé til beitukaupa og jafnvel ískaupa en hvorutveggja voru meginumsvif félagsins í byrjun. Árið 1904 var Gísli J. Johnsen kosinn formaður stjórnar og hafði það starf með höndum að heita mátti samfellt fram til 1927. Á þeim tíma fimm- til sexfaldaðist íbúafjöldinn í Vestmannaeyjum og það varð mikil gæfa félagsins að svo framsýnn einstaklingur sem Gísli hélt um stýrið á þeim umróta og uppbyggingatímum sem þá fóru í hönd.
Ísfélagið á því upphaf sitt að rekja til djörfungar þeirra sem sáu tækifæri nýrra tíma og varð smám saman að stórveldi meðal íslenskra fyrirtækja og eitt af flaggskipum Vestmannaeyja og landsins alls. Þegar litið er yfir farsæla 120 ára sögu þessa stóra fyrirtækis þykir mér merkilegast að sjá hversu framganga þess er ofin saman við blábyrjun línuveiða, síðar vélbátavæðingar í Vestmannaeyjum og loks hinna gríðarlegu tækifæra sem opnuðust eftir seinni heimstyrjöld. Alls staðar er Ísfélagið og þeir sem þar eru í fyrirsvari í lykilhlutverkum Vestmannaeyjum og landinu öllu til hagsbóta.
Saga Ísfélagsins er í raun sagan af því hvernig nútíminn hélt innreið sína í Eyjum.
Við þessi tímamót sendir Vestmannaeyjabær eigendum og starfsfólki Ísfélags Vestmannaeyja kærar hamingjuóskir með von um áframhaldi stórhug og vöxt þessa síunga fyrirtækis. Megi Ísfélagið dafna sem lengst og best, okkur öllum áfram til heilla.
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja.
Forsíðumyndinn er skjáskot úr riti Ísfélagsins sem dreifist um alla eyjuna í dag.
Myndin er tekin 1915 af Heimaey