Aðventan

Hver er þín von fyrir þessi jól? – Sr. Guðmundur Örn um aðdraganda jólanna

Nú styttist í að við förum að telja niður til jóla með formlegum hætti þegar desember nálgast óðfluga.  Ég, eins og flestir aðrir hlakka til jólanna, en eins og venjulega reikna ég með dassi af stressi í kringum hátíðina.  Kannski er stressið ekki með sama hætti hjá prestum og mörgum öðrum.  Stressið hjá mér snýst kannski meira um hvað maður eigi nú að segja í jólamessunum, hvort maður nái að koma orðum að „jólastemmningunni“ sem hver og einn upplifir á sinn hátt og hvort maður komist skammlaust í gegnum hátíðartónið í messunum.

Maður vonar auðvitað það besta.

En svo er það auðvitað þannig að vandamálin sem ég glími við í kringum helgihaldið eru að vissu leyti lúxus vandamál, ef svo má segja, því þau eru æði mörg, alltof mörg, sem glíma við annarskonar stess og kvíða fyrir jólin.  Aðstæður hjá fólki hafa kannski breyst frá síðustu jólum á dramatískan hátt, einhverjir hafa misst ástvini og eru að upplifa sín fyrstu jól án þeirra.  Fjölskyldumunstur hefur kannski breyst og þá þarf að taka á því á einhvern hátt, fjárhagur bágur hjá öðrum, sem veldur kvíða og stressi yfir því að standast kröfur eða  hreinlega eiga nóg fyrir sig og sína.

Já aðstæður fólks geta verið misjafnar og við skyldum ekki gleyma að hafa það í huga að vel flest höfum við það bara nokkuð gott.  Okkur hættir hins vegar til að byggja kvíða- og stressmúra í kringum okkur varðandi atriði sem skipta kannski ekki svo miklu máli.

Í þessu samhengi er ágætt að rifja upp sögu, sem aðalsöguhetja myndarinna „Magnús“ sagði þegar hann hugsaði um lúxusvanda fólks:

„Hann Jói litli átti ekki gott heima fyrir, foreldrarnir voru drykkjusjúklingar sem voru að skilja, amma hans, sem honum þótti svo vænt um, var ný dáin, og húsið hafði brunnið ofan af fjölskyldunni.  

Þetta var rétt fyrir jólafrí, og ekki útséð með hvað yrði um fjölskylduna um jólin.  Kennarinn spyr Jóa:  Hvað eru 7 sinnum 7.  Jói svaraði engu þar sem hann sat og starði út um gluggan annarshugar.  

Þannig að kennarinn spyr aftur, heldur hvasst, hvert sé svarið við spurningunni.  Þá svarar Jói, rólega og yfirvegað „Það vildi ég, frú Ólöf, að ég hefði áhyggjurnar þínar.“

Samt er það svo ótrúlegt að inní allar aðstæður, sama hversu vonlausar þær virðast vera, þá hverfur vonin ekki.  Og fyrir þessi jól vona ég að sjálfsögðu að við getum öll átt gleðileg jól.

Fyrir síðustu jól töldum við í Landakirkju niður dagana til jóla með jóladagatali, sem sr. Viðar félagi minn átti mestan heiður af ásamt Halldóri B. Halldórssyni, þar sem við fengum eyjamenn til að tala um þakklætið og voru viðtökurnar mjög góðar.  Að þessu sinni er vonin viðfangsefni jóladagatals.  Hér er sami háttur hafður á og í fyrra, þ.e. fyrsti „gluggi“ jóladagatalsins fer í loftið 1.desember og sá síðasti 24.desember.  Nálgun þeirra sem taka þátt í dagatalinu er afar ólík, þótt boðskapurinn hverfist allur um vonina á einn eða annan hátt, enda er annað óhjákvæmilegt en að reynsla og upplifun fólks af lífinu og tilverunni komi með einhverjum hætti inní frásagnirnar.  Það er einmitt það sem gerir dagatalið svo lifandi og gott.  Með dagatali Landakirkju vonumst við til þess að fólk hugi að vonum og væntingum í sínu eigin lífi og annarra.  

Hver er þín von fyrir þessi jól? 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search