Í síðasta pistli opnaði ég vonandi á þína meðvitund um það hvað streita er og hvernig streituviðbrögð okkar geta verið mikilvæg og gagnleg til að takast á við áskoranir daglegs lífs. Hins vegar er streitan fljót að þróast yfir í neikvætt ástand og þá fara þessi mikilvægu varnarviðbrögð að vinna gegn okkur og hamla velferð okkar. Það er þín ábyrgð að draga úr streitunni í þínu lífi og þá sérstaklega neikvæðu streitunni. Jákvæða streitan er okkur mikilvæg, en það er fín lína á milli þess að hún fari að þróast yfir í neikvætt ástand sem mun með tímanum koma niður á líðan og heilsu þinni. Streitustjórnun er eitthvað sem allir þurfa að tileinka sér og bera þannig ábyrgð á því álagi sem maður er að takast á við hverju sinni.
Ég ætla að fylgja þér skref fyrir skref í gegnum það hvernig þú getur náð betri tökum á streitunni í þínu lífi og náð þannig meiri stjórn á líðan og hamingju þinni. Til að finna orsakafleti streitunnar í þínu lífi þá er fyrsta spurningin sem þú þarft að spyrja þig „HVAÐ veldur mér streitu?“
Streitan getur verið:
Umhverfisleg: eins og hávaði, hljóð, veður, birtustig, loftgæði, hitastig, staðsetning, opið vinnurými og fleira sem eru utanaðkomandi þættir í þínu nærumhverfi sem eru jafnvel að valda þér streitu.
Lífeðlisfræðileg: eins og takmörkuð hreyfing, ófullnægjandi svefn, óheilbrigður lífsstíll, undirliggjandi krónískir sjúkdómar eða verkir, hormónar, öldrun og fleira sem breyta boðefnaflæði líkamans.
Huglæg: eins og neikvæð viðhorf gagnvart öllu, neikvæðni sem lýsir sér þannig að maður sér bara vandamál og hindranir, finnur sífellt að því sem má betur fara, horfir á það sem mann skortir, einbeitir sér að vandamálum annara og sífellt að finna að öðrum og finna blóraböggla fyrir eigin líðan.
Félagsleg: eins og sífelldar kröfum um tíma okkar og athygli í starfi, einkalífi og félagslífi og ekki má gleyma kröfunum og samanburðinum í samfélagsmiðlunum. Félagsleg streita er allt það áreiti sem er í kringum okkur dag og nótt.
Þannig að streitan getur komið úr ólíkum áttum og úr mörgum áttum í einu. Fyrsta skrefið í því að ná að stjórna streitunni í lífi sínu er að átta sig á hvað það sé sem er að valda manni streitu og skrá niður svokallaða „streituvalda“. Þegar manni tekst að teikna upp þá þætti sem valda manni streitu getur maður næst farið að skoða betur eigin streituviðbrögð, það er að segja hvernig ákveðinn streituvaldur hrindir af stað ákveðnum streituviðbrögðum sem byggjast upp og koma niður á velferð okkar.
Núna er þitt verkefni að byrja á að vekja upp meðvitundina um það hvað veldur þér streitu hvort sem um er að ræða í einkalífinu eða í starfinu. Næsta verkefni er að teikna upp hvaða ósjálfráðu viðbrögð koma hjá þér gagnvart þeirri streitu sem þú ert að glíma við og í næsta pistil mun ég útskýra birtingarmynd streituviðbragða okkar.
„Verið hress og ekkert STRESS, bless“ (Hemmi Gunn)
Pistlahöfundur er Ragnheiður Guðfinna Guðnadóttir nánar um þeirra starf er að finna inn á www.stress.is