Hrognin fryst dag og nótt á lokasprettinum

„Kap kom með um 1.200 tonn sem var fyrsta hráefnið okkar til hrognafrystingar á vertíðinni

Ég væri ánægður með að fá út úr þessu 150 tonn af hrognum,“ sagði Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Vinnslustöðvarinnar, síðdegis á föstudaginn í spjalli við umsjónarmann vsv.is  . Kap var þá farin til veiða á nýjan leik, löndun nýhafin úr Ísleifi og í uppsjávarhúsi VSV var allt á fullu gasi hvert sem litið var.

Lokakafli loðnuvertíðarinnar er stuttur og snarpur en sá verðmætasti. Ætla má að í lok næstu viku eða þar um bil klárist að vinna síðasta loðnuaflann sem á land kemur. Þar með lýkur vertíðinni, þeirri fyrstu sinnar tegundar frá 2018.

Ofurlítið hökt er eðlilegt í upphafi

Sindri og Benoný Þórisson framleiðslustjóri voru á vappi í uppsjávarhúsinu til að fylgjast með og grípa inn í atburðarásina með starfsfólkinu sínu ef allt gekk ekki alveg eftir bókinni. Eðli máls samkvæmt gerist eitthvað sem þarf að kippa í liðinn og svo hafa bæst við nýir salir í húsinu frá því síðast voru fryst þarna hrogn. Þar komu sem sagt við sögu nýmæli í ferlinu í bókstaflegum skilningi og vinnslurásin þurfti tíma til að slípast.

Unnið er á vöktum allan sólarhringinn þar til yfir lýkur. Vélvæðing og sjálfvirkni er alltumlykjandi og miklar og skilyrðislausar kröfur gerðar um hreinlæti og virðingu gagnvart matvælaframleiðslunni.

Verðmætasköpun fram haldið hjá Marhólmum

Vinnslan hefst með því að fiskurinn er skorinn í sundur í tromlum og hrognin hirt með vatnsþrýstingi. Hrognin eru síðan hreinsuð og þvegin með ýmsum tæknilegum tilfæringum og enda í plastkerum þar sem þau standa til að láta vatn síga af þeim í aðdraganda pökkunar.

Ferlið allt tekur jafnan 10-12 klukkustundir, frá því aflinn er tekin í hús þar til hrognin eru komin í umbúðir áleiðis í frystiklefa án þess að mannshöndin komi nærri hráefninu frá upphafi til enda. Langur vegur er í öllum skilningi frá upphafsdögum þessarar vinnslu á Íslandi 1971-1972 þegar hrognum var safnað í grisjupoka við löndun og aftur eftir hreinsun og þurrkun.

Loðnuhrognin sem til falla á vertíðinni verða notuð hjá fyrirtækinu Marhólmum í Vestmannaeyjum til framleiðslu á masago sem svo aftur er mikið notað við framleiðslu sushi-rétta. Marhólmar eru að stórum hluta í eigu Vinnslustöðvarinnar.

Myndir frá Vinnslustöðinni:

Kap á leið til hafnar núna í vikunni úr fyrsta hrognatúrnum. Mynd: Thomas Köhn, starfsmaður Marhólma.
Tromlan þar sem hrognin eru aðskilin fiskmassanum.
Hrognin hreinsuð og þvegin.
Robert Szczepan Daszkiewicz við tromlur þar sem vatn er síað úr hrognunum. Hann vaktar græjuna og sinnir henni af stakri natni og umhyggju!
Sindri Viðarsson og Benoný Þórisson í sal sem nú er í fyrsta sinn notaður í hrognafrystingarferlinu. Hrognin eru höfð í kerunum um hríð til að láta vatn síga af þeim.
Óskar Damian Lis vaktar pökkunina og þá er komið að lokapunkti, frystingunni.

Forsíðumynd: Thomas Köhn

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search