Fimmtudagur 29. september 2022
Halldór B. Halldórsson

Hvað verður um húsnæði Vestmannaeyjabæjar sem ekki verða í notkun? Tillögur hér:

Á bæjarráðsfundi í gær var lagt fyrir bæjarráð minnisblað starfshóps framkvæmdastjóra sviðanna sem bæjarstjórn fól þann 3. desember síðast liðin

Meta þarf húsnæðisþörf fyrir starfsemi bæjarins og móta tillögur í þeim efnum

Hlutverk starfshópsins er m.a. að meta húsnæðisþörf þeirra stofnana Vestmannaeyjabæjar sem fyrirhugað er að flytji starfsemi sína annað á næstu árum og var starfshópnum falið að leggja fram tillögur um hvernig skuli ráðstafa því húsnæði sem verður til vegna þessa, þ.e. bjóða það til sölu, leigu, annarrar notkunar eða niðurrifs. Í minnisblaðinu eru lagðar fram tillögur um ráðstöfun húsnæðis sem mun losna á næstunni.

Minnisblað starfshóps um húsnæðismál Vestmannaeyjabæjar:
Bæjarráð felur húsnæðishópnum að hefja undirbúning á sölu eigna skv. tillögu hópsins þar um, þ.e. sölu á gömlu slökkvistöðinni, sölu Rauðagerðis til niðurrifs og uppbyggingar íbúðarhúsnæðis á svæðinu og sölu 2. hæðar að Strandvegi 30. Í minnislaðinu kemur fram að umrædd hús munu ekki hafa hlutverk í starfsemi Vestmannaeyjabæjar og verða þ.a.l. boðin til sölu. Hvað varðar fjármagn til húsnæðis sem ekki er á fjárhagsáætlun 2021, vísar bæjarráð málinu til vinnu við fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2022.

Í eftirfarandi upptalningu er fjallað um stöðu einstakra framkvæmda og lagðar fram tillögur um ráðstöfun húsnæðis sem er að losna:

Staða framkæmda við nýja slökkvistöð og starfsmannaaðstöðu Þjónustumiðstöðvar

Framkvæmdir við nýja slökkvistöð eru á áætlun og reiknað er með að starfsemi getið hafist í slökkvistöðvarhluta um mitt sumar, en skrifstofu- og starfsmannaaðstaða verði tilbúin einhverjum vikum síðar. Í skrifstofu- og starfsmannaaðstöðu eru tvær skrifstofur og móttaka á jarðhæð sem
ætlað er starfsemi Þjónustumiðstöðvar sem og búningsklefar, salerni, ræstigeymslur og gufubað sem ætlað er fyrir starfsemi Þjónustumiðstöðvar og slökkviliðs. Á efri hæð eru eru kaffistofa, geymslur og skrifstofa slökkvistjóra.

Gamla slökkvistöðin

Þegar húsnæði gömlu slökkvistöðvarinnar losnar, þarf að ákveða ráðstöfun húsnæðisins. Í þessu samhengi leggur húsnæðishópurinn til að fundin verði ný aðstaða fyrir Náttúrugripasafn Vestmannaeyja og húsnæðið auglýst til sölu.

Staða framkvæmda við Kirkjuveg 23 (Íslandsbankahúsið)

Við breytinga á rekstrarfyrirkomulagi Hraunbúða flytjast 2-3 starfsmenn á fjölskyldu- og fræðslusvið, sem ekki var gert ráð fyrir við upphaflega í áætlun um starfsaðstöðu sviðsins í húsinu. Því er æskilegt að nýta 2. hæðina að hluta undir starfsaðstöðu. Þessi tilflutningur starfsfólks kallar á breytingar á aðstöðu á 2. hæð, s.s. salerni, starfsmannaaðstöðu og eldhúsi, sem ekki hafði verið gert ráð fyrir í fyrri áætlunum. Fyrri áætlun hljóðaði upp á 15 m.kr., en endurskoðuð áætlun er um 25 m.kr. Taka þarf afstöðu til þess hvort breyta eigi upphaflegri áætlun þar sem ekki var gert ráð fyrir tilflutningi starfsfólks milli eininga. Nægilegt rými er í húsnæðinu til að bæta við starfsaðstöðu sem þörf er á vegna tilfærslu starfsfólks. Stefnt er að því að hefja framkvæmdir við húsnæðið um leið og það losnar og stefnt að flutningi seinni hluta þessa árs.

Rauðagerði

Þegar starfsemi fjölskyldu- og fræðslusviðs flyst að Kirkjuvegi 23 losnar um allt húsnæði Rauðagerðis. Húsnæðishópurinn leggur til að gerð verði tillaga að nýjum byggingarlóðum á lóð Rauðagerðis og í framhaldi verði húsið selt til niðurrifs og uppbyggingar íbúðarhúsnæðis á lóðinni. Lagt er til í umhverfis- og skipulagsráð fari að huga að skipulagi svæðisins.

Staða framkvæmda við Strandveg 26 (Ísfélagshúsið)

Framkvæmdir við Strandveg 26 eru í fullum gangi og vonast til að þeim ljúki að mestu í júní nk. Vestmanneayjabær er eigandi að óráðstöfuðu rými á 1.hæð með útgengi á Bárustíg, sem hugsanlega mætti nýta sem sýningarsal eða fyrir viðburði. Húsnæðið er algjörlega hrátt og þarfnast fjármagns til að koma fyrir salernum og laga gólf svo hægt sé að nota aðstöðuna. Ef koma á rýminu í nýtingu þar að huga að því við gerð næstu fjárhagsáætlunar.

Staða framkvæmda í gamla Ráðhúsinu

Rif eru að mestu búin á miðhæð og í risi og komið að uppbyggingu. Eftir er að brjóta gólf í kjallara og steypa nýtt, en reiknað er með að þeirri framkvæmd gæti lokið í júní. Þá er hægt að hefja endurbyggingu í kjallara. Útboð á heildarframkvæmdinni hefur farið fram, en ekki hefur verið gengið frá samningi. Í útboðsgögnum var reiknað með að framkvæmdum á miðhæð og í risi verði lokið fyrir 31. desember nk. og á jarðhæð í maí 2022. Verið er að vinna við utanhússviðgerðir og umhverfi. Áætlað er að þeirri vinnu ljúki í sumar.

Geymsla fyrir muni Byggðasafnsins (Strandvegur 30)

Húsnæðishópurinn leggur til að fundið verði annað húsnæði í eigu sveitarfélagsins fyrir geymslur Byggðasafnsins og m.a. verði skoðað hvort Þórsheimilið geti hentað sem geymsluhúsnæði. Ef af verður er lagt til að 2. hæðin að Strandvegi 30 verði seld.

Staða framkvæmda á 3. hæðinni í Fiskiðjuhúsinu

Framkvæmdir fyrir aðstöðu stafrænnar smiðju (FabLab) eru hafnar. Um er að ræða u.þ.b. 145m2 rými í miðju hússins. Ekki hefur verið farið í hönnun á öðrum rýmum, þar sem ekki liggur fyrir endanleg ákvörðun um notkun aðstöðunnar, en til er hönnun á 2. hæðinni, sem hægt væri að nýta að einhverju leyti. Búið að staðsetja salerni, tæknirými o.fl. sem þarf að koma fyrir ef starfsemi eykst á hæðinni. Fjármagn til framkvæmda er knappt þannig að leitast hefur verið við að gera framkvæmdirnar sem ódýrastar, m.a. með því að nýta notaða hluti þar sem því verður við komið. Teiknistofa PZ annaðist hönnun á aðstöðu stafrænnar smiðju á 3. hæð Fiskiðjunnar.

Vestmannaeyjabær, sem eigandi hússins, ber ábyrgð á að klára stigagang og annað aðgengi, óháð því hvaða starfsemi verður á 3. hæð Fiskiðjunnar. Unnið hefur verið að því samhliða framkvæmdum á öðrum hæðum.

Fyrir liggur erindi frá Þekkingarsetri Vestmannaeyja til bæjarráðs, þar sem Þekkingarsetrið lýsir áhuga á að koma að eða annast framkvæmdir á 175 fm. rými á vesturvæng 3. hæðar í Fiskiðjuhússins og sjái í framhaldi um útleigu á sérrými á hæðinni og hlutdeild þess í sameiginlegu rými, ásamt því að halda utan um rekstur þess. Um væri að ræða svipað fyrirkomulag og var á 2. hæð Fiskiðjunnar á sínum tíma. Húsnæðishópurinn sér ýmsa kosti í erindi Þekkingarseturs Vestmannaeyja. Þó nokkur eftirspurn er eftir aðstöðu á hæðinni og æskilegra að Þekkingarsetur Vestmannaeyja leigi það út fremur en Vestmannaeyjabær.

Þórsheimilið

Húsnæðishópurinn leggur til að skoðaðir verði kostir og gallar þess að suðurhlutann í Þórsheimilnu undir safnmuni sem nú eru í geymslu á 2. hæðinni að Strandvegi 30. Áfram verði gert ráð fyrir að þjónustumiðstöð fyrir tjaldsvæðin verði starfrækt í hluta af Þórsheimilinu eins og verið hefur.

Viðbygging við Hamarsskóla

Unnið er að þarfagreiningu fyrir Hamarsskóla og reiknað með að hún liggi fyrir í júlí 2021. Að lokinni þarfagreiningu verður farið í hönnun og gerð útboðasgagna. Reiknað er með að getað auglýst útboð á viðbyggingu í desember 2021 og framkvæmdir hefjist í mars 2022.

Tónlistarskólinn

Þegar Tónlistarskóli Vestmannaeyja flytur starfsemi sína í nýja viðbyggingu við Hamarsskóla, leggur húsnæðishópurinn til að núverandi húsnæði verði selt (jafnvel með möguleika á að breyta því í íbúðir með innteknum bílastæðum á 1. hæðinni).

Tæknideild og höfnin

Þegar umhverfis- og framkvæmdasvið flytur starfsemi sína í gamla Ráðhúsið, losnar um hluta af húsnæðinu niður við höfn (tæknideildin). Húsnæðishópurinn ræddi um hvort æskilegt væri að starfrækja áfram starfsemi hafnarinnar í húsnæðinu. Engar tillögur voru í hópnum um
framtíðarnýtingu þessa húsnæðis.

Dagdvölin

Fyrir liggur samþykkt stefna sveitarfélagsins um að meta þörf á að dagdvölin verði rekin í sérhúsnæði. Þjónustuþörfin og þjónustuhópurinn hefur breyst mikið á síðustu árum og umönnunarþyngdin aukist. Núverandi aðstaða dagdvalar er sprungin utan af sér og hefur síðsta árið einungis verið í einu rými. Þá hefur setustofa í þjónustuíbúðunum verið nýtt sem tímabundið úrræði. Framkvæmdastjóri fjölskylduog fræðslusviðs er að vinna minnisblað um kosti og galla þess að reka dagdvöl í öðru húsnæði.

Hraunbúðir

Óvissa er um húsnæði Hraunbúða og viðræður í gangi við ríkið um leigu á því. Vonast er til að málið leysist fljótlega.

Strönd

Fyrir umhverfis- og skipulagsráði liggur ósk um byggingarreiti á lóð gæsluvallarins Strandar. Taka þarf afstöðu til áframhaldandi starfsemi gæsluvallarins, en ef gæsluvöllur verður áfram á Strönd þarf að fara í umtalsvert viðhald á húsnæði og lóð.

Herjólfsbærinn

Bæjarráð ákvað nýlega að samþykkja tillögur Eyjatours um framtíðarsýn og nýtingu Herjólfsbæjar. Reiknað er með að ljúka samningi við Eyjatours á næstu dögum. Til stendur að opna safn í bænum Og gert er ráð fyrir að framkvæmdir og undirbúningur að formlegri opnun Herjólfsbæjar taki um ár. Stefnt er að því að Herjólfsbær opni í nýrri umgjörð vorið 2022.

Tillaga starfshópsins um sölu á húsnæði Vestmannaeyjabæjar

Starfshópurinn leggur til að skoðaðir verði möguleikar á að selja gömlu slökkvistöðina þegar slökkviliðið flytur, en koma þarf munum Náttúrugripasafns Vestmannaeyja í varanlegt húsnæði

Jafnframt leggur hópurinn til að selja Rauðagerði til niðurrifs og uppbyggingu íbúðahúsnæðis á lóðinni. Einnig er lagt til að selja húsnæði Tónlistarskólans þegar starfsemi skólans flytur í Hamarsskóla.

Þá er hægt að finna heppilegra húsnæði fyrir safnmuni Sagnheima og selja 2. hæðina á Strandvegi 30. Leggur hópurinn til að nýta suðurhlið Þórsheimilisins undir safnmuni, sem nú eru í geymslu á Strandvegi 30 og munum Náttúrugripasafnsins verði komið fyrir á 2. hæðinni í Safnahúsinu, þar sem nú er Pálsstofa og í þeim hluta sem Heimaeyjargosið er nú staðsett.

Forsíðumynd: Halldór B. Halldórsson

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is