Í tilefni af prófkjöri Sjálfstæðismanna

Það eru gömul og ný sannindi að enginn veit sína ævina fyrr en öll er.  Fyrir tveimur árum hefði ég ekki getað trúað því að ég myndi vera að skrifa grein sem brottfluttur Eyjamaður.  Sömuleiðis hefði ég ekki getað ímyndað mér að ég væri að skipta mér af málefnum Vestmannaeyja sem brottfluttur Eyjamaður.  Þaðan af síður var það á dagskránni að ræða málefni Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum.  En hér er ég og get ekki annað, því mér rennur blóðið til skyldunnar.

Ég get ekki sagt að ég þekki persónulega alla frambjóðendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins um komandi helgi, öll nöfnin þekki ég þó og get sett sömuleiðis parað saman andlit við nöfnin.  Nokkra þekki ég þó ágætlega og það verður að segjast eins og er að það er hið prýðilegasta fólk.  Í bæjarfélagi þar sem um og yfir helmingur bæjarbúa eru Sjálfstæðismenn er það auðvitað óumflýjanlegt að þar finnist ágætis fólk innan um.

Erindi þessa stutta pistils er hins vegar ekki að lofa og mæra Sjálfstæðismenn upp til hópa heldur einungis að vekja athygli á einum frambjóðanda, henni Margréti Rós Ingólfsdóttur.

Margrét Rós kom til starfa hjá okkur í félagsþjónustunni í Eyjum einhvern tímann undir lok fyrsta áratugar þessarar aldar, var þá kornung (og er að sjálfsögðu enn) en fljótlega var ljóst að hún bjó yfir visku og leikni í samskiptum sem er svo nauðsynleg í þessum málaflokki.  Með okkur tveim tókst fljótlega vinátta sem hefur blómstrað og vaxið með árunum. Margrét Rós er ein af þeim sem hægt er að spjalla við tímunum saman og það þrátt fyrir að við deilum hvorki pólitískum viðhorfum né ást á köttum.

Hún er með eindæmum bóngóð og dugnaður hennar er eitthvað sem allir þekkja.  Viljir þú fá verk unnið fljótt og vel þá biður þú hana. Hún hefur einstaka hæfileika til að setja sig inn í mál og ljúka því á farsælan hátt.  Hún á einnig sérstaklega auðvelt með að fá fólk með sér til að ganga í verkin með bros á vör. Það er nefnilega eitthvað við nærveru hennar sem heillar og ólíkt mörgum Sjálfstæðismönnum (með fullri virðingu fyrir þeim) hefur hún þurft að hafa fyrir lífinu og á því auðvelt með að setja sig í spor annarra.

Í bæjarfélagi þar sem það virðist óhjákvæmilegt að meirihlutinn er hægra megin við miðju er það svo óendanlega mikilvægt að það sé að minnsta kosti gott fólk sem fer þar með ferðina.  Það er því auðmjúk ábending mín sem vinstri sinnaður brottfluttur Eyjamaður (og ekki einu sinni fædd þar og uppalin), ef þið eigið þess nokkurn kost, setjið Margréti Rós í eitt af efstu sætunum í prófkjörinu um næstu helgi.

Þó sumir segi að það væri hálfgert svindl, þá svei mér þá, ef ég væri ekki brottflutt þá held ég að myndi skrá mig í flokkinn til að gera slíkt hið sama.

 

Með góðri Eyjakveðju úr Kópavoginum

Guðrún Jónsdóttir

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search