12.10.2020
Í ár var stofnað nýtt íþróttafélag í Vestmannaeyjum, ÍBV Esports þar sem fólk með áhuga á rafíþróttum getur fundið sér vettvang. Rafíþróttir eða tölvuleikir eins og við flest þekkjum þessa nýju íþróttagrein hafa átt vaxandi vinsældum að fagna. Rafíþróttafélög spretta upp um allan heim og keppt er á stórum mótum þar sem miklir peningar eru í húfi. Rafíþróttir eru komnar undir hatt Íþrótta- og Olympíusambands Íslands og ÍBV Esports stefnir á að verða hluti af ÍBV íþróttasambandi. Eyjamenn eiga efnilega spilara, einn er orðinn atvinnumaður og fleiri stefna á sömu braut.
„Ég er að vonast til að við náum að hefja æfingar í nóvember. Það fer svolítið eftir hversu vel gengur að koma aðstöðunni upp,“ sagði Jón Þór Guðjónsson, formaður ÍBV Esports þegar hann var spurður hvenær hann sér fyrir sér að aðstaða verði opnuð fyrir æfingar sem verður í húsnæði Tölvunar, Herjólfsgötumegin.
Jón Þór fékk í fyrra 500.000 króna styrk frá Vestmannaeyjabæ til að stofna félagið sem hluta af átakinu, viltu hafa áhrif. Hann segir styrkinn koma sér vel en meira þurfi til. „Ég get byrjað með þessum peningum frá Vestmannaeyjabæ en þeir duga aðeins fyrir tveggja mánaða leigu á tölvubúnaði og húsnæði. Þannig að ég þarf að ná ákveðnum fjölda iðkenda svo að þetta gangi upp.“
Markvissar æfingar
Fyrir hvaða aldur er þetta? „Ég hafði hugsað mér að byrja með 10 ára og eldri. Mun skipta þeim í yngri og eldri hópa og jafnvel skipta þeim upp eftir leikjum ef við náum inn góðum hópi iðkenda.“
Jón Þór segir það trú stjórnar að markvissar æfingar í réttu umhverfi hafi jákvæð áhrif á ungmenni. „Iðkendur æfa í hópum eða einir og sér og þjálfa um leið samskipti, samvinnu, samkennd, sjálfsaga og fleira. Á sama tíma leggja iðkendur stund á áhugamálið sitt. Við viljum skapa félagslegt umhverfi og stuðning fyrir ungmenni og fá forráðamenn þeirra í lið með okkur.“
Verðið þið með líkamsrækt samhliða æfingum í tölvuleikjum? „Já. Hugmyndin er að setja þetta þannig upp að tvær æfingar í viku verði við tölvur og ein æfing í viku hreyfing. Æfingar við tölvu verða líka settar þannig upp að inn á milli verður hreyfing og teygjur. Það verður ekki bara setið við tölvuna allan tímann. Ég vil gera iðkendum grein fyrir því hversu mikilvægt það er að hreyfa sig reglulega, borða rétt ásamt mikilvægi svefns.“
Hefurðu einhverja hugmynd um hvað félagsgjaldið verður? „Félagsgjaldið er ekki komið á hreint. Búnaðurinn er dýr í leigu og þetta verða í kringum 10.000 til 12.000 krónur á mánuði.
Næstu skref eru í raun bara að fara græja aðstöðuna og fá tölvubúnaðinn og setja hann upp. Til að byrja með mun ég sjá um æfingar.“
Sjálfur er Jón Þór ekki að æfa eða í keppa í augnablikinu. „Ég reyni að spila eitthvað með félögum mínum. Þetta eru ekki beint æfingar heldur upp á gamanið og félagsskapinn. Ég hef þó tekið þátt í nokkrum keppnum og ég sá um HRinginn eitt árið í háskólanum með nokkrum peyjum. HRingurinn er stærsta lanmót á Íslandi,“ sagði Jón Þór að endingu.
Rafíþróttir njóta vaxandi vinsælda um allan heim
Hvað er rafíþrótt?
Á Wikipeda segir að í rafíþróttum sé keppt í tölvuleikjum. Oft skipulagðar keppnir í fjölspilunarleikjum milli atvinnumanna sem keppa ýmist sem einstaklingar eða lið. Tölvuleikjakeppnir hafa lengi verið hluti af tölvuleikjamenningunni en vegur þeirra hefur vaxið á síðustu árum. Eru rafíþróttir orðnar mikilvægur hluti af þróun og markaðssetningu tölvuleikja.
Rafíþróttir hafa smásaman hlotið viðurkenningu sem gildar íþróttagreinar innan íþróttahreyfingarinnar. Alþjóðaólympíunefndin hefur til að mynda rætt möguleikann á því að rafíþróttir verði hluti Ólympíuleikanna.
Talið er að rafíþróttaviðburðir nái til 454 milljóna áhorfenda um allan heim og að veltan sé meira en milljarður dala á ári. Með vaxandi vægi streymisþjónusta á borð við YouTube og Twitch eiga rafíþróttir auðveldara með að ná til fjölda áhorfenda og skapa þannig tekjur.
Íslendingar mjög virkir
Mörg og sum mjög fjölmenn mót hafa verið haldin hér á landi. Rafíþróttasamtök Íslands (RÍSÍ) voru stofnuð árið 2018. Árið 2019 var stofnuð rafíþróttadeild RÍSÍ sem fékk heitið Lenovo-deildin en varð Vodafone-deildin á þessu ári. Mót sem haldin hafa verið á árinu eru m.a. International Games í Háskólabíói. Þar var keppt í leikjunum Counter-Strike: Global Offensive, FIFA 20 og League of Legends. Þá hleypti Stöð 2 af stokkunum rafíþróttarás, Stöð 2 Esports. Nokkur íslensk íþróttafélög hafa stofnað rafíþróttadeildir.
Miklir peningar eru í spilunum og hægt að gera það gott í atvinnumennsku. Eyjamenn eiga einn atvinnumann, Val Marvin Pálsson sem keppti í Bandaríkjunum.
Guðmundur Tómas spilar í Úrvalsdeild í FIFA
„Ég hef verið að spila í Úrvalsdeildinni í FIFA, sem er sýnd á Stöð2 eSports og þar erum við átta sterkustu FIFA spilarar á Íslandi,“ segir Guðmundur Tómas Sigfússon, sem er virkur í rafíþróttum.
Hann segir að valið hafi verið í Úrvalsdeildina út frá stöðu í Íslandsmótinu í FIFA sem fram fór í vor. „Þar vorum við þó nokkrir frá ÍBV og var gaman að sjá hve góð þátttakan var.
Með mér í deildinni eru Íslands-meistarar síðustu tveggja ára, auk margra mjög góðra spilara. Ég hef farið frekar illa af stað, tapað þremur af fyrstu fjórum viðureignunum. Ég náði þó jafntefli við Íslandsmeistarann frá 2019, sem er í öðru sæti deildarinnar eins og er.
Við höfum verið að spila í FIFA 20 en nú var að koma út nýr leikur, FIFA 21 og skiptum við strax yfir í hann. Ég er algjörlega nýr á þessu sviði og hef bara verið að leika mér í frítíma
mínum. Til að taka næsta skref þarf maður að eyða mun meiri tíma í þetta heldur en ég geri.“
Guðmundur Tómas stefnir á að ná allavega einum sigri í deildinni og byggja síðan ofan á það. „Það eru leiknar 14 umferðir sem klárast í byrjun desember. Ég vona að ég komi til með að spila aðeins betur í FIFA 21 heldur en ég gerði í 20. Ætti þá að vinna mér inn einhver stig í næstu umferðum,“ sagði Guðmundur Tómas að lokum.