Föstudagur 1. desember 2023

Hugrenningar kaupmanns

Hver hefði trúað að þetta væri sú staða sem við þyrftum að horfast í augu við? Ekki ég.

Ég átti von á að þurfa að takast á við loðnubrest, annað árið í röð og sú varð raunin. Ég hafði undirbúið mig undir það andlega og einnig verslunina mína. Það er nefnilega þannig að slíkt hefur áhrif á lítil fyrirtæki.

Ekki nóg með að það hafi áhrif á fyrirtækið mitt heldur einnig heimilið mitt, þar sem maðurinn minn er sjómaður á uppsjávarskipi. En hvað um það. Ég var tilbúin, búin að búa í haginn, passaði að kaupa skynsamlega inn í búðina og vissi að ég gæti þetta vel, af því þetta gekk yfir okkur í fyrra og ég lifði af. Við lifðum öll af.

Allt í einu vaknaði ég upp við þann vonda draum að heimsfaraldur setti líf okkar úr skorðum. Ekki bara mitt líf heldur allra. Kvíðinn, hræðslan og óvissan bönkuðu allt í einu uppá. Þetta kom flatt upp á og var ekki nokkur möguleiki á að sjá þetta fyrir, eða undirbúa sig á nokkurn hátt.

Hvað gerir maður þá? Jú þið sem eruð með fyrirtæki eða hafið einhvern tíma verið með rekstur farið á fullt. Við leitum leiða til þess að komast af, halda okkur á floti og gerum allt til þess að sigla ekki í strand. Öll höfum við lagt hjarta okkar og sál í fyrirtækin okkar og viljum svo gjarnan að þau komist yfir þetta óvissu tímabil. Það er einmitt komið að því kæru vinir að við þurfum að hugsa okkur aðeins nær.

Við eigum hér fullt af frábærum verslunum, matsölustöðum og aðra þjónustu sem bjóða fjölbreytt vöruúrval, girnilega matseðla og ýmsa aðra þjónustu og ég veit það fyrir víst að fyrirtæki í Vestmannaeyjum eru þekkt fyrir ríka þjónustulund og lipurð, hvar sem komið er við. Ég tel, vil og vona að verslun og þjónusta í Vestmannaeyjum komist í gegnum þetta óveðursský sem nú geisar og að þegar storminn lægir þá verðum við ennþá hér.

Við getum það ekki án ykkar. Án viðskiptavina erum við ekkert. Án ykkar erum við ekki neitt. Nú sem aldrei fyrr þurfum við að hlúa að verslun og þjónustu í okkar frábæra bæjarfélagi og snúa okkur að því sem er svo skammt undan og rétt handan við hornin eða jafnvel bara hinu megin við götuna.

Án þess að brjóta lög eða vanvirða samkomubann hvet ég ykkur til þess að skoða heimasíður okkar, netverslanir, Facebook-síðurnar okkar, matseðlana og annað, hringið í okkur ef ykkur vanhagar um eitthvað, við reddum því sem við getum.

Við hlýðum Víði. Gömul og kannski leiðinleg tugga, en nú er frábær tími til þess að versla í heimabæ.

Sigrún Alda Ómarsdóttir

Nýkjörinn formaður Félags kaupsýslumanna í Vestmannaeyjum

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is