Hvatningarverðlaun fræðsluráðs voru veitt fyrir þrjú framúrskarandi verkefni við GRV
Hvatningarverðlaun fræðsluráðs voru afhent þann 17. júní, við hátíðlega athöfn í Einarsstofu. Þetta er í annað sinn sem verðlaunin eru veitt en þau voru veitt í fyrsta skipti í fyrra. Arna Huld Sigurðardóttir, formaður fræðsluráðs, afhenti verðlaunin fyrir hönd ráðsins.
Markmið með Hvatningarverðlaunum er að vekja athygli á því sem vel er gert í fræðslustarfi. Verðlaunin eru hugsuð sem hrós til þeirra sem sýnt hafa framúrskarandi vinnu og er einnig staðfesting á því að viðkomandi er fyrirmynd á því sviði sem viðurkenningin nær til.
21 tilnefning barst um áhugaverð verkefni þetta árið og ber það vott um það faglega og gróskumikla starf sem fram fer í okkar frábæru skólum. Fræðsluráð valdi þrjú verkefni af þeim sem tilnefnd voru til sérstakrar viðurkenningar og hljóta þeir aðilar sem að þeim stóðu Hvatningarverðlaun fræðsluráðs 2021.
- Helga Jóhanna Harðardóttir, Sara Jóhannsdóttir, Arnheiður Pálsdóttir, Thelma Hrund Kristjánsdóttir og Lóa Hrund Sigurbjörnsdóttir hljóta Hvatningarverðlaun fræðsluráðs fyrir Himingeiminn en það er þemaverkefni í 6. bekk þar sem nemendur unnu með plánetur, stjörnur, stjörnumerki, geimferðir og geimverur. Við vinnu verkefnisins var m.a. komið inn á lestur, lesskilning, stærðfræði og upplýsingatækni þar sem verkefnum var skilað rafrænt.
- Sæfinna Ásbjörnsdóttir hlýtur Hvatningarverðlaun fræðsluráðs fyrir framúrskarandi starf á bókasafni Barnaskólans. Hún er dugleg og áhugasöm um að hvetja nemendur við að finna bækur við hæfi. Hún er með ákveðin þemu í hverjum mánuði sem ætlað er að kveikja áhuga nemenda á lestri. Einnig er hún með fésbókarsíðu þar sem hún setur inn upplýsingar, m.a. um nýjar bækur. Þetta er allt liður í að auka lestraránægju nemenda.
- Erla Gísladóttir hlýtur Hvatningarverðlaun fræðsluráðs fyrir verkefnið Fótbolti með 3. bekk. Erla tók það í sínar hendur að búa til góða og jákvæða stemningu á gervigrasvellinum við Hamarsskóla í frímínútum. Henni tókst að fá nánast alla í árganginum til að sameinast um fótbolta, þar sem hún skipti í lið og var sjálf dómari. Verkefnið stóð í 5 vikur og í lokin var haldið lokahóf með verðlaunaafhendingu.
Vestmannaeyjabær óskar verðlaunahöfum til hamingju og þakkar fyrir framlag þeirra til fræðslumála segir að lokum í frétt inn á vestmannaeyjabaer.is
Forsíðumynd er frá Vestmannaeyjabæ