Hverjum er treystandi?

Núna lofum við sem erum í framboði öllu fögru. Það er ekki nema von að margir hristi hausinn og velti fyrir sér af hverju ástandið er eins og það er á Íslandi ef allir vilja svona vel.

Persónulega vil ég trúa því að langflestir fari út í stjórnmál af góðum hug, en svo fer fólk að rekast á veggi og áttar sig á því að það þarf að taka þátt í einhverjum „leikjum“ til að spila með og vera gjaldgengt í „hópinn“. 

Það er þá sem virkilega reynir á. Hefur „bláeygi“ frambjóðandinn styrkinn sem þarf, til að standa á sínu og taka langhlaupið?  Eða gefst hann upp gegn ofureflinu, hvort sem það er flokksræðið, embættismannakerfið, þrýstingur sérhagsmunafla eða þetta allt og meira til, samanlagt?

Flestir sem fara út í stjórnmál eru óskrifað blað hvað þetta varðar og erfitt að segja til um staðfestu þeirra þegar þeir eru komnir að kjötkötlunum. Aðrir hafa þegar sýnt sitt rétta andlit eftir mörg ár á Alþingi. 

Það er bæði hlægilegt og sorglegt í senn að hlusta á fólk sem hefði fyrir lifandis löngu getað verið búið að útrýma fátækt á Íslandi, afnema verðtryggingu lána heimilanna, bæta hag aldraðra, bæta hag öryrkja og byggja upp heilbrigðisþjónustu, svo að nokkuð sé nefnt, tala fjálglega um þessi mál – enn einu sinni, eftir margra ára svik.

Að standa við stóru orðin

Það er látið eins og þessi mál séu flókin en þau eru það ekki. Þessi mál snúast fyrst og fremst um forgangsröðun og ef fólk en ekki fjármagn og sérhagsmunir hefðu einhvern tíman verið í forgangi hjá þessu fólki og flokkum, væri löngu búið að gera þetta allt.

Það er óafsakanlegt að læsa fólk, eins og öryrkja og aldraða í fátækragildru og hana þarf að opna. Á meðan einhver á ekki til hnífs og skeiðar á Íslandi, þá á það að vera algert forgangsmál áður en farið er í nokkur önnur mál. Það ætti ekki einu sinni að þurfa að ræða það!

Afnám verðtryggingar er ein lítil lagabreyting sem tekur enga stund að vinna, leggja fram og samþykkja. Flokkur fólksins á það frumvarp tilbúið.

Heilbrigðisþjónustan er flóknara mál, en þar er engu að síður hægt að gera svo miklu betur strax með nokkrum einföldum aðgerðum eins og t.d. að auka heimaþjónustu við aldraða svo þeir getir farið heim að spítölum og fjölga þannig rúmum fyrir aðra þjónustu. Á sama tíma þarf að fara í uppbyggingu hjúkrunarheimila, þar sem öldruðum væri sýnd virðing og þeir ekki sviptir fjárhagslegu sjálfstæði vegna búsetu á þeim.

Að eyða biðlistum er einfaldlega verkefni sem þarf að ganga í, því það er engan veginn ásættanlegt að fólk þjáist að óþörfu í einu ríkasta landi heims, Þjáningar og skerðing lífsgæða verður aldrei metin til fjár, en þetta myndi þetta fljótt borga sig  fyrir ríkið. Annar kostnaður vegna fólks á biðlistum er er svo sannarlega meiri en sá sem nemur einni eða tveimur aðgerðum.

Þetta eru bara dæmi um það sem verður gert ef fólk en ekki fé, er sett forgang.

 

Hvernig geta kjósendur „mælt“ staðfestu og trúverðugleika frambjóðenda?

Stutta svarið við þessari spurningu er að það er ekki hægt en þó má oft finna einhverjar vísbendingar.

Við vitum öll að það er sorglega sjaldgæft að frambjóðendur standi við loforð sín. Það er hins vegar þekkt að það er fyrst undir pressu sem þinn innri maður kemur í ljós.

Ég ætla að leyfa mér að vitna í Dr. Phil, sem hefur stundum rétt fyrir sér. Hann segir oft að besti mælikvarðinn á það hvernig þú bregst við í framtíðinni, sé hvernig þú hefur brugðist við í fortíðinni.

Engin veit hvað framtíðin ber í skauti sér þannig að í mínum huga snýst spurningin um trúverðugleika frekar um hvað við höfum séð til frambjóðenda í fortíðinni frekar en einstök mál.

Margir frambjóðendur eru óskrifað blað en aðrir hafa sýnt úr hverju þeir eru gerðir, hvort sem það er með jákvæðum eða neikvæðum hætti.

 

Þekkt fyrir baráttu og að gefast aldrei upp

Ég get stolt lagt fyrir kjósendur „fortíð“ mína og Flokks fólksins. Inga Sæland og Guðmundur Ingi hafa barist eins og ljón fyrir hagmunum öryrkja, aldraðra og fátækra inni á Alþingi og aldrei gefið tommu eftir. Á síðasta vetri lögðu þau fram hátt í 40 mál, sem er sennilega met hjá þingflokki og alveg klárlega ef miðað er við höfðatölu hans.

Þau komu þremur þessara mála í gegn en hinum var öllum hafnað af sama fólkinu og hefur nú sett þau á loforðalistann sinn!

Hvað mig sjálfa varðar þá hef ég staðið í framlínu baráttunnar fyrir hagsmunum heimilanna, gegn einum sterkustu sérhagsmunaöflum landsins, fjármálakerfinu sjálfu. 

Ég hef sýnt að ég tekst algjörlega óhrædd á við þau og ég muni aldrei gefa neitt eftir, hvorki í baráttu við þau né fyrir öðrum réttlætismálum.

Ég og Flokkur fólksins bjóðum fram krafta okkar fyrir þig og þína hagsmuni.

Hvern vilt þú hafa í þínu liði?

Settu X við F fyrir þína framtíð!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir

Formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og oddviti Flokks fólksins í Suðurkjördæmi

 

 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search