Tígull hafði samband við hana Ólu Heiðu og fengum við hana til að fara aðeins yfir verkefnið. En Óla Heiða hefur haldið utan um þetta verkefni ásamt þjálfurum sem eru Erlingur Richards, Magnús Karl Magnússon og Bjarný Þorvarðardóttir. Við fengum að kíkja á einn hópinn í Íþróttamiðstöðinni þegar þau voru á æfingu. Þar náðum við tali af fjórum þátttakendum verkefnisins. En það eru þau Ingibjörg Bernódusdóttir, Þyrí Ólafsdóttir, Ólafur Gíslason og Bjarni Valtýrsson sem við fengum til að svara nokkrum spurningum.
Verkefnið stendur yfir í tvö ár, skiptist í fjögur sex mánaða tímabil. Markmiðið með þátttöku er að gera eldri einstaklinga hæfari til að takast á við breytingar sem fylgja hækkandi aldri og spyrna fótum gegn öldrunareinkennum með markvissri þátttöku í þol- og styrktaræfingum.
Verkefnið hófst hér í Eyjum í ágúst 2019 með heilsufarsmælingum sem eru endurteknar á 6 mánaða fresti.
Einnig eru teknar blóðprufur af þátttakendum til að fylgjast meðal annars með kólesteróli, blóðsykri og þrígleseríði auk þess er skimað fyrir áhættuþáttum á sviði hjarta- og æðaskjúkdóma.
Á hverju þrepi þjálfuninnar fá þátttakendur fræðslu. Í vetur hafa komið til okkar næringarfræðingur, öldrunarlæknir með fræðslu um lyf og þjálfun og sjúkraþjálfari með fræðslu um jafnvægi og jafnvægisþjálfun. Næst kemur til okkar hjartalæknir með erindi um hjarta- og æðakerfið.
Fastir æfingadagar eru 3x í viku með þjálfara en aðra daga fylgja þátttakendur fyrirfram ákveðinni þjálfunaráætlun.
Þolþjálfun er einu sinni í viku í Herjólfshöllinni og styrktarþjálfun í þreksal Íþróttahússins (Litla Hressó) tvisvar í viku.
Þátttakendur fá sérstaka styrktar-áætlun sem byggir á doktorsverkfni Janusar Guðlaugssonar.

Þátttaka fór fram úr björtustu vonum. Þegar verkefnið var kynnt mættu vel yfir eitthundrað en til þátttöku skráðu sig rúmlega 90.
Þjálfun hófst strax í byrjun september og eru þátttakendur núna 89. Þátttakendur eru einstaklega áhugasamir og duglegir í þjálfuninni. Ég veit ekki betur en að fólk sé almennt ánægt með verkefnið. Fyrir okkur þjálfarana er einstaklega gefandi og skemmtilegt að vinna með þessum hópi fólks.
Það er ágætt að hafa í huga að þegar við hættum að vera í fastri vinnu þá er það okkar vinna að hugsa vel um heilsuna okkar, segir Óla Heiða þjálfari.
Létt spjall við nokkra þátttakendur:

Nafn: Ingibjörg Bernódusdóttir
Aldur: 67 ára
Hefur þú stundað hreyfingu að staðaldri? Nei var byrja
Hefur Janus hreyfingin breytt þínu lífi og þá hvernig? Já, finn mikin mun, bakið mun betra og öll styrkari
Hve oft ertu að æfa í viku? 2x viku hérna og alltaf göngu 30 mín á dag alltaf þegar ég kemst
Ertu að huga að mataræðinu með? Nei er með gott mataræði alltaf

Nafn: Ólafur Gíslason
Aldur: 70 ára
Hefur þú stundað hreyfingu að staðaldri? Nei bara í gegnum vinnuna
Hefur Janus hreyfingin breytt þínu lífi og þá hvernig? Já, félasskapur og styrkur og koma sér af stað í meiri hreyfingu hefur gert mikið fyrir mig.
Hve oft ertu að æfa í viku? 2x hér með Janusverkefninu og svo fer ég 1-2 aukalega í viku að lyfta.
Ertu að huga að mataræðinu með?
Nei held bara mínu striki áfram með mitt mataræði

Nafn: Þyrí Ólafsdóttir
Aldur: 70 ára
Hefur þú stundað hreyfingu að staðaldri? Já fer í sund og hef gert lengi og svo Janus núna með.
Hefur Janus hreyfingin breytt þínu lífi og þá hvernig? Já mikið, finn fyrir miklu meiri styrk og þessi félasskapur geri mikið fyrir mig.
Hve oft ertu að æfa í viku? 2x í janus hreyfinguna og fer í sund 3x í viku kl. 6:00 á morgnana.
Ertu að huga að mataræðinu með?
Já tók það líka í gegn með þessu.

Nafn: Bjarni Valtýrsson
Aldur: 68 ára
Hefur þú stundað hreyfingu að staðaldri? Nei ekki nema síðastliðið rúmt ár.
Hefur Janus hreyfingin breytt þínu lífi og þá hvernig? Já töluvert, svo hef ég styrkst mikið og félagskapurinn hérna gerir mikið fyrir mig.
Hve oft ertu að æfa í viku? 4-5x í viku
Ertu að huga að mataræðinu með?
Nei held bara mínu striki þar.