Íslenska hönnunarmerkið Endurtakk hefur gefið gráu Icelandair flísteppunum, sem flestir Íslendingar kannast vel við, nýtt líf.
Úr teppunum er nú orðin til flíspeysa sem greinilega hefur notið mikilla vinsælda og eru buxur í stíl einnig væntanlegar á næstu dögum.
Endurtakk sagði frá því á samfélagsmiðlum á mánudaginn að þökk sé bílaleigunni Kukukampers hafi þeim hlotnast 50 Icelandair teppi til viðbótar og hafi þau því getað framleitt fleiri eintök af peysunni.
Hönnun Endurtakk snýst um að breyta úrgangi og öðrum notuðum efnum í flíkur og fylgihluti.
Icelandair teppin eru í boði fyrir farþega um borð í vélum flugfélagsins en hins vegar er ekki leyfilegt að taka þau með sér frá borði. Margir virðast ekki gera sér grein fyrir því miðað við fjöldann sem Endurtakk hefur fengið í hendurnar.