Miðvikudagur 24. júlí 2024

Hvar ertu Gosi?

Leikfélag Vestmannaeyja sýnir Gosa í leikstjórn Maríu Sigurðardóttur. Höfundur sögu er Carlo Collodi. Höfundur leikgerðar er Karl Ágúst Úlfsson. Höfundur tónlistar er Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson

Það ríkti einskær gleði í leikhúsinu föstudaginn 10.nóvember s.l. að lokinni frumsýningu á Gosa, nýjasta verki Leikfélags Vestmannaeyja. Þetta er falleg saga um spýtustrákinn Gosa sem lendir í allskonar ævintýrum um leið og hann lærir að þekkja tilfinningar eins og gleði, reiði, sorg og ótta. Leikgerð Karls Ágústs Úlfssonar á sögunni er sérstaklega vel heppnuð að mínu mati, bráðskemmtileg, hlý og falleg. Það er tónlistin líka en heiðurinn að henni á Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson. Þorvaldur Bjarni hefur löngum haft þetta element að geta samið bæði lög og texta sem eru grípandi, auðlærð og heillandi í senn. Tónlistin í Gosa er í einu orði sagt dásamlega falleg og alveg á pari við það sem gerist best hjá tónskáldunum hjá Disney þannig að hrein unun er á að hlýða. Þessu tengdu þá vakti það einmitt sérstaka athygli okkar leikhúsfélaga míns, Kolbrúnar Hörpu Kolbeinsdóttur, hversu einstaklega vel heppnuð og framúrskarandi öll hljóð- og ljósastjórn var á sýningunni. Fullyrði hreinlega að hún hefur aldrei verið betri. Hvert einasta orð, talað eða sungið, skilaði sér í eyru áhorfenda. Má ég því til með að hrósa þeim Herði Harðarsyni, Hafþóri Elí Hafsteinssyni og Þórarni Hirti Sigmarssyni sérstaklega fyrir vönduð vinnubrögð hvað ljós- og hljóðstjórn varðar auk Friðþjófi Þorsteinssyni sem sá um ljósahönnunina. Vona ég að þessi gæði séu komin til að vera í leikhúsinu okkar því þau lyfta hreinlega svona sýningu upp á hærra stig.

Annað gæðamerki á sýningunni voru fallegu, litríku búningarnir, sérstaklega vel heppnuð förðunin og einkar skemmtilega hönnuð sviðsmyndin. Hvort heldur persónurnar voru staddar úti eða inni, í skógi eða neðansjávar þá var hvarvetna vandað til verka og gaman að sjá metnaðinn sem ríkir hjá leikfélaginu hvað þetta varðar. Og talandi um það sem vel er gert þá stóðu yngstu leikararnir í verkinu sig með mikilli prýði í hlutverkum sínum og ljóst að þar mitt á meðal má vel greina framtíðar efni í aðalleikara. Á María Sigurðardóttir leikstjóri mikið lof skilið fyrir vinnu sína með leikfélaginu og ekki síst fyrir að hafa náð svona miklu út úr þetta stórum hópi ungra leikenda.

Ég ætla hinsvegar að láta eftir mér að nefna alla þessa ungu leikara á nafn því við skulum öll hafa heyrt nafna þeirra getið einhversstaðar fyrst þegar kemur að því að þau stíga á stóra sviðið í framtíðinni. Þau voru algjörlega frábær, fim og fjörug sirkusfólkið Anna María Lúðvíksdóttir og Júlí Bjart Sigurjónsdóttir sem strengjabrúður. Hrafnkell Darri Steinsson og Guðjón Emil Ómarsson sem trúðar. Kolbrá Njálsdóttir, Sigrún Anna Valsdóttir og Ronja Lísbet Friðriksdóttir sem dansarar. Þá voru þær einnig draumi líkastar og dulúðlegar verur hafsins þær Anna María Lúðvíksdóttir og Aðalbjörg Brynjarsdóttir sem léku fiskana. Ásta María Helgadóttir, Arna Gunnlaugsdóttir og Lilja Sigurðardóttir sem léku marglyttunar. Þau voru líka kraftmikil og kát og sungu eins og englar sem skólakrakkarnir þau Guðbjörg Karlsdóttir, Alexandra Ósk Guðrúnardóttir, Kristinn Freyr Daníelsson, Sandra Dröfn Frostadóttir, Bjartey Dögg Frostadóttir, Rafael Bóas Davíðsson og Hrafnkell Darri Steinsson.

En eins og þið sjáið þarna á upptalningunni voru Anna María Lúðvíksdóttir og Hrafnkell Darri hvorki meira né minna en í tveimur hlutverkum hvort.

Í stærri hlutverkum voru þær Bertha Þorsteinsdóttir sem lék bóndann á sveitabænum og Sarah Elía. Ó Tórshamar sem lék kráareigandann. Hvorugar eru þær að stíga sín fyrstu skref á sviðinu enda komust þær báðar vel frá sínum hlutverkum og voru bæði skemmtilegar og fyndnar.

Ingunn Silja Sigurðardóttir sem leikur sirkusstjórann Stórólf var líka eftirminnileg. Set smá spurningarmerki við að láta þessa miklu sópransöngkonu syngja á svo lágum, dimmum og rámum nótum en Ingunn Silja lætur slíkt ekki slá sig útaf laginu og kemst klakklaust frá túlkun sinni. Enda hæfileikarík eins og við leikhúsgestir fengum að sjá og heyra í Rocky Horror fyrr á þessu ári þar sem Ingunn Silja fór á kostum.

Valgerður Elín Sigmarsdóttir fer einstaklega vel með hlutverk dísarinnar. Valgerður er dásamlega trúverðug í persónusköpun sinni sem fagra, góða dísin og svo býr Valgerður yfir virkilega fallegri og hárri söngrödd sem hún beitir einkar fagmannlega í innkomum sínum í Gosa og þá sérstaklega í laginu ,,Lifnaðu spýtukall“ sem hrein unum er á að hlýða.

Sigurjón Geirsson leikur skipstjórann á skipinu sem siglir með börnin til Allsnægtarlands og ef mér skjátlast ekki þá er þetta í fyrsta skipti sem Sigurjón stígur á svið LV. Það var hinsvegar ekki að sjá á frumsýningunni að þetta væri frumraun hans á sviði því hann virkaði ótrúlega öruggur í innkomum sínum og þá verð ég að nefna hve túlkun hans var hreint út sagt stórskemmtileg í Sælgætissöngnum. Vona ég að við fáum miklu meira að sjá af honum í framtíðinni á fjölum leikhússins.

Það eru alveg hreint ótrúlega margir flottir karakterar í þessu verki og með þeim eftirminnilegustu er lævísa tvíeykið Lóra og Skolli. María Fönn Frostadóttir og Arnar Gauti Egilsson fara algerlega á kostum sem kötturinn Lóra og refurinn Skolli. Hvílík dásemdar persónusköpun og skemmtilegur leikur sem þau bæði sýna okkur með hverri einustu innkomu sem þau eiga í Gosa.

María Fönn býr yfir svo mikilli orku og sprengikrafti að það hálfa væri miklu meira en hellingur. Og eins og það væri ekki nóg þá býr hún líka yfir frábærri söngrödd! Allt þetta nýtir María sér til fulls á sviðinu okkur hinum til mikillar skemmtunar. María hefur vaxið sem leikkona jafnt og þétt síðan við sáum hana fyrst í Klaufum og kóngsdætrum árið 2017 og í Gosa stígur á stokk þetta líka hæfileikabúntið sem þessi stelpa er!

Arnar Gauti brillerar líka hreinlega í hlutverki Skolla og samleikur hans og Maríu á stundum er svo innilega fyndinn og skemmtilegur að engu líkara er en að þau hafi verið fædd til að leika þessi hlutverk. Það væri vel hægt að setja upp sérstaka smásýningu út frá Gosa sem innihéldi þessa tvo karaktera í aðalhlutverki, svo lengi sem þau hlutverk væru í höndum Maríu og Arnars Gauta. Svo lifandi og skemmtilegur var leikur þeirra þarna á frumsýningunni.

Albert Snær Tórshamar leikur Tuma engisprettu. Eins og í mörgum ævintýrum á aðalsöguhetjan vin í óvæntum karakter. Í Gosa er vinurinn engisprettan Tumi sem dísin góða fær til að vera samviska Gosa og hjálpa honum að læra á lífið og tilveruna. Albert Snær er okkur leikhúsgestum að góðu kunnur. Hann hefur þroskast sem leikari og farið hratt fram síðustu ár enda fer hann einkar fagmannlega með hlutverk Tuma hins skemmtilega og samviskusama vegvísis Gosa. Leikfélagið okkar er heppið að búa yfir fjölmörgum, sérstaklega hæfileikaríkum einstaklingum. Albert er þar mitt á meðal, fullur sjálfstraust enda býr hann að mikilli reynslu og því virkar frammistaða hans í Gosa allt að því áreynslulaus. Það hlýtur að vera gott fyrir leikstjóra að hafa slíkan mann í sínu liði.

Kristinn Símonarson leikur spýtustrákinn Gosa. Við höfum nokkrum sinnum áður fengið að sjá Elí Kristinn á fjölum LV í mis viðamiklum hlutverkum. Fyrst var það árið 2018 í verkinu Glanni glæpur í Latabæ, en þar fór hann með eitt af aðahlutverkunum, Nenna níska. Vakti Elí Kristinn þar athygli mína af ýmsum ástæðum en ekki síst fyrir þær sakir að hann var þarna að stíga sín fyrstu skref á fjölum leikhússins þó halda hefði mátt annað miðað við frábæra frammistöðu hans. Ef minnið svíkur mig ekki þá er það hinsvegar fyrsta núna sem hann leikur persónu sem verkið er byggt á. Hvort heldur sem er þá fer Elí Kristinn stórvel með hlutverk sitt og er einkar viðkunnalegur sem stirði, einfaldi spýtustrákurinn Gosi sem smá saman lærir inná veröldina, mynda ný orð, hvað sé rétt og rangt og hvaða tilfinningar geta fylgt hinum ýmsu gjörðum. Í gegnum verkið fáum við að fylgja honum í gegnum umbreytingar, töp og sigra þar til Gosi verður loks að alvöru dreng, með mjúkar hreyfingar, stóran orðaforða og allskonar tilfinningar. Elí Kristinn tekst þetta fullkomlega!

Hafþór Elí Hafsteinsson, sem leikur Jakob pabba Gosa, fer með persónulegan leiksigur á fjölum LV. Þessi rúmlega tvítugi peyi umbreytist hreinlega í Jakob, gamla trésmiðinn sem á þá ósk heitasta að verða pabbi og ákveður í framhaldinu að smíða sér spýtustrák. Leikur Hafþórs og persónusköpun voru algerlega óaðfinnanleg, framsögnin með eindæmum góð og söngurinn framúrskarandi. Sem dæmi um það þá fékk undirrituð nokkrum sinnum gæsahúð í upphafslagi Tuma, dísarinnar og Jakobs (Óskastjarnan), þegar Hafþór Elí hóf upp raust sína, og tár trítluðu niður vangana. Síðar í sýningunni á Hafþór Elí hreinlega stórleik í rólegu einsöngslagi ,,Hvar ertu Gosi“ þar sem hann nær að beita fallegu vibratóinu í röddinni sinni á fullkominn hátt. Algert gæsahúðarmóment! Enda fagnaði salurinn ákaft í lok lagsins og enn aftur að lokinni sýningu þegar Hafþór hneigði sig fyrir áhorfendum. Það væri alveg þess virði að fara í leikhúsið eingöngu til að horfa á og hlusta á Hafþór Elí syngja þetta eina lag! Vel gert Hafþór Elí og vel gert María leikstjóri að velja hann í hlutverk Jakobs.

Ég ætla rétt að vona að fólk láti ekki þessa sýningu framhjá sér fara. Því þó sagan segi okkur að Gosi ætti að höfða einkum til barna þá er leikgerð Karls Á. Úlfssonar þannig úr garði gjörð að hnyttnir brandararnir, skemmtilegu karakterarnir, dásamleg tónlistin og fagmannlegur söngurinn eiga erindi við okkur öll. Sama á hvaða aldri við erum. Við leikhúsfélagi minn vorum sem dæmi án barna á frumsýningunni og skemmtum okkur hreint konunglega. Svo mjög reyndar að ég var næstum mætt á sýningu daginn eftir en þá var auðvitað löngu orðið uppselt og reyndar uppselt á allar sýningarnar yfir frumsýningahelgina. Það þótti mér sérstaklega vænt um að vita.

BRAVÓ….María Sigurðardóttir og þið öll hjá Leikfélagi Vestmannaeyja.

Takk fyrir mig og okkur,

Helena Pálsdóttir.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search