28.10.2020
Lítil hugmynd fæddist þegar ég var úti í garðinum heima að vinna. Við hjá Hjólreiðafélagi Reykjavíkur höfum ekki getað haldið uppi æfingum fyrir börn, unglinga né fullorðna í langan tíma, mörg fyrirtæki með fólk í fjarvinnu, atvinnuleysi aukist, ungmenni flest í fjarnámi í mennta- og háskólum. Þetta er þriðja bylgjan sem við erum að ganga í gegnum og við erum orðin pínu þreytt og þung andlega. Hvað getum við gert sem samfélag?
Ég trúi því að við höfum alltaf eitthvað val og núna þurfum við virkilega á því að halda að velja að sjá ljósið í deginum
Ég ákvað því að leita til nokkurra fyrirtækja til að hjálpa okkur að setja af stað samfélagslegt átak #HVETJA.
#HVETJA er samstarfsverkefni ÍBR og Rauða krossins.
Bakhjarlarnir eru Íslenskrar erfðagreiningar, VÍS, 66°Norður og Arion banki.
#HVETJA er samfélagslegt átaksverkefni sem snýst um að auka jákvæðni í samfélaginu og passa upp á líkamlegt og andlegt heilbrigði. Mörg okkar eru orðin einangruð, höfum þurft að vera í sóttkví, misst vinnuna eða verið að vinna að heiman og því er félagslega tengslanetið okkar ekki hið sama eins og venjulega og þetta ástand er farið að taka á okkur öll. Andleg heilsa er mjög mikilvæg í gegnum þessa tíma og hreyfing er ein af helstu stoðum andlegs heilbrigðis. Við það að fara út í stutta stund komum við blóðrásinni á hreyfingu, fáum dagsbirtuna og stolt og gleði yfir því að taka þessi skref og #HVETJA aðra áfram. Við þurfum að öllum líkindum að lifa með veirunni næstu vikur og mánuði og því skiptir miklu máli að við snúum bökum saman, aukum jákvæðni í samfélaginu, sýnum náungakærleika og pössum upp á hvert annað.
Gerum þetta saman með því að #HVETJA hvert annað.
Með þessu móti erum við að senda og fá fullt af jákvæðum hvantningum til hvers annar og hreyfa okkur en hvort tveggja stuðlar að betri heilsu og líðan.
Nú sem fyrr skiptir máli að við stöndum saman í gegnum þennan erfiða tíma, sjáum ljósið í deginum og pössum upp á hvert annað.
Takk fyrir yndislega fólk!
Kolla #HVETJA