Þriðjudagur 23. apríl 2024
Herjólfur - Tígull

Hvers vegna Herjólf heim?

16.09.2020

Mannskynssagan geymir fjölda dæma um þjóðir og þjóðabrot sem hafa sem hafa sökum deilna um samgöngur og yfirráð yfir samgönguleiðum endað í margháttuðum átökum og deilum.

Flestar Evrópskar stórborgir byggðust t.a.m. upp á svæðum þar sem gott aðgengi var að vatni til áveitu vegna landbúnaðarframleiðslu og enn fremur að til staðar væru góðar samgöngur svo tryggja mætti fólksflutninga, aðföng og auðvelda verslun og viðskipti, en oftar en ekki voru umræddar samgönguleiðir siglingar á ám og vötnum. Góðar og öflugar samgöngur skipta því íbúa hvers byggðarlags og hvers svæðis miklu máli, þegar kemur að lífsgæðum og möguleikum á að þróa þau og bæta til framtíðar. Einangrun er nefnilega haft á alla framþróun.

Umræða um samgöngumál

Það er því ekkert nýtt við það að umræður um samgöngur og samgöngumál séu heitar og skipti fólki í hópa eftir viðhorfum hvers og eins, það á við í Eyjum sem og annars staðar, enda mikið hagsmunamál að hafa stjórn á og geta ráðið yfir samgönguleiðum. Þrátt fyrir klassískt hnútukast í umræðunni í Eyjum þá sameinaðist sú bæjarstjórn Vestmannaeyja, sem sat á árunum 2014-2018, um að leggja mikið í sölurnar til að fá yfirráð yfir samgöngum milli lands og Eyja með því að taka yfir rekstur ferjunnar Herjólfs í því skyni að geta ráðið sem meiru um þróun samfélagsins í Eyjum til lengri tíma.

Upphaf og yfirtaka bæjarins

Þegar fyrrverandi bæjastjórn, undir forystu þáverandi bæjarstjóra, Elliða Vignisson, og oddvita E-listans, Stefáns Jónassonar, sammæltist um að láta reyna á hvort mögulegt væri fyrir bæinn að taka yfir rekstur Herjólfs, og ná á þann hátt stjórn á samgönguleiðinni milli lands og Eyja, byggði sá vilji bæjarstjórnar á sjónarmiðum um að yfirtaka og fjölgun ferða væri forsenda þess að hægt væri að auka við lífsgæði íbúa, bæta aðgengi fyrirtækja að flutningum til og frá Eyjum og enn fremur að eiga þess kost að fjölga ferðamönnum með bættri markaðssetningu á Vestmannaeyjum. Það var einróma mat bæjarstjórnar að forsenda þess að þetta gæti náðst væri yfirtaka á rekstri Herjólfs og reksturinn yrði í höndum heimamanna. Um þá ákvörðun var mikill einhugur í þáverandi bæjarstjórn.

Eftir langar fundarsetur, mikil skrif og öflun og ritun álita, og reyndar allskonar uppákomur, náðust loks samningar við ríkið um yfirtöku á rekstri ferjunnar og verulega fjölgun ferða. Miklu skipti um að þessir samningar náðust var sú staðreynd að vilji núverandi samgönguráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar og enn fremur fyrrverandi samgönguráðherra, þ.e. Jóns Gunnarssonar, sem báðir keyrðu málið áfram þrátt fyrir mikla andstöðu innan ríkiskerfisins.

Eðli málsins samkvæmt töldu þeir einstaklingar sem höfðu staðið í viðræðum fyrir hönd Eyjamanna, og náð þeim árangri sem raun ber vitni, að almenn sátt myndi nást um yfirtökuna og framkvæmd hennar einsog hún var lögð upp.

Sveitarstjórnarkosningar og hagsmunamat

Það kom engum á óvart að fyrrverandi rekstraraðili skipsins, Eimskip hf., hafi verið andvígur yfirtöku bæjarins á rekstrinum, enda miklir hagsmunir í húfi fyrir hann hvað varðar magn flutninga til og frá Eyjum og stýring á þeim Á hinn bóginn kom á óvart að heilt framboð, sem bauð fram í síðustu sveitarstjórnarkosningunum, þ.e. H-listinn, væri í grunninn andvígt yfirtöku bæjarins á rekstrinum. Bar listinn einkum fyrir sig svipuð eða sambærileg sjónarmið og áður höfðu heyrst frá fyrrverandi  rekstraraðila, þ.e. fjárhagsleg áhætta, takmörkuð þekking á rekstri ferja og möguleg misnotkun á aðgengi farþega að skipinu, með vísan til fyrri tíðar þegar skipið var rekið af heimamönnum.

Eðli málsins samkvæmt lögðu þeir aðilar sem voru í fyrirsvari fyrir bæinn í viðræðum við ríkið mat á framangreind sjónarmið, þ.e. þau sjónarmið sem hugsanlega gátu mælt gegn yfirtökunni. Til að mynda var af þeim sökum ákveðið að reksturinn skyldi vera í sjálfstæðu hlutafélagi í eigu bæjarins og að upphaflegt hlutafjárframlag bæjarins til félagsins yrði undir 2% af eiginfjárgrunni bæjarins. Framlagið var enn fremur undir 5% af því handbæra fé sem bærinn átti á þeim tíma sem ákvörðunin var tekin. Af þeim sökum m.a., eftir að hafa lagt mat á alla kosti og galla, var það samdóma álit þáverandi bæjarstjórnar að áhættan væri mjög ásættanleg samanborin við þá möguleika sem því fylgdu að taka reksturinn yfir og þannig geta stýrt samgönguleiðinni milli lands og Eyja, sem er vitaskuld lífæð Eyjanna.

Það var því fyrst og fremst hagsmunamat á kostum og göllum yfirtökunnar sem leiddu til þess að ákveðið var að fara þá leið að reyna að ná samningum við ríkið um yfirtökuna, enda sannfæring allra sem að málinu komu að rétt væri að láta á þetta reyna eftir mikla skoðun. Þar var ofarlega í hugum allra sem að málinu komu að Vestmannaeyjar, einsog önnur samfélög, þurfi að berjast fyrir bættum lífsgæðum íbúa sinna og hagsmunum þeirra, einsog önnur sveitarfélög. Liður í þeirri baráttu væri að bæta samgöngur til muna með mun fleiri ferðum skipsins, sem væri þá líka grundvöllur þess að hægt væri að bæta lífsgæði íbúanna. Niðurstaða þessa mats var því á að ávinningurinn af því taka reksturinn yfir væri meiri en áhættan sem í því fólst að viðhalda óbreyttu ástandi, m.t.t. framtíðarhagsmuna íbúanna einsog áður segir.

Að okkar mati eiga fyrrverandi bæjarstjóri, þáverandi oddviti E-listans og þáverandi bæjarstjórn miklar þakkir skildar fyrir það að hafa haft þann kjark sem til þurfti til að taka þá ákvörðun að taka reksturinn yfir, enda eru engar ákvarðanir, sem marka raunveruleg spor til lengri tíma, teknar nema það fólk sem þær tekur hafi þann kjark sem til þarf, jafnvel þó að það þurfi að leggja sjálft sig undir í pólitískum átökum einsog var í þessu tilviki.  Þessi ákvörðun um yfirtökuna var því hvorki einföld né óumdeild en þau ákváðu að fara þessa leið sökum þess að þau mátu hagsmuni samfélagsins best borgið með því að fara þess leið. Fyrir það eiga þau miklar þakkir og virðingu skilda.

Núverandi staða og sérstæð niðurstaða ársreiknings 2019

Þrátt fyrir að yfirtaka á rekstri Herjólfs hafi gengið vel, og samningar gerðir við ríkið sem eiga að tryggja ákveðnar rekstrarforsendur sem takmarka áhættuna, er rétt að viðurkenna að við mat á réttmæti yfirtökunnar var ekki tekið tillit til mögulegs heimsfaraldurs (Covid-19). Þá er enn fremur rétt að nefna að gerðar voru breytingar á stjórn Herjólfs ohf., að undirlagi meirihluta bæjarstjórnar, þar sem undirritaðir gengu útúr stjórninni og nýir aðilar tóku við, þ.e. á vordögum 2019. Þrátt fyrir það gekk rekstur Herjólfs afar vel á því ári og allt leit út fyrir að árið 2020 yrði það besta í sögu Herjólfs, miðað við þann mikla vöxt sem varð í flutningum vegna mikillar fjölgunar ferða og lækkun á verðum, einkanlega fyrir heimamenn, auk þess sem pantanastaðan var góð.

Af þessum sökum vakti það sérstaka athygli að niðurstaða ársreiknings fyrir árið 2019 ber um 16,4 milljóna króna tap á rekstrinum það árið. Við skoðun á ársreikningnum sést að óumdeild útistandandi krafa Herjólfs á Vegagerðina, skv. samningi um greiðslur úr hendi ríkisins sökum þess að skipið var ekki afhent í þeim búningi sem um var samið, er ekki færð til eignar í ársreikningi. Eðlileg færsla þeirrar kröfu til eignar í ársreikningi hefði breytt niðurstöðu ársreiknings fyrir árið 2019 úr tapi í tuga milljóna hagnað. Krafa þessi er að stórum hluta tilkominn vegna viðbótarkostnaðar sem var fyrirséður vegna vanefnda ríkisins við að afhenda skipið á réttum tíma og í þeim búningi sem það átti að vera, uppsetningu rafmagnshleðslustöðva, ákvörðun Samgöngustofu um mönnun lá ekki fyrir en samið var um yfirtökuna með fyrirvara um kröfur stofnunarinnar um mönnun, auk þess sem skipið var ekki tilbúið þegar það var afhent vegna deilna við skipasmíðastöðina í Póllandi. Þá áttu allar greiðslur að vera vísitölutryggðar. Það leikur því enginn vafi á því að umrædd krafa er óumdeild eign Herjólfs hf.

Um þennan fyrirséða viðbótarkostnað var samið sérstaklega, með gerð viðaukasamnings við gildandi þjónustusamning, sem var undirritaður þann 29. mars 2019, eða daginn áður en félagið tók yfir reksturinn. Þar var gengið frá því að umræddar bætur yrðu greiddar samkvæmt ákveðnum forsendum og nema þær kröfur samkvæmt gildandi samningum sjálfsagt vel á þriðja hundrað milljónir króna í dag vegna þess tímabils sem liðið er frá því að Herjólfur yfirtók reksturinn. Tjón vegna Covid-19 er svo sjálfstætt mál sem þarf að gera upp sérstaklega.

Það var því ekki í samræmi við raunveruleikann að í athugasemdum í ársreikningi Herjólfs ohf., vegna ársins 2019, er því lýst yfir að óvissa væri um að félagið væri rekstrarhæft, einsog þar segir. Það er nema von að spurt sé, hvað fólki gangi eiginlega til með svona yfirlýsingu sem á ekki við nein rök að styðjast þegar horft er til rekstrarársins 2019. Hvort þessa yfirlýsingu megi rekja til þess að H-listi, sem nú er hluti af meirihluta bæjarstjórnar, hafi verið að koma óljósum skilaboðum á framfæri skal ekkert fullyrt um, en svona óábyrgar yfirlýsingar eru ekki að hjálpa samfélaginu á nokkurn hátt þegar til framtíðar er litið.

Reynslan af yfirtökunni og framtíðin

Nú þegar nokkurn veginn eitt og hálft ár er liðið frá yfirtöku Herjólfs ohf. á rekstri skipsins, má fullyrða að enginn vill fara aftur til þess tíma þegar ferðir Herjólfs milli lands og Eyja mátti telja á fingrum annarrar handar á góðum degi og voru vart nema helmingur þess sem varð eftir yfirtöku Herjólfs ohf. á rekstrinum. Að mati undirritaðra var yfirtakan forsenda þess að hægt verði að byggja upp til framtíðar þannig að Eyjamenn sjálfir stjórni því hvernig þeirri uppbygginu verði háttað. Það er því mikilvægt að tímabundin heimsfaraldur (Covid-19), sem hefur reyndar haft gríðarleg áhrif á rekstur flest allra fyrirtækja, einkum í ferðaþjónustu, verði ekki til þess að kjark bresti til að horfa til framtíðar og byggja upp í Eyjum, líktog fyrrverandi bæjarstjórn lagði grunninn að með yfirtöku á rekstri Herjólfs. Núverandi forsvarsmenn bæjarins má því ekki bresta kjark til að halda áfram að vinna að þeim markmiðum sem fyrrverandi bæjarstjórn lagði grunninn að á sínum tíma.

Nauðsyn á gerð langtímasamnings um rekstur Herjólfs

Það er vel þekkt að árið 2020 verður erfitt hjá Herjólfi ohf., líktog flestum fyrirtækjum í ferðaþjónustu vegna heimsfaraldursins. Það má þó ekki gleyma því meðan við erum í miðju stormsins að hann mun líða hjá. Það er því einlæg von okkar að allir geti sameinast um verkefnið og þau markmið sem að var stefnt frá upphafi með yfirtökunni, sem eru fyrst og fremst bætt lífgæði fólks og bætt samkeppnisskilyrði fyrirtækja í Eyjum, nái fram að ganga. Það er líka mat þeirra, sem þetta rita, að ef Vestmannaeyjum eigi að takast að fá til sín stærri skerf af þeirri miklu aukningu sem mun verða í komu ferðamanna til landsins þegar faraldrinum linnir með aukinni ferðatíðni frá því sem nú er þannig að samgöngur til og frá Eyjum verði eins góðar og þær geta orðið. Til þess að af fjölgun geti orðið verður markaðssetning á Eyjunum að vera enn markvissari en hún er í dag. Þar getur Herjólfur ohf. verið leiðandi aðili.

Þetta er enn mikilvægara nú en áður, þegar fastar flugsamgöngur hafa verið lagðar niður a.m.k. um sinn, að fólk sameinist um það að halda áfram stjórn á þjóðveginum milli lands og Eyja í heimabyggð og láta ekki aðra skammta ferðatíðni úr hnefa. Í því efni þarf þó alltaf að sýna ábyrgð. Það er enginn sem getur stýrt þessari leið og umferð um hana betur en Eyjamenn sjálfir. Þetta er sérstaklega mikilvægt í því ljósi að sjávarútvegurinn mun ekki í fyrirsjáanlegri framtíð standa undir fjölgun fólks í Eyjum, þar hefur hann hefur markað þá stefnu að auka tæknivæðingu fyrirtækjanna til að gera þau samkeppnishæfari. Það felur eðli málsins í sær fækkun starfa til lengri tíma. Því þarf að skjóta fleiri stoðum undir samfélagið.

Það er ljóst að sá aðili sem áður rak ferjuna hafði allt önnur sjónarmið að leiðarljósi við reksturinn en núverandi rekstraraðili, eðlilega. Núverandi rekstraraðili þarf fyrst og fremst að horfa á reksturinn út frá samfélagslegum hagsmunum, meðan fyrrverandi rekstraraðili horfði, eðli málsins samkvæmt, einkum til arðsemi af sínum rekstri. Það var ekki hægt að álasa honum fyrir það. Af þeim sökum er nauðsynlegt að núverandi forsvarsmenn félagsins og bæjarstjórn marki skýra stefnu um framhald rekstrar Herjólfs. Við þær aðstæður sem nú ríkja, þegar nokkuð góð þekking er orðinn til um reksturinn og þá möguleika sem hann gefur, er nauðsynlegt að okkar mati að gerður verði langtímasamningur við ríkið um reksturinn þannig að öll áætlanagerð og uppbygging grundvallist af langtímasjónarmiðum varðandi hagsmuni samfélagsins en ekki skammtíma smáskammtalagfæringum, án þess að hægt sé að marka langtímastefnu. Þetta er grundvallaratriði að okkar mati.

Enn sem komið er hefur ekkert það komið fram sem gerir að verkum að efi eigi að ríkja um þá leið sem ákveðið var að fara á sínum tíma, varðandi yfirtöku á rekstrinum, nema síður sé. Það er því mikilvægt að verkefnið njóti áfram sem hingað til ríks stuðnings innan samfélagsins í Eyjum, þrátt fyrir tímabundið áfall í formi heimsfaraldurs. Í því efni þarf núverandi stjórn Herjólfs og bæjarstjórn, einkum meirihlutinn, að fara að senda frá sér mun skýrari skilaboð um það að viljinn sé skýr um að halda forræði á samgönguæðinni í Eyjum og sýna að forystan er skýr um hvert skuli halda.

Það er ljóst að rekstur Herjólfs og samgöngur við Eyjar munu skipta sköpum um uppbyggingu samfélagsins til framtíðar og samkeppnishæfni þess. Þeim hagsmunum má ekki fórna á altari sérhagsmuna eða í pólitískum tilgangi vegna hræðslu við að taka stórar ákvarðanir sem munu hafa mikil áhrif inn í framtíðina. Til þess er of mikið í húfi fyrir Vestmannaeyjar

 

Lúðvík Bergvinsson

Grimur Gíslason

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search