Hvatningarverðlaun fræðsluráðs

Þann 23. maí s.l. voru Hvatningarverðlaun fræðsluráðs afhent í fimmta sinn í Einarsstofu. Markmiðið með verðlaununum er að vekja athygli á því sem vel er gert í fræðslustarfi. 

Verðlaunin eru hugsuð sem hrós og hvatning til þeirra sem sýnt hafa framúrskarandi vinnu og er einnig staðfesting á því að viðkomandi er fyrirmynd á því sviði sem viðurkenningin nær til. Ellefu tilnefningar til Hvatningarverðlauna fræðsluráðs bárust þetta árið. Fræðsluráð valdi að venju úr þeim tilnefningum og veitti eftirtöldum aðilum

sérstaka viðurkenningu:

Sigurlína Sigurjónsdóttir, ritari í Barnaskólanum.

Sigurlína hefur oftar en einu sinni verið kölluð hjarta skólans, bæði af nemendum og starfsfólki. Hún er einstök í sínu starfi. Tekur á móti öllum eins, hvort sem það eru nemendur, starfsmenn eða foreldrar. Hún er vinnusöm og bóngóð, gengur 100% í allt sem hún er beðin um og oft meira til. Það má segja að hún haldi vel utan um skólann og skólinn væri mikið fátækari án hennar.

Risið í Barnaskólanum

Í Risinu í Barnaskólanum má finna starfsfólk sem vinnur af mikilli natni með nemendum sem þurfa námsaðlögun. Þar sem áhersla er að nemendum líði vel og sýni námi sínu áhuga. Starfsfólkið í Risinu sinnir einstaklingsþörfum nemendanna vel með það að markmiði að ná því besta úr þeim og það hafa þau sýnt í starfi sínu. Hópurinn er skipaður af góðu starfsfólki sem hjálpast að við að láta skóladaginn ganga sem best fyrir alla.

Samstarf milli leikskólans Kirkjugerðis, Bjargsins og Hugarró

Samstarf Kirkjugerðis og Hraunbúða hefur lengi verið í gangi en í vetur var markvisst samstarf með Bjarginu og Hugarró. Í hverri viku fer hópur af nemendum á eldri deildum Kirkjugerðis í heimsókn á Hraunbúðir, annars vegar í Bjargið og hins vegar að hitta heimilisfólk í Hugarró. Þar hitta nemendur eldri borgara samfélagsins, föndra með þeim, leika við þau, spjalla og syngja o.fl. Verkefnið er farsælt, eflir félagsþroska barna og fullorðna og kennir nemendum samfélagslega ábyrgð.

Samningar vegna styrkja úr Þróunarsjóði leik-, grunn- og tónlistarskóla voru einnig undirritaðir við þetta tilefni. Markmiðið með Þróunarsjóði leik-, grunn- og tónlistarskóla er að stuðla að þróunar- og nýsköpunarstarfi í skólunum. Fimm verkefni hlutu styrk úr Þróunarsjóði leik-, grunn- og tónlistarskóla þetta árið og nemur heildarupphæð styrkja kr. 4.350.000. Eftirtalin verkefni hljóta styrk:

Heimasíða fyrir heimilisfræði í GRV (Barnaskóla). Markmiðið með verkefninu er að setja allt sem tengist heimilisfræði sem kennt er í GRV á sama stað. Þar verða sett inn myndbönd, myndir og orðaforði til að nemendur eigi auðveldara með að sækja sér fróðleik, skoða betur það sem þeir vilja bæta sig í og jafnvel æfa sig heima. Þannig auðveldar það nemendum aðgengi að upplýsingum og ýtir undir sjálfstæði þeirra í vinnubrögðum. Harpa Hauksdóttir stendur að verkefninu.

Innleiðing Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Réttindaskóli UNICEF. Markmið verkefnisins er að auka þekkingu á réttindum barna. Börn og fullorðnir þurfa að þekkja Barnasáttmálann og geta tengt hann við skólastarf. Einnig verður unnið með aukið lýðræði til að auka og efla tækifæri barna til þess að hafa áhrif á öll málefni sem þau varða. Börnin fá tækifæri til að læra um eigin réttindi og réttindi annara barna, þvert á námsfög. Fyrir hönd leikskólans Kirkjugerðis munu Eyja Bryngeirsdóttir, Halldóra Björk Halldórsdóttir og Ásta Björk Guðnadóttir standa að verkefninu.

Lausnahringurinn. Markmið verkefnisins er að innleiða Lausnahringinn frá fimm ára deild og upp skólagönguna í grunnskólanum, fræða samstarfsfólk og börn í skólanum, útbúa áætlun og verkefni sem til þarf svo hægt sé að vinna markvisst með efni verkefnisins. Linda Óskarsdóttir, Fanndís Ómarsdóttir, Ásta Lilja Gunnarsdóttir og Sigríður Sigmarsdóttir standa að verkefninu.

Lestrarhestarnir er verkefni þar sem markmiðið er að hjálpa nemendum sem hafa átt í erfiðleikum með lestur að uppgötva lestraráhuga sinn og bjóða þeim upp á óhefðbundna leið til að nálgast lesturinn. Unnin verða lestrarverkefni tengd hestum. Nina Anna Dau stendur að verkefninu.

Stigskipt nám í stærðfræði í anda þróunarverkefnisins Kveikjum neistann – leiðarljós í stærðfræði á mið- og unglingastigi. Markmiðið er að nemendur fái áskoranir við hæfi og nái að festa grunnþættina betur í sessi. Berglind Þórðardóttir stendur að verkefninu.

Vestmannaeyjabær óskar verðlauna- og styrkhöfum innilega til hamingju. Verkefnin bera vott um það góða starf sem er í skólum sveitarfélagsins og þá frábæru kennara sem eru tilbúnir að taka frumkvæðið og leggja sitt að mörkum til að gera gott skólastarf enn betra.

Frétt frá vef Vestmannaeyjabæjar.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search