- Bæjarfjölmiðillinn í Vestmanneyjum -

Í tilefni dagsins – fáeinir drættir úr sögu fyrstu bæjarstjórnarkosninga í Eyjum

Ég er að færast á þann aldur að kosningar eru hátíðisdagar. Tvíþætt erindi á ég við þá er þessi orð lesa. Annað er að hvetja alla sem geta til að nýta sér kosningarétt sinn, hitt er að rifja upp fáeina sögumola fortíðar fyrir fróðleiksfúsa.

Kosningarnar í dag eru hinar 34. í röð bæjarstjórnarkosninga í Eyjum. Ekki þarf að minna marga á að Vestmannaeyjar fengu kaupstaðarréttindi árið 1919, svo mjög sem hundrað ára afmælisins var minnst hér með ýmsum viðburðum allt árið 2019.

Þetta ár, 1919, var kosið til bæjarstjórnar í fyrsta sinn. Segir í Skeggja, eina blaðinu sem þá kom út í Eyjum, að kjósendur hafi verið „eitthvað yfir 850“ en þá bjuggu hér ríflega 2000 manns. Samtals greiddu 556 kjósendur atkvæði í þessum fyrstu kosningum okkar og hefur þá kjörsókn verið eitthvað yfir 65%.

Ef við leikum okkur að því að yfirfæra þessar tölur til nútímans þá hafa um 70% íbúa Vestmannaeyjabæjar árið 2022 rétt á því að kjósa samanborið við um 40-45% íbúa árið 1919.

Ekki er að efa að margir aðkomandi hafi búið í Eyjum á fyrstu árum vélbátaaldar sem ekki hafa átt heimahöfn í Vestmannaeyjum. Hitt hefur þó skipt meira máli að 1919 voru reglur þrengri hvað varðar kosningarétt. Miðað var við 25 ára aldur í stað 18 ára nú; lögheimili í Eyjum í ár samanborið við 3 vikur nú og unnt var að svipta fólk kosningarétti vegna flekkaðs mannorðs, lögræðissviptingar og þegins sveitarstyrks.

Árið 1915 fengu konur loks kosningarétt á Íslandi, en þó skertan þar sem miðað var við að konur væru 40 ára en karlar 25 ára. Skyldi aldursmarkið lækka hjá konum um 1 ár næstu 15 árin þar til fullu jafnrétti kynjanna væri náð. Þessu lögum var hins vegar breytt fimm árum síðar eða 1920 og fengu konur þá kosningarétt 25 ára.

Það merkilega er að í bæjarstjórnarkosningunum á Íslandi, sem fara fram árið áður eða 1919, var fullt jafnrétti kynjanna strax innleitt, enda þótt löggjafinn hefði ekki enn staðfest þau lög. Bæjarstjórnarkosningar á Íslandi árið 1919 voru ekki haldnar á sama degi um allt land eins og nú tíðkast heldur ákvað hver staður sinn kosningadag. Í Vestmannaeyjum var kosið í bæjarstjórnarkosningunum 1919 þann 16. janúar. Það er því hugsanlegt, þó ég geti ekki fullyrt það að svo komnu máli, að fyrstu bæjarstjórnarkosningarnar í Vestmannaeyjum hafi jafnframt verið fyrstu kosningarnar á Íslandi þar sem konur og karlar voru jöfn að lögum. Vera má að ég verði rekinn til baka með þessa kenningu en það er full ástæða til að kanna hana til hlítar.

Hvað sem þessu merkilega atriði líður þá var gengið til kosninga í Eyjum 1919 og voru 7 listar í framboði og hafa aldrei verið fleiri. Kosið var um 9 bæjarfulltrúa eins og í dag en ýmislegt var með öðru móti en nú tíðkast.

Í fyrsta lagi er að sjá að vald bæjarstjórnar hafi verið um margt í naumara lagi. Þannig eru lög um bæjarstjórn Vestmannaeyja frá 1919 býsna ítarlega framsett, í 34 greinum – sem eru frá 1 til 30 línum í Alþingistíðindum. Við höfum auðvitað ekki tíma til að fara djúpt ofan í fyrstu lögin í örstuttri samantekt en það er ekki að sjá annað en að hendur bæjarstjórnar séu talsvert bundnar umfram það sem nú er, samanber 30 gr.:

Bæjarstjórnin má ekki, án samþykkis stjórnarráðsins, takast á hendur neina skuldbindingu til langframa, sem ekki beinlínis hvílir á henni samkvæmt lögum, ekki taka af innstæðufje bæjarins, ekki selja nje veðsetja fasteignir hans nje kaupa nýja fasteign, ekki taka stærri lán nje til lengri tíma en svo, að þau verði borguð aftur af tekjum þess árs, sem í hönd fer, nje heldur endurnýja slík lán eða fresta greiðslu þeirra.

Í öðru lagi voru engar konur í framboði 1919 og er það ekki fyrr en 1934 að konur finnast á framboðslista í Eyjum til borgarstjórnar. Það ár eru 3 konur á listum flokkanna, engin þeirra kemst í borgarstjórn en sú sem efst situr var í 5. sæti fyrir A listann sem fékk 3 menn kjörna. Sigurbjörg Axelsdóttir, Dadda skó, varð fyrst kvenna til að taka sæti í borgarstjórn. Það varð hins vegar ekki fyrr en 1974 er hún tók 4. sæti á D lista sem fékk fjóra kjörna og er með ólíkindum að svo lengi hafi þurft að bíða.

Í þriðja lagi var sá merkilegi háttur hafður á hjá framboðunum að sömu einstaklingar gátu boðið sig fram á fleiri en einum lista í sömu kosningum og má velta fyrir sér, samstöðunnar vegna, að endurvekja þann sið. Þannig sátu aðeins 18 frambjóðendur á listunum 7 einungis á einum lista, hinir röðuðu sér á 2, 3 og jafnvel 4 lista þeir sem mest eftirspurn var eftir. Einn þeirra var oddviti á tveimur listanna og vonandi að málefnaágreiningur hafi ekki verið of mikill á milli þeirra ólíku framboða!

Í fjórða lagi var tala frambjóðenda á listum einföld tala bæjarfulltrúa eða 9 einstaklingar á hverjum lista í stað tvöfaldrar tölu eða 18 eins og tók að tíðkast, þó ekki væri lagaskylda, frá 1930.

Í fimmta lagi var enginn bæjarstjóri í bæjarstjórninni 1919. Oddviti bæjarstjórnar var bæjarfógetinn og gegndi hann því starfi fram til 1924, er sérstakur bæjarstjóri var kosinn í beinni kosningu. Það gerðist aðeins einu sinni og frá þeim tíma var ákvörðun um bæjarstjóra á hendi meirihlutans hverju sinni eins og nú.

Í sjötta lagi var kosið árlega, um 3 bæjarfulltrúa í einu, og sátu þá 6 áfram eftir hverjar kosningar, eða hver maður í 3 ár. Þetta form er að mörgu leyti mjög áhugavert en því var breytt 1930 er farið var að kjósa fjórða hvert ár eins og enn tíðkast og ryðja salinn hverju sinni.

Í sjöunda lagi voru listabókstafir framboðanna ekki jafnhelgir á þeirri tíð og nú er orðið. Framboðin voru einfaldlega merkt með bókstöfum frá A í stafrófsröð eftir því sem framboðunum var skilað inn. Þannig var, svo maður fylgi einum listabókstaf eftir, B listinn, borinn fram 1919 af einstaklingum sem tengdust Tanganum; 1920-1929 ýmist af mönnum sem kallaðir voru í sjálfstjórnarhópnum eða fulltrúar verkamanna þar til Tobbi á Kirkjubæ blandar sér í baráttuna og krækir í stafinn. Árið 1930 er B listinn loks borinn fram af flokki og þá af Sjálfstæðisflokki, 4 árum síðar af Alþýðuflokknum og loksins 1938 af Framsóknarflokknum. En þá lauk þessari hringekju og flokkarnir fengu fasta listabókstafi.

Í áttunda lagi var kjörstjórnin 1919 mun atkvæðameiri en sú er nú situr þó væn sé. Munurinn er lagaramminn sem sniðinn var. Árið 1919 var bæjarfógeti formaður kjörstjórnar og átti í krafti síns embættis að verða oddviti nýrrar bæjarstjórnar. Annar háttvitur kjörnefndarmaður fór í framboð og til að tryggja sína glæstu innkomu í bæjarstjórn bauð hann sig fram fyrir fjóra lista auk þess að vera opinber eftirlitsmaður með kosningunum! Þá eins og nú stóð kjörfundur til kl. 22 en kjörnefndinni tók að leiðast þófið um hálftíma fyrr og ákvað að loka kjörstað „enda höfðu þá kjósendur hætt að gefa sig fram“. Höfðu þá kjörstjórar, eins og þeir voru þá kallaðir, gert sína skyldu og hjálpað kjósendum sem höfðu æskt aðstoðar, m.a. vegna sjóndepru og „fingursmeins“.

Það er margt heillandi við sögu Vestmannaeyja. Eitt er víðfeðmi hennar, alls staðar má kafa dýpra – leita betur. Sá er hér tekur saman vonast til að geta skrifað sögu bæjarstjórnarkosninga í Eyjum og má setja sem markmið að ljúka slíkri samantekt um næstu kosningar – að fjórum árum liðnum.

En í dag skulum við öll nýta rétt okkar til að kjósa og taka þannig þátt í að móta söguna, mæta og setja X við þann kost sem við teljum að sé hæfastur til að móta bjarta og öfluga framtíð fyrir byggðarlagið og íbúa þess.

Gleðilegan kosningadag.

1904 Frá vinstri Borg og síðan Dverg … áður en Barnaskólahúsið var byggt.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is