11.09.2020
Tólf verkefni fengu fjármögnun úr fjárfestingarátaki um nýsköpun í heilbrigðisþjónustu sem Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið stóðu fyrir. Heildarfjárfesting verkefnisins nemur um 148 milljónum króna.
Markmið átaksins var að auka nýsköpun með þarfir heilbrigðisþjónustu að leiðarljósi og fjölga á sama tíma störfum.
Alls bárust 48 umsóknir
Mikill áhugi var á framtakinu og alls bárust 48 umsóknir. Í þessari úthlutun fékk Heilbrigðisstofnun Suðurlands styrk fyrir tveimur verkefnum sem stofnunin tengist. Umfjöllun um verkefnin hefur verið birt á vef Stjórnarráðs Íslands.
Annað verkefnið snýr að augnlækningum í Vestmannaeyjum
En í þessu átaki verður byggð upp þjónusta í gegnum fjarbúnað. Styrkveitingin nam 9.950 m.kr. Markmið verkefnisins er að nútímavæða augnlæknaþjónustu á landsbyggðinni með nýrri nálgun og lausnum í fjarþjónustu og fullbúnum tækjabúnaði. Áhersla er lögð á gæði, öryggi og bætt aðgengi að augnlæknaþjónustu á landsbyggðinni. Verkefnið verður unnið í samvinnu við Sjónlag hf.
Hitt verkefnið snýr að þróun hugbúnaðar vegna meðhöndlunar nýrnasjúklinga
Styrkveitingin nam 15 m.kr og er markmið verkefnisins að auka gæði og öryggi meðferðar nýrnasjúklinga. Þetta verkefni snýr einnig að fjarlækningum en með aukinni rafrænni samvinnu heilbrigðisstarfsfólks og sjúklings er hægt að bjóða upp á skilvirka og hagkvæma þjónustu sem eykur aðgengi sjúklinga að þjónustu, sérstaklega úti á landi. Verkefnið er unnið í samvinnu við Kolibri ehf.
Við fögnum því að nú er búið að fjármagna þessi mikilvægu nýsköpunarverkefni í heilbrigðisþjónustu.
Bæði verkefnin munu stuðla að betri þjónustu við íbúa og tryggja aukið öryggi í meðferðarúrræðum á sama tíma sem verið er að auka teymisvinnu á milli starfsstöðva og heilbrigðisstétta. Þetta mun einnig spara tímafrek og kostnaðarsöm ferðalög sjúklinga.