Hvatningarverðlaun fræðsluráðs voru afhent í dag í þriðja sinn

Hvatningarverðlaun fræðsluráðs voru afhent í þriðja sinn í dag 9. maí við háðtíðlega athöfn í Eldheimum. Við sama tækifæri voru samningar undirritaðir við þá sem hljóta styrki úr Þróunarsjóði leik- og grunnskóla. Arna Huld Sigurðardóttir, formaður fræðsluráðs, afhenti verðlaunin og undirritaði samningana fyrir hönd fræðsluráðs.

Markmið með hvatningarverðlaunum er að vekja athygli á því sem vel er gert í fræðslustarfi. Verðlaunin eru hugsuð sem hrós og hvatning til þeirra sem sýnt hafa framúrskarandi vinnu og er einnig staðfesting á því að viðkomandi er fyrirmynd á því sviði sem viðurkenningin nær til.

Átján tilnefningar til hvatningarverðlauna bárust þetta árið sem bera vott um það frábæra starf sem er í skólunum.

Fræðsluráð valdi að venju úr þeim tilnefningum og veitti eftirtöldum aðilum sérstaka viðurkenningu:

Hrafnhildi Skúladóttur og Ragnheiði Borgþórsdóttur fyrir fjölbreytta kennsluhætti í dönsku á unglingastigi. Allt námsefni í dönsku hefur verið aðlagað á tölvutækt form sem hefur gjörbreytt dönskukennslunni.

Emmu H. Vídó Sigurgeirsdóttur fyrir framúrskarandi vinnu og ómetanlegt framlag til leikskólastarfs. Starfsferill Emmu spannar 41 ár hjá leikskólum Vestmannaeyjabæjar. Á þessum árum hefur Emma verið brautryðjandi í leikskólastarfinu og sýnt það í verki að með gleði, hlýju, hvatningu og fagmennsku eru okkur allir vegir færir. Emma er fyrirmynd fyrir þá sem starfa með börnum og börnin sjálf.

Sigríði Sigmarsdóttur, Rakel Ósk Guðmundsdóttur og Ástu Lilju Gunnarsdóttur fyrir tjáskiptakennslu með Communicator. Þær stöllur mynda sérkennsluteymi sem hefur unnið ötullega að því að innleiða vinnu með tjáskiptatölvu og forritið Communicator í góðu samstarfi við foreldra.

Markmiðið með Þróunarsjóði leik- og grunnskóla er að stuðla að þróunar- og nýsköpunarstarfi í skólunum

Sex verkefni hlutu styrk úr Þróunarsjóði leik- og grunnskóla þetta árið og nemur heildarupphæð styrkja kr. 3.260.000  Fræðsluráð tók ákvörðun um að styrkja eftirtalin verkefni:

Haugánar, moltugerð innanhúss í skólum: Markmiðið með verkefninu er að kenna nemendum að búa til moltu innandyra með haugánum, ásamt því að minnka losun úrgangs í skólum. Bryndís Bogadóttir og Sjónlaug Elín Árnadóttir standa að verkefninu.

Stuttmyndaval GRV:  Markmiðið með verkefninu er að auka tækjakost og bæta stuttmyndaval GRV. Undirbúa TheBirgitz-kvikmyndhátíð. Stuðla að tengslum GRV við nærumhverfi og bjóða upp á áfanga þar sem nemendur fá að vaxa með verkefnum tengdum þeirra áhugasviði. Birgit Ósk. B. Bjartmarz stendur að verkefninu.

Bókviti: Markmiðið með verkefninu er að kveikja áhuga nemenda á lestri með því að auðvelda þeim að finna bækur eftir áhuga. Um er að ræða efnisflokkun bóka sem endar með smáforriti (appi). Sæfinna Ásbjörnsdóttir, Drífa Þöll Arnardóttir og Esther Bergsdóttir standa að verkefninu.

Heimasíða og rafrænt kennsluefni fyrir myndmennt: Markmiðið með verkefninu er að vinna rafrænan gagnagrunn kennsluefnis fyrir myndlistakennslu, ásamt því að auka sjálfstæði nemenda í faginu. Bjartey Gylfadóttir stendur að verkefninu.

Elskaðu sjálfan þig-þróunarverkefni í sjálfstyrkingu og sjálfsvitund: Markmiðið er að fá nemendur til að skoða markvisst og meta sjálfsvitund sína, styrkleika, veikleika og sjálfsmynd. Hildur Jónasdóttir, Lóa Sigurðardóttir og Lára Skæringsdóttir standa að verkefninu.

50 ára gosafmæli: Markmiðið er að viðhalda þekkingu nýrrar kynslóðar á þeirri miklu sögu sem er að finna í Vestmannaeyjum ásamt því að auka færni í lestri og lesskilningi. Unnur Líf Ingadóttir Imsland og Snjólaug Elín Árnadóttir standa að verkefninu.

Síðasta verkefni fræðsluráðs að sinni.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search