Þriðjudagur 27. september 2022

Hringdu í tíu tuttugu­ og einn – öll frásögnin

Það var hreint kraftaverk að þeim Pétri, Ómari, Jens, Gylfa og Björgvini hafi verið bjargað sumarið 1997 þegar bátur þeirra sökk rétt við Bjarnarey. Við birtum hér alla frásögnina með leyfi frá Óttari Sveinssyni höfundar Útkall bók ( Fallið fram af fjalli 1998) bók nr 5 þar sem þessi magnaða frásögn var rituð.

Það er einfaldlega ekki hægt að hætta að lesa ef þú byrjar. Svo komdu þér vel fyrir og upplifðu þetta ótrúlega kraftaverk. Ljósmyndinar tók Ómar Garðarsson.

Bjarnarey

Sumarið 1997 höfðu félagarnir Pétur Steingrímsson, lögreglumaður í Vestmannaeyjum, og Jens Magnús Jóhannesson ákveðið að veiða af kappi hinn sívinsæla og lostæt a lunda. Báðir voru þeir í Veiðifélagi Bjarnareyinga. Mikið stóð til hjá þeim fyrstu dagana í júlí því þá var veðurspáin hagstæð og kjörið tækifæri til að dvelja í klettaeyjuni sem er skammt austan við Heimaey.

Ómar Stefánsson ,félaga Jens, hafði lengi dreymt um að veiða lunda í úteyjum og hugðist brátt sækja um aðild að Bjarneyjarfélaginu. Jens hafði ákveðið að bjóða honum með sér út í Bjarnarey í júlí byrjun. Sigríður Guðmundsdóttir, kona Jens, og Sigríður Björk Ingadóttir, kona Ómars, voru æskuvinkonur.

Föstudagurinn 4. júlí fengu félagarnir Jens og Ómar tækifæri til að veiða saman úti í hinni tignarlegu Bjarnarey. Eyjan gnæfir yfir haffletinum og stór hluti veiðisvæðisins er í yfir 100 metra hæð. Afraksturinn fyrsta veiðidaginn var 145 lundar. Ómar, sem var reyndar vanur lundaveiði á ,,Heimalandinu”, Heimaey, hafði tekið með sér nýjan veiðiháf. Hann naut útiverunnar með Jens í góðu veðri í fyrstu veiðiferð sinni í Bjarnarey. Pétur kom út í eyjuna til þeirra um kvöldið og gisti í veiðikofanum með þeim um nóttina.

Á laugardeginum tóku þremenningarnir til við lundaveiðar að nýju. Þá bætti þeir um betur og veiddu 317 fugla. Þetta var allt að koma. Pétur hugleiddi hvernig veðurspáin yrði fyrir næstu daga: ,,Þegar við vöknuðum á sunnudeginum var lítil sem engin ,,átt” eins og sagt er. Það þýðir að vindáttin er óhagstæð fyrir lundaveiðar. Eftir hádegið vorum við búnir að veiða 115 fugla en ákváðum þá að best væri að fara heim í land fyrir kvöldið. Veðurstofan spáði norðlægri vindátt næstu daga. Þá yrði sennilega lítil veiði.”

Er þeir þremenningar komu út í Bjarnarey var þar fyrir Gylfi Gíslason, kunningi þeirra, sem hafði verið þar í þrjá daga við annan mann. Jens hafði á orði við Gylfa, sem þá var að fara í land, hvort hann gæti ekki reddað báti til að ná í þá þremenninga og aflann þeirra þegar þeir vildu fara til baka. Gylfi hafði tekið vel í það. Síðdegis á sunnudag tók Jens upp GSM-símann sinn og hringdi til Gylfa sem var í skírnarveislu hjá systur sinni á heimili foreldra þeirra á Heimaey:
,,Ég hringdi í Gylfa og spurði hvort hann gæti útvegað bát til að sækja okkur. Við vorum búnir að setja fuglinn í koppur – hátt í sex hundruð lunda. Við bundum fuglana saman á hálsinum, tíu í hverja kippu. “

Með Gylfa í skírnarveislunni var félagi hans, Björgvin Arnaldsson, sem átti bát – sex metra langan, opinn, flatbotnaðan breskan hraðbát með lítinn lúkar að framan og 65 hestafla mótor. Flotholt voru á hliðunum. Tæpu ári áður hafði Björgvin keypt bátinn á átta þúsund krónur en ekki var langt síðan utanborðsmótorinn, sem var nánast nýr, hafði verið settur á. Þótt skírnarveislan stæði yfir var Björgvin langt í frá afhuga því að skreppa út í Bjarnarey:
,,Gylfi spurði mig hvort ég væri ekki til í að koma með sér út í eyju til að sækja strákana og feng þeirra. Ég taldi það í góðu lagi, enda búinn að fara með Gylfa þangað nokkrum dögum áður. Mér fannst líka ágætis veður”

Björgvin og Gylfi klæddu sig úr veislufötunum og í tilheyrandi galla fyrir bátsferðina. Gylfi hafði nýlega fengið flotbúning í afmælisgjöf en ákvað að skiljan eftir heima – honum fannst ekki taka því að fara í gallan fyrir svona stutta ferð.

Hjálmar Guðnason

Hjálmar Guðnason, tónlistarkennari í Eyjum, var á ferð með fólki úr Hvítasunnusöfnuðinum í Vestmannaeyjum og gesti frá Keflavíkurflugvelli á skemmtibáti sínum Bravó – rúmlega 9 metra löngum, yfirbyggðum plastbáti. Átta manns voru um borð: ,,Ég bauðst til að fara með fólkið í bátsferð og ákvað að sigla með það út í Klettsvík og Klettshelli. Þar spilaði ég nokkur lög á trompetinn minn. Okkur dvaldist dálítið í hellinum, við lofuðum drottinn og nutum augnabliksins. Þegar við sigldum út úr hellinum vildi fólkið ekki fara miklu lengra, sérstaklega ein kona sem var dálítið sjóveik. Í einhverri stríðni ákvað ég að sigla áleiðis að Faxasundi. Það tæki bara stutta stund. Mig langaði að sýna útlendingunum í hópnum andstæðurnar: Lygna og innsiglinguna og ólgandi hafölduna rétt fyrir utan. Úti á sundinu var talsverð alda í norðanáttinni. Ég ákvað að taka einn rúnt fyrir utan og snúa þar til baka. Útlendingarnir tóku andköf er ég sigldi á 14-15 sjómílna hraða fyrir utan í rífandi öldugangi. Allir virtust þá hafa gaman af.”

 

 

 

Gunnlaugur Erlendsson

Gunnlaugur Erlendsson var þá skipstjóri á Þór, skipi Björgunarfélags Vestmannaeyja. Hann var ásamt þremur mönnum í verkefni á svipuðum slóðum og Hjálmar hafði verið að leika á trompetinn sinn fyrir ferðamennina. Mennirnir á Þór biðu eftir lundaveiðimönnunum í Ystakletti í Klettsvík – þeir áttu von á að mennirnir kæmu brátt niður á Litla-Klettsnef þar sem hægt yrði að sigla bátnum að og taka þá um borð.

Þór var stolt Eyjamanna. Skipinu hafði verið siglt nýju frá Noregi þremur árum áður, búnu tveimur 480 hestafla vélum. Það náði 32 sjómílna hraða. Bergþór Atlason hafði verið loftskeytamaður í rúman aldarfjórðung. Hann var einn á vakt við störf sín í Landsímahúsinu í Vestmannaeyjum:
,, Það var búið að vera fremur rólegt hjá mér þennan dag og ég var að hugsa um að fara fram til að laga mér kaffi. Ég hafði nýlega verið í sambandi við báta sem fóru úr höfn í Eyjum. Þar á meðal var björgunarbáturinn Þór sem hafði skroppið út í Klettsvík. Ég hafði spurt þá um borð hvað þeir væru að gera. Ég hafði líka talað við Hjálmar Guðnason á Bravó, fyrrum loftskeytamann á stöðinni hjá okkur. Hann var nýlega farinn út með ferðafólk.”

Úti við Bjarnarey var farið að kula og rúmlega það, komin norðnorðvestan sex vindstig. Pétur, Jens og Ómar voru að flytja lundakippurnar út að svokölluðu Ofangjafarnefi, þverhníptu bergi, þar sem fuglinum er gjarnan kastað niður í sjóinn hundrað metrum neðar. Þar er lítil hætta á að fuglinn rekist utan í áður en hann skellur á öldunum.

Jens var farinn að skima eftir Gylfa og Björgvini félaga hans á bátnum: ,,Ég var að pakka niður dótinu mínu og setti GSM-símann í plastpoka niður í tösku þannig að hann blotnaði nú örugglega ekki þegar við færum um borð í bátinn. Þegar ég var að loka töskunni sagði ég við Ómar: ,, Æi, nei ætli það sé ekki best að hafa símann uppi við ef maður skyldi hringja frá bryggjunni á Heimaey til að láta konurnar sækja okkur þanngað.” Ég var í gallabuxum, bol og skyrtu undir hermannajakka og gúmmíbuxum og í gönguskóm: ágætum galla til að stökkva um borð í bátinn.”

Klukkan var að verða sex. Gylfi og Björgvin voru komnir á bátnum að norðvesturhluta Bjarnareyjar, þeirri hlið sem snýr að Heimaey, sigldu þeir suður með eynni að Ofangjafarnefi. Þar hófu þeir að tína upp lundakippurnar sem þremenningarnir köstuðu i sjóinn meira en fimmtíu tíu fugla kippur.

Þegar öllum lundanum hafði verið kastað niður lögðu veiðimennirnir þrír af stað eftir einstigi og klettaþrepum í berginu. Jens hafði lent í slysi fimm árum áður og var því ekki sá fimasti til slíks klifurs. Annar ökklinn og hællinn höfðu verið negldir eftir að hluti af stein vegg féll ofan á fótinn. Á sínum tíma hafði ekki verið víst hvort Jens héldi fætinum.
Þremenningarnir voru að nálgast svonefndan steðja á Hvannhillu, lendingarstað þar sem hægt er að komast að og frá borði á norðvesturhluta eyjarinnar.
Þeir höfðu fylgst með því þegar Gylfi og Björgvin tíndu lundann upp úr sjónum, meira en 500 sjóblauta fugla.

Ómar stóð aftast á steðjanum þegar báturinn kom þangað:
„Mér leist ekkert á veðrið og ölduganginn þegar við vorum komnir þarna niður. Jens fór fyrstur út í bátinn, síðan Pétur og ég síðastur. Um leið og ég tók í rekkverkið á hvalbaknum fór báturinn snöggt frá berginu. Ég datt í sjóinn en náði að halda mér. Ég var í tvískiptum sjóstakk utan yfir skyrtu og buxur en með stígvél á fót um þannig að ég blotnaði ekki mikið.
Í næstu dýfu náði ég að svipta mér um borð.“

Pétur fór aftur í bátinn þegar hann kom um borð. Hann var í gönguskóm með þykkum og hörðum sóla:
„Ég sá strax hve báturinn var orðinn siginn. Aldan stóð beint upp að steðjanum. Þegar bátnum var bakkað frá kom sjór inn að aftan verðu. Þegar ég var að koma mér fyrir innan um fuglana fann ég að sjórinn var kominn vel upp á kálfa. Skórnir fóru á kaf. Ég spurði Björgvin hvort hann væri ekki að lensa. „Jú!“ svaraði hann. Lundinn lá út um allt í bátnum. Mér fannst líklegt að fuglinn lægi ofan á lensidælunni þannig að hún virkaði ekki.
Bátnum var nú siglt til suðurs með fram berginu. Við vorum 20-30 metra frá eynni. Björgvin var að snúa í átt að Heimaey þegar stór alda kom. Fyrst skall hún á berginu en kastaðist síðan á bátinn og fyllti hann að aftan.
Ætlið þið ekki að setja lensidæluna á,“ kallaði Jens.“

Ómar var framanvert í bátnum:
„Ég sá að sjór var farinn að flæða í bátinn að aftan og ákvað að fara fram í litla lúkarinn fremst til að dreifa þunganum. Þar var mik ið af lunda. En það flæddi meira og meira inn í bátinn þar til mótor inn drap á sér. Pétur kallaði að við skyldum henda lundanum í sjó inn til að létta bátinn. Ég opnaði þá lúgu til að handlanga fuglinn upp á hvalbakinn. Jens tók á móti honum og henti kippunum í sjó inn. Þetta virtist gera lítið gagn. Skuturinn var kominn á kaf. Sjórinn hafði flætt að dyrum lúkarsins. Eina undankomuleið mín var nú að troða mér gegnum lúguna upp á hvalbak.“

Hver í kapp við annan hentu mennirnir fuglinum í sjóinn. Þar sem engin lensport voru á bátnum flæddi sjórinn ekki út aftur og lítil rafmagnsdæla mátti sín lítils gegn þessum ósköpum. „Hann er að sökkva undan okkur!“ kallaði Pétur. Honum var ljóst að báturinn færi niður á skammri stundu:

„Ég stóð aftast. Allt í einu fann ég að það var ekkert undir fótunum á mér. Ískaldur sjórinn náði mér í mitti. Ég var að fara á flot. Þegar ég horfði upp eftir þverhníptu berginu í Bjarnarey fann ég hvað maður er lítill þegar náttúruöflin taka af manni völdin. Ég hugsaði um hvort Omar kæmist út úr þröngum lúkarnum að framan.“

Jens sá nú sitt óvænna: „Mér varð ekki um sel. Við vorum að sökkva!
Ómar var enn inni í bátnum. Stefnið var nánast það eina sem stóð upp úr sjónum.
Nú kallaði Pétur: „Farðu fram á og hringdu í tíu tuttugu og einn!“
Pétur var í lögreglunni og hringdi oft í starfi sínu í Loftskeyta stöðina í Vestmannaeyjum. Hann vissi hvað hann söng og ég hlýddi. ,,Ég var ekki fótfimur en klöngraðist fram á, hélt mér í rekk verkið og tók upp símann. Ég sló inn númerið – 481 1021.“

Þegar Björgvin heyrði fyrirskipun Péturs til Jens um að hringja ákvað hann að taka símann sinn úr vasanum. Um leið og hann hafði stimplað númerið inn fór hann á kaf með símann.
Gylfi félagi hans hafði verið að hugsa um allt annað en símhringingu er ósköpin dundu yfir:
„Þegar ég var kominn í sjóinn upp í mitti mundi ég eftir derhúfunni minni sem ég hafði á höfðinu. Ég hélt mikið upp á hana. Ég tók hana af mér í skyndi, stakk henni inn á mig og renndi upp gallanum. Nú náði sjórinn mér upp undir hendur og ég fann hvernig hann flæddi inn undir gúmmígallann og ofan í stígvélin. Ég ákvað strax að reyna að synda að eyjunni.“

Aðeins stefni bátsins stóð upp úr sjónum. Jens ríghélt sér í rekk verkið – harðákveðinn að reyna að ná símasambandi á þeim fáu sekúndum sem gæfust áður en báturinn færi allur á kaf:
„Ég hafði óvart ýtt tvisvar á hringingartakkann eftir að ég sló inn númerið á Loftskeytastöðinni. Þá kom heimanúmerið mitt upp á skjáinn – síðasta númerið sem ég hafði hringt í kom sjálfkrafa upp. Ég ýtti aftur til að eyða heimanúmerinu, fékk són og sló rétta númerið inn í snarhasti: 481 1021.“

Bergþór sat við fjarskiptaborðið á Loftskeytastöðinni:
„Ég hafði ætlað að fara fram til að hita mér kaffi en einhverra hluta vegna stóð ég ekki upp.
Nú hringdi síminn sem var til hliðar við mig. Ég rétti höndina fram og tók tólið upp. Ég heyrði hrópandi rödd:

„…erum að sökkva við Bjarnarey! ...

“ Svo kom bara suð. Manninum í símanum var greinilega mikið niðri fyrir. Ég vissi ekkert hvaða bátur þetta var eða hver hafði hringt. Þessi bátur virtist ekki vera með talstöð. Ég hafði starfað í um áratug á Loftskeytastöðinni í Vestmannaeyjum og vissi því að gúmmítuðrur og aðrir smábátar eru mikið á ferð í kringum eyjarnar – bátar sem eru ekkert í sambandi við okkur. Eina ráðið fyrir mig var að fá báta á svæðinu til að fara að Bjarnarey og leita þeirra sem sendu út neyðarkallið.“

Um leið og Jens hafði hrópað í farsímann hvolfdi bátnum. Á samri stundu fór hann á kaf með símtækið. Hann var ekki viss um hvort maðurinn á Loftskeytastöðinni hefði heyrt það sem hann sagði. Það eina sem hann vissi var að einhver hafði tekið upp tólið á stöðinni og svarað.

Þegar Bergþór loftskeytamaður heyrði að ekki kom annað en suð í símann opnaði hann fyrir allar vinnurásir VHF-talstöðvarinn ar, 16, 25 og 27.
Hann kallaði;
„Bátar á svæðinu milli Heimaeyjar og Bjarnareyjar eru beðnir að svara strax!
Neyðarkall hefur borist frá Bjarnarey! Skip á svæðinu eru beðin um að láta vita af sér!“ Bergþór beið eftir svari.

Björgvin, sem kominn var á kaf í ískaldan sjóinn, reyndi að átta sig á aðstæðum:
„Þegar mér skaut upp taldi ég bátinn sokkinn. Ég sá hann hvergi og reyndi að átta mig á hvað ég ætti að taka til bragðs. Þykkur, loðfóðraður kuldasamfestingurinn minn var illa til þess fallinn að synda í. Ekki bætti úr skák að ég var í leðurstígvélum. Mér fannst þyngslin á þessu strax vera að gera út af við mig í sjónum.

Með hörkubrögðum tókst mér að sparka af mér stígvélunum.Ég margreyndi að renna gallanum niður til að komast úr honum. Hann var óhemjuþungur. Til að geta rennt niður varð ég að hætta að svamla en tók þá jafnskjótt að sökkva eins og steinn. Ég fór aftur og aftur á kaf og gafst upp á að reyna að klæða mig úr. Það var vita vonlaust í þungum straumi og öldugangi. Öldurnar gengu stöðugt yfir mig.“

Ómar Stefánsson

Ómar, sem var kraftalega vaxinn og hafði lagt stund á líkamsrækt og hlaup, var mjög vel á sig kominn líkamlega. Honum hafði tekist að smeygja sér upp um þrönga lúguna á hvalbak bátsins rétt áður en hann sökk – í sömu andrá og félagi hans hringdi:
„Í þann mund sem bátnum var að hvolfa stökk ég í sjóinn. Mér datt ekki í hug að Jens næði sambandi áður en við færum á kaf. Þegar ég kom upp úr sjónum hugsaði ég: „Það er ágætt að steðjinn er svona nálægt. Sennilega verður létt að synda að honum. Ég er líka með vindinn í bakið.

“ Ég byrjaði að synda en miðaði lítið áfram. Ég fór að hugsa um hvort ég ætti að stansa og synda til Jens og hjálpa honum þar sem hann var haltur og gat örugglega lítið synt. „Nei, það þýðir ekki neitt. Það á hver nóg með sjálfan sig,“ hugsaði ég. Nú ákvað ég að gefa allt í botn til að ná að bjarginu. Ég tók á öllu sem ég átti til og synti og synti. En allt kom fyrir ekki. Mér miðaði ekkert áfram. Mér fannst ég aldrei ætla að ná að steðjanum. Ég var að sprengja mig.“

Björgvin átti fullt í fangi með sjálfan sig í niðþungum kuldagallanum.
„Ég kom auga á Gylfa skammt frá mér. Síðan sá ég Ómar synda fram hjá mér á rosalegu skriði. Hann stefndi í átt að berginu.
„Hvað ætlar hann að gera? Er hann á leiðinni upp í eyjuna?“ hugsaði ég en vissi um leið að líkurnar á að komast hjálparlaust úr sjón um og upp á steðjann voru hverfandi. Mér fannst þetta ekki væn legur kostur en ekki var um neitt annað að ræða.“

Ómar barðist áfram í átt að berginu:
„Öldugangurinn var rosalegur og reif mig með sér hvað sem ég gerði. Mig rak upp að klettinum en frákastið ýtti mér jafnskjótt til baka. Síðan fór ég á bólakaf – aftur og aftur. Ég reyndi að hrista stig vélin af mér. Þau losnuðu til hálfs en það gerði bara illt verra. Gúmmíbuxurnar þrengdu að stígvélunum og komu í veg fyrir að ég gæti spyrnt þeim af mér. Nú voru þau orðin full af sjó og enn erfið ara að synda og halda sér á floti. Ég var orðinn svo þreyttur að ég gat ekki meira. Eg var að sökkva.“

Jens og Pétur voru þeir einu sem ekki syntu frá bátnum. Hann maraði enn í hálfu kafi. Þó að bátnum hefði hvolft náði Jens samt að halda sér í hann:
„Þegar ég hringdi og bátnum var að hvolfa hafði ég klemmt lærin fast saman um rekkverkið. Síðan skaut mér upp og ég náði að standa á rekkverkinu fremst á bátnum þótt hann væri kominn á hvolf. Þrátt fyrir að ég hefði farið á kaf hélt ég enn fast í símann.
„Náðirðu sambandi?“ kallaði Pétur til mín.
„Já,“ svaraði ég þótt ég væri ekki viss. Kannski svaraði ég Pétri játandi til að örvæntingin næði síður tökum á okkur. Á þeim sek úndum sem ég var að hringja fannst mér samt að einhver hefði hlustað þegar ég æpti að við værum að sökkva.
Þetta hafði allt gerst svo snöggt. Báturinn hafði fyllst án þess að við fengjum rönd við reist og honum hvolft. Ég stóð á rekkverkinu í sjó upp að mitti. Pétur hékk á bátnum við aftanverðan kjölinn. Við urðum að reyna að halda stillingu okkar.

Ég sá þegar Omar synti í burtu. Björgvin og Gylfi fylgdu á eftir honum. Mér fannst þetta ástæðulaust því sennilega myndi báturinn ekki sökkva strax fyrst hann hélst enn á floti. Mér fannst öldugangurinn allt of mikill til að reyna að synda upp að eynni. Þar gátu menn auðveldlega skollið utan í bergið og rotast – við sléttan vegginn þar sem hvergi er hægt að ná handfestu.

Frá okkur voru 20-30 metrar að sjálfum steðjanum, einu uppgönguleiðinni. Eg hefði aldrei treyst mér til að synda þá vegalengd við þessar aðstæður. Ég hafði heyrt frá mönnum sem lent höfðu í ísköldum sjó að menn ör mögnuðust á skammri stundu ef þeir reyndu að synda í svona öldugangi. Ég öskraði á eftir strákunum:
„Komið ykkur að bátnum aftur! Hann sekkur ekki strax!“.

Björgvin Arnlandsson

Björgvin heyrði að einhver hrópaði:
„Ég reyndi að snúa við frá berginu. Þetta voru lengstu metrar sem ég hafði nokkurn tímann synt. Aðeins höfuðið stóð upp úr ólgandi sjónum. Mér fannst ég ótrúlega lítill í ölduhafinu. Nú sá ég að báturinn var ekki sokkinn enn.

Pétur hékk utan í kilinum aftast en Jens var framan til. Báturinn var 15–20 metra frá mér. Ég byrjaði að svamla í átt að bátnum en straumurinn og aldan komu á móti mér. Þetta var rosalega erfitt. Ég var orðinn svo þungur í gallanum að mér fannst ég myndi ekki hafa þetta af. Ég var að missa allan kraft.“

 

 

 

 

 

 

Gylfi Gíslasson

Gylfi, sá grennsti þeirra félaga, synti hjálparvana í ísköldum sjónum. Honum varð nú ljósara en nokkru sinni fyrr hve stutt er milli lífs og dauða. Hann hafði samviskubit gagnvart vini sínum í sjónum:
„Mér fannst það hróplegt óréttlæti að báturinn skyldi hafa sokk ið og að Björgvin, sem vanalega sigldi ekki í úteyjar, hefði nú lent í þessu með splunkunýjan mótor – og það allt mín vegn.
Mér heyrðist Björgvin kalla á mig að við skyldum synda aftur að bátnum þar sem Pétur og Jens voru. Ég reyndi að snúa við. Gúmmí buxurnar og stígvélin voru til mikils trafala. Nú fékk ég strauminn á móti mér og gleypti sjó. Þetta var að gera út af við mig. Um leið og ég tók smáhlé á sundinu fannst mér buxurnar og stígvélin toga mig á kaf. Útilokað var fyrir mig að reyna að komast úr gallanum. Buxurnar þrengdu of mikið að stígvélunum til að ég gæti sparkað þeim af mér. Ég varð að reyna að halda áfram að synda eða troða marvaðann til að halda mér uppi. Þetta tók feikilega á.“

 

 

 

 

 

Pétur Steingrímsson

 

 

Pétur gat ekki annað gert en beðið og fylgst með hver afdrif fé laga hans yrðu. Við þessar aðstæður var nánast útilokað að bjarga öðrum:

„Þegar ég horfði framan í Gylfa milli aldnanna sá ég gríðarlegan angistarsvip. Mér fannst varirnar á honum orðnar bláar. Hann var að nálgast mig. Eg teygði mig í áttina til hans. Mér fannst hann al veg sprunginn.
Ég bað til guðs að okkur yrði bjargað.“

 

 

 

 

Bergþór Atlason við Simann góða á Loftsekytastöðinni í Vestmannaeyjum

Fljótlega eftir að Bergþór loftskeytamaður sendi út tilkynningu um sökkvandi bát við Bjarnarey höfðu bæði Gunnlaugur á Þór og Hjálmar á Bravó svarað honum í talstöðinni – nánast hvor ofan í annan.
Eftir það sendi Bergþór út neyðarkall: „Mayday relay, mayday relay, maday, relay!“

Gunnlaugur ákvað að sigla með hraði að norðvesturenda Bjarnareyjar. Með honum um borð voru Jón Birgir Ólafsson, Kristinn Týr Gunnarsson og Árni Gunnarsson. Gunnlaugi leist illa á þessa tilkynningu. Hann fór strax að hugsa um aðstæður við Bjarnarey og sagði mönnunum að fara í flotgalla.

Hjálmar á Bravó hafði ákveðið að sýna gestum sínum Bjarnarey, í stað þess að sigla frá Faxasundi áleiðis að innsiglingunni í Friðar höfn – þann hluta eyjarinnar sem er handan við staðinn þar sem mennirnir fimm börðust nú fyrir lífi sínu. Hjálmar sigldi að eynni norðanverðri:
„Ég sýndi fólkinu forkunnarfagran helli og gat í klettunum. Eftir það dólaði ég austur með eynni, að höfninni sem kölluð er. Þar vorum við komin í skjól. Ég var með opið fyrir talstöðina á rás 27. Þegar Vestmannaeyja radíó tilkynnti um sökkvandi bát við Bjarnarey virtist vaktmaðurinn hvorki vita hvar báturinn var við eyna né hverjir áttu í hlut. Hann virtist dálítið hikandi. Ég fór að ímynda mér að hann tryði varla neyðarkallinu – þetta væri jafnvel gabb. En ekki var um annað að ræða en að taka þetta alvarlega. Mér fannst líklegast að báturinn væri á svokölluðum Flóa, svæð inu milli Heimaeyjar og Bjarnareyjar.

Draumur Omars um að komast í lundaveiði út í Bjarnarey var orðinn að martröð. Þrek hans var á þrotum. Kuldinn og öldugang urinn voru að ganga af honum dauðum. Honum gekk ekkert orðið að synda:
„Hvað var maður að þvælast í þessum lunda?“ hugsaði ég.
Eg var hættur að synda – lét mig nú bara sökkva til að reyna að ná af mér stígvélunum. Það tókst ekki. Mér fannst ég aldrei ætla að koma upp á yfirborðið aftur. Gegnum huga minn flugu frásagnir um drukknandi menn – þeim liði svo vel að þeir klæddu sig jafnvel úr fötunum. Þetta fannst mér alls ekki geta staðist. Ég hugsaði líka um tvo vini mína sem báðir höfðu drukknað. Mér leið hræðilega þarna niðri í myrkrinu og þögninni.

Þegar mér skaut loks upp greip ég andann á lofti, svelgdist á sjó og hóstaði. Eg horfði á klettinn. „Þetta þýðir ekkert, mér tekst aldrei að komast upp. Við erum bjargarlausir,“ hugsaði ég. „Hinir strákarnir eru örugglega drukknaðir. Fyrst ég náði ekki eyjunni þá hafa þeir ekki haft það af heldur.“

Fjölskyldan kom upp í hugann – Sigfríður, konan mín, og dætur okkar, Linda Björg, fjögurra mánaða, og Guðný Ósk, fjögurra ára. Ég var þess fullviss að ég sæi þær aldrei framar í þessu lífi. Ég var búinn að gefast upp. „Ég mun drukkna.“
Mér fannst stöðugt eins og verið væri að toga í fæturna á mér. Það var skammt í að mig brysti þrek til að halda mér á floti með höndum og fótum. Þá myndi ég sökkva eins og steinn.“

Jens hafði fylgst með Ómari vini sínum berjast fyrir lífi sínu. Það eina sem hann sá var höfuðið á Ómari þegar hann var ekki á kafi og öldurnar skyggðu ekki á:
„Ég sá að hann var örmagna. Mér fannst hann kominn allt of langt í burtu frá okkur. Ég blótaði í huganum: „Djöfullinn sjálfur! Það var ég sem bauð honum með í þessa ferð sem gesti. Að þetta skuli þurfa að gerast núna!

Ómar hafði ekki hugmynd um að Jens fylgdist með honum, hvað þá að báturinn flaut enn á hvolfi. Hann taldi sig vera einan eftir á lífi hinir væru allir drukknaðir – þetta væri bara búið:
„Ég var mjög nálægt berginu og reyndi að nota síðustu kraftana til að halda mér á floti þegar ég snerist við. Allt í einu sá ég tvo af strákunum sitjandi á kili bátsins. Hann var ekki sokkinn! Þetta voru Pétur og Jens. Þeir voru að reyna að ná einhverjum upp úr sjónum. Þá vaknaði hjá mér lífsvon. Eg reyndi af veikum mætti að synda í áttina til þeirra. „Ég er of þreyttur – ég kemst þetta aldrei,“ hugsaði ég. Eitt augnablik datt mér í hug að kalla á hjálp. „Nei, þeir geta aldrei bjargað mér!“ Mér fannst ég heldur ekki hafa kraft til að kalla. Mér fannst ég vera að sökkva.

Allt í einu birtist rauður bensínbrúsi beint fyrir framan mig. Hann kom bara upp í fangið á mér. Eins og himnasending. Ég tók utan um hann, fullviss um að ef brúsinn hefði ekki flotið til mín hefði ég sokkið. Nú gat ég loksins andað án þess að hósta eða gleypa sjó. Mér var farið að sortna fyrir augum. Ég gat aðeins hreyft fæturna til að reyna að komast áfram.“

Jens sá hvað var að gerast í öldunum uppi við bergið:
„Ómar náði nú taki á 25 lítra bensínbrúsa úr plasti sem hafði flotið frá bátnum – það var eins og brúsinn flyti upp í fangið á honum. Mér létti mjög við þá sjón.

Við Pétur höfðum náð að halda okkur á kilinum en nú hafði ég mestar áhyggjur af Björgvini og Gylfa. Pétur var að ná taki á Gylfa. Hann reif í strákinn og dró hann svo að sér. Björgvin var skammt frá mér í þykkfóðraða vetrarsamfestingnum sínum. Mér fannst þessi fremur þétti maður skoppa eins og korktappi í sjónum. Hann fór hvað eftir annað á kaf en skaut jafn skjótt upp aftur. Ég krækti fótunum vel utan um rekkverkið, losaði handtakið og teygði mig eftir honum. Mér tókst að ná taki á hettunni á gallanum og dró Björgvin að mér. Hann var hóstandi, hafði drukkið talsvert af sjó og orðinn þreklaus og óhemjuþungur.“

Björgvin var andstuttur eftir allt volkið í sjónum:
„Ég náði að teygja mig í spotta og setja fæturna á rekkverkið. Þegar ég leit í áttina að berginu kom ég auga á Ómar. Það var skelfi leg sjón. Hann var hreinlega sprunginn og flaut máttlaus ofan á bensínbrúsa. Mér fannst hann hættur að hreyfa sig. Ég gerði mér grein fyrir að Ómar ætti ekki margar mínútur eftir ef ekki bærist hjálp strax.“ Þegar Gylfi var dreginn upp að bátnum náði hann handfestu hlé megin en fékk mikinn sjó upp í sig þegar sjórinn brotnaði á kilinum og gusurnar gengu yfir.

Jens horfði á Ómar, félaga sinn:
„Þegar ég kallaði í Ómar, eftir að hann hafði náð taki á bensín brúsanum, fannst mér hann ekki vera fær um að svara. Hann maraði í hálfu kafi – þrekinn maður sem stundaði lyftingar og æfði vel. En hann var búinn að synda svo mikið í ölduganginum að hann gat ekki meira. Hann var gjörsamlega búinn.“

Talsverður tími hafði liðið í óvissu á Loftskeytastöðinni í Vestmannaeyjum. Þór, Bravó og vélbáturinn Drífa VE-76 voru á leið á slysstað. Bergþór hafði gert allt sem í hans valdi stóð og við tók spennuþrungin bið hjá honum:

„Ég var óþreyjufullur að vita hvað var að gerast. Enginn veit þegar farið er af stað til bjargar fólki í sjávarháska hver afdrif þess verða. Þór tilkynnti mér að hann væri á leið á staðinn. Bravó var einnig á leiðinni til bjargar. Ég vildi ekki tefja björgunarmennina, kvaddi og beið í ofvæni eftir því að vita hvort fólkinu yrði bjargað.“

Hjálmar á Bravó hafði sett bensíngjöfina í botn og siglt á fullri ferð til suðurs og síðan upp í norðanölduna vestur með Bjarnarey:
„Þegar við komum vestur fyrir eyna sigldi ég beint upp í kvikuna og norðankaldann. Ég var var rétt undan Bjarnareyjarhorninu þeg ar sá ég hilla í bát fram undan. Þar var að minnsta kosti einn mað ur í einkennilegri stellingu. Er ég kom nær og fór að rýna betur sá ég að báturinn var á hvolfi. Mótorskaftið sneri upp. Þarna voru fleiri menn.
Einn maður hafði greinilega orðið viðskila við bátinn. Á andlitum mannanna mátt sjá að mjög var af þeim dregið. Sá sem var stakur hélt um rauðan bensínbrúsa. Hann leit sýnu verst út. Maðurinn var svo þrekaður að ekki mátti tæpara standa.
„Þessi maður er í bráðri lífshættu,“ hugsaði ég. „Ef hann missir takið á þessum brúsa þá er hann farinn!

Gunnlaugur skipstjóri var við stýrið á Þór. Skipið nálgaðist Bjarnarey á fullri ferð:
„Við sáum lítið hvernig aðstæður voru fyrr en við vorum nánast komnir upp að bát á hvolfi. Ég sá að fjórir menn héngu utan í kilinum. Fimmti maðurinn hélt um fljótandi bensínbrúsa skammt undan. Ég kallaði í Hjálmar á Bravó í talstöðinni. Þar sem hann var á minni bát og nær klettinum var ákveðið að hann bjargaði manninum á bensínbrúsanum. Okkar bátur var líka mun öflugri og því eðlilegra að við reyndum að ná fjórmenningunum. Mér leist ekkert á þessar aðstæður. Þarna mátti greinilega engu muna.“

Hjálmar var að sigla Bravó að Ómari. Nú voru handtökin snör:
„Karlmennirnir um borð hjá mér brugðust mjög vasklega við þessum aðstæðum þótt þeir væru óvanir sjóvolki. Það kom í hlut snaggaralegs Bandaríkjamanns af Keflavíkurflugvelli og Robertos Hugos Blancos, Argentínumanns, búsetts í Eyjum, að draga mann inn upp úr sjónum. Þeir voru viðbúnir þegar ég stýrði bátnum að og hlýddu öllu sem ég sagði. Þeir voru svo snöggir að þeir voru búnir að rykkja manninum upp úr þegar ég komst frá stýrinu til að hjálpa þeim. Maðurinn var mjög lerkaður. Hann hafði misst annað stígvélið og sjórinn hripaði úr fötum hans. En hann var ekki dauður úr öllum æðum.

Fyrstu viðbrögð hans voru að líta til mín og stynja upp óvæntum orðum: „Bjargaðu háfnum mínum!

Gunnlaugur hafði siglt Þór upp að hálfsokknum bátnum og fylgdist með frá stýrinu hvernig mönnum hans gengi að bjarga fjór menningunum. Björgvin og Jens voru verst á sig komnir. Gunnlaugi var ljóst að beita þyrfti afli til að ná aðframkomnum mönnun um um borð:
„Ég sá að sumir mannanna voru í loðfóðruðum kuldagöllum eða pollagöllum. Þeir voru líka svo þungir í blautum göllunum. Sá fyrsti sem við náðum um borð var Gylfi, grennsti maðurinn. Hann lá eins og slytti á þilfarinu – hann virtist algjörlega úrvinda.
Næstur kom Björgvin. Hann var líka mjög þreyttur. Hvorugur mannanna gat hjálpað til við að komast um borð.“

Atök þurfti til að draga Björgvin um borð:
„Mennirnir á Þór þurftu að sæta lagi við að teygja sig í mig því höfuðið var nánast það eina sem stóð upp úr sjónum þar sem ég velktist utan í kili bátsins. Ég hafði haldið þvílíku dauðahaldi í spotta á bátnum að greipin opnaðist ekki þótt ég vildi. Fyrst ég var kominn með handfestu var eins og ég gæti ekki sleppt. Höndin hlýddi ekki.

Mennirnir á Þór gerðu nokkrar tilraunir til að ná mér upp. Að lokum náðu þeir að rífa í axlirnar á mér og svipta mér upp. Ég sá síðuna á Þór fara niður á einni öldunni og vissi ekki fyrri til en ég skall kylliflatur á andlitið á þilfarinu. Það var ekki slæm tilfinning því nú var ég hólpinn. Ég fór strax úr níðþungum og blautum gallanum sem ég hafði bölvað mikið. Þegar við vorum allir fjórir komnir um borð byrjuðu mennirnir á Þór að reyna að bjarga bátnum mínum.

Ég sagði við Gunnlaug skipstjóra „Blessaður vertu, láttu ansans bátinn fara, mér er alveg sama um hann!“
Mér fannst mest um vert að okkur hafði öllum verið bjargað. En þeir hlustuðu ekki á mig og komu taug í bátinn til draga hann til hafnar.

Andrúmsloftið um borð í Þór einkenndist nú af einkennilegum gálgahúmor. Við vorum í miklu uppnámi, rétt farnir að átta okkur á því sem hafði gerst. Ég sat á þilfarinu beint á móti Gylfa þegar hann renndi niður yfirhöfninni, seildist eftir húfunni sinni, tók um derið og sló henni á hnéð áður en hann setti hana upp.

Mér fannst þetta óskaplega fyndið. Þetta var eins og í teiknimynd. Ég hló rosalega. Hann hafði virkilega haft fyrir því að taka húfuna af sér þegar báturinn var að sökkva undan okkur. Maður sem var við það að farast var að bjarga húfunni sinni!

Mér fannst Gylfi dálítið dapur. Hann sagðist vera ægilega svekktur yfir bátnum mínum, sérstaklega nýlegum mótornum. Ég sagði honum að hafa engar áhyggjur af þessu.“

Gylfi sat á móti Björgvini félaga sínum – með húfuna á höfðinu. Hann hafði orðið fyrir talsverðu áfalli:

„Ég bað strákana á Þór um sígarettu því pakkinn minn var auðvitað rennblautur og ónýtur. Við vorum að tala saman þegar ég fann skyndilega að ég þurfti að kastaupp. Ég gekk að borðstokknum og ældi út fyrir. Ég hafði gleypt mikið af sjó. Nú fór mér að verða mjög kalt og var ákveðinn í að fara í sturtu þegar ég kæmi heim.

Ég fór að hugsa um viðbrögð mín eftir að við fórum fyrst í sjóinn. Það fyrsta sem mér datt þá í hug var að komast upp á steðjann þar sem gengið er upp í eyna. Sem betur fer gerði ég það ekki. Það hefði getað riðið mér að fullu.“

Þegar fimmmenningarnir í sjónum sáu fyrst Bravó og síðan Þór skömmu síðar rann upp fyrir þeim að þótt ótrúlegt mætti virðast hafði Jens tekist að ná sambandi með farsímanum á þeim örfáu sekúndum sem hann hafði svigrúm til þess. En ekki mátti tæpara standa að þeir færust allir.
Hjálmar á Bravó var búinn að finna nýja háfinn hans Ómars fljótandi í sjónum. Honum var snarlega ,,bjargað“.

Vélbáturinn Drífa var einnig kominn á staðinn. Áhöfn hennar sá um að taka önnur fljótandi verðmæti fimmmenninganna um borð – töskur og pinkla, lundakippur og fleira. Um borð í Drífunni var Ingvi Sigurgeirsson, mágur Péturs. Bravó og Þór voru á leið til hafnar á Heimaey.

Ómar gerði sér manna best grein fyrir hve stutt er milli lífs og dauða:
,,Ég varð óstjórnlega glaður þegar ég sá Bravó – eins glaður og ég hafði verið vonlaus stuttu áður.
Mér fannst ég vera eins og tuska þegar mennirnir á Bravó drógu mig upp úr sjónum. Ég féll máttlaus á þilfarið. Ég sá bara svarta depla og var töluverða stund að jafna mig. Hjálmar sigldi bátnum á fullri ferð til hafnar. Fólkið gat lítið sinnt mér á leið í land því útlendingarnir voru orðnir svo sjóveikir.“

Jens hafði beðið strákana á Þór um „snellu“ (sígarettu) eftir að hann var dreginn upp í bátinn. Hann og Pétur félagi hans reyktu síðan hvor í kapp við annan á leiðinni í land til að róa taugarnar.

Ekki fór hjá því að Jens hugsaði um hve lítið hefði mátt út af bera til að illa færi:
„Þegar ég hékk á kilinum og sá björgunarbátinn nálgast okkur rann upp fyrir mér hvað við höfðum verið nálægt því að deyja. Meðan á öllu þessu stóð hafði ég ekki haft tíma til að hugsa um slíkt. Það gerðist svo margt á skömmum tíma. Ef bátarnir hefðu ekki verið svona fljótir að koma til okkar hefðum við farist þarna, einn af öðrum.“

Þór leggst upp að bryggju í Friðarhöfn

Björgvin var aðfluttur í Vestmannaeyjum og hafði búið þar í rúm an áratug. Þegar Þór nálgaðist innsiglinguna við Heimaey kynntist hann nýrri hlið á Vestmannaeyingum:

„Fólk í bænum hafði greinilega frétt af slysinu og var komið alla. leið út í hraun til að fylgjast með bátunum þegar þeir sigldu inn. Síðan fylgdu bílarnir alla leið að bryggjunni innst í Friðarhöfn þar sem við lögðumst upp að. Mér fannst ótrúleg stemning á bryggjunni. Bílar og fólk voru út um allt.

Þetta var eins og ein stór fjölskylda. Þótt ég hefði búið lengi í Eyjum var þetta ný og afar sérstæð reynsla fyrir mig. Allir voru að heilsa okkur og gefa til kynna hve glaðir þeir væru yfir því að við værum á lífi. Líka fólk sem maður vissi ekki einu sinni hvað hét. Mér þótti mjög vænt um þetta. Ég fann hve samkenndin í Vestmannaeyjum er einstök.“

Jens var orðinn klökkur þegar hann tók Ármann, fjögurra ára son sinn, í fangið á bryggjunni

Jens var að hugsa um hve ótrúlega lánsamir þeir félagar höfðu verið er hann gekk frá borði til fjölskyldunnar sem beið á bryggj unni:
„Þegar Ármann Halldór, fjögurra ára sonur minn, kom hlaupandi upp í fangið á mér varð ég klökkur. Ég var kominn með eitthvað í hálsinn. Sigríður, konan mín, og Sigríður Ósk, 11 ára dóttir mín, föðmuðu mig líka og kysstu. Gleðin var mikil.
„Hvílík hamingja að fá að koma aftur,“ hugsaði ég. Allir voru að taka í höndina á okkur og klappa á bakið á manni. Við vorum myndaðir og reyndum að bera okkur vel. Mér fannst skrýtið að ég hafði ekki fundið fyrir kulda fyrr en við komum að bryggjunni.

Ég var enn klökkur þegar ég kom heim. Ekki hefði þurft mikið til að ég brysti í grát. Þegar ég var að klæða mig úr blautum fötun um var ég farinn að skjálfa. Ég held að ég hafi verið í svo miklu losti að ég skynjaði ekki kuldann fyrr en þá og ég fór að átta mig betur. Það lá við að konan mín yrði ekkja, þrítug, tveggja barna móðir, og við nýbúin að kaupa íbúð.

Eftir að hafa farið í sturtu heima, hlýjað mér og klætt mig hringdi ég í Loftskeytastöðina – 481 1021. Ég kynnti mig og sagðist vera sá sem hringt hefði og tilkynnt að við værum að sökkva við Bjarnarey.

Maðurinn sagði: „Það var ég sem svaraði. Það er gaman að heyra í þér!“ Nú spruttu fram nokkur tár hjá mér.
Ég þakkaði honum innilega fyrir hjálpina. Bergþór sagðist hafa getað svarað símtalinu mínu strax. Hann hafði ekki verið upptekinn við neitt þegar síminn hringdi. Stundum þegar maður hefur hringt er ekki svarað fyrr en eftir 2-3 hringingar og jafnvel sagt „augnablik“ í símann.

Ég heyrði hvað Bergþór var ánægður. Við fimmmenningarnir höfðum átt allt undir honum. Ef ég hefði þurft að bíða eftir að hann tæki upp símtólið hefði ég aldrei náð sambandi. Það hefði verið of seint. Það hafði greinilega einhver vakað yfir okkur.“

Þrír votir félagar í Friðarhöfn heimtir úr helju. Gylfi, Björgvin og Jens. Þeir voru varla búnir að átta sig á því sem hafði gerst

Bergþóri hafði létt mjög þegar hann frétti frá Þór og Bravó að þeim sem sent höfðu hjálparbeiðni hefði verið bjargað. Það gladdi hann að heyra nú aftur röddina í Jens undir mun skemmtilegri kringumstæðum en fyrr um daginn:
,,Ég heyrði að Jens var mikið niðri fyrir þegar hann þakkaði mér fyrir. En ég var bara þarna í vinnunni til að svara þessum körlum. Mér fannst ekki að það ætti sérstaklega að þakka mér. Þetta er bara starf okkar á Loftskeytastöðinni.
Okkur sem komum að þessum atburði fannst sem einhver hefði haldið verndarhendi yfir mönnunum. Þetta stóð allt svo tæpt.
Ég var auðvitað mjög ánægður með að hafa setið beint fyrir fram an símann. Ef ég hefði ekki svarað strax hefði ég aldrei vitað neitt – ekki einu sinni að þeir hefðu hringt í mig – því númerabirtir var ekki á símanum hjá mér. Þá hefði ég bara heyrt símann hringja og ekki náð að svara í tæka tíð.

En þetta mun breytast talsvert með nýju fjarskiptaborði sem verður tengt við Reykjavíkurradíó. Þurfi maður að bregða sér frá, á klósett eða út úr herberginu, tengir maður borðið við vaktina í Reykjavík.

Ég hugleiddi óhjákvæmilega hvers vegna ég hefði ekki farið fram til að hita mér kaffi fyrst ekki var meira að gera hjá mér áður en síminn hringdi. Ef ég hefði gert það hefði ég í mesta lagi náð að svara eftir tvær hringingar – þótt ég hefði hlaupið fyrir hornið á fjarskiptaborðinu.

Við náum sjaldnast að svara fyrstu hringingu, einkum þegar mikið er að gera hjá okkur á Loftskeytastöðinni. Þá svörum við ekki fyrr en búið er að hringja tvisvar til fjórum sinnum – sérstaklega ef við erum að tala við einhvern annan í talstöð. Þá biður maður við komandi að bíða ef síminn hringir.

Það er guðs mildi að mennirnir björguðust. Allt hjálpaðist að við björgun þeirra. Þegar menn lenda í svona köldum sjó eiga þeir yfirleitt litla lífsmöguleika – til dæmis þegar einhver fer yfir borð á báti. Það tekur ekki langan tima að örmagnast”.

Björgvin var heldur að hressast eftir volkið:
„Stuttu eftir að ég kom heim og var búinn að fara í sturtu hringdi síminn. Þetta var Bjarni bróðir minn sem bjó í Reykjavík. Ég var reyndar farinn að huga að því að láta hann vita um slysið því ég átti von á að það kæmi í fréttunum.

Bjarni var að spyrja mig um matreiðslu:
„Björgvin, hvernig á ég að krydda svínakjöt?“ Ég sagði honum hvernig ætti að matreiða kjötið en bætti svo við:
„Þú skalt ekkert láta þér bregða þegar þú sérð fréttirnar á eftir. Báturinn var að sökkva undan okkur við Bjarnarey áðan.“
Bjarna brá mikið að heyra þetta.“

Pétur hafði líka farið í sturtu og náð að hlýja sér:
„Mér fannst ég ekki upplifa áfallið fyrr en ég kom heim. Þá kom mikill taugaskjálfti í mig. Eins og kjaftshögg. Við Jens höfðum ákveðið að fara niður á bryggju til að huga að bátnum hans Björgvins sem búið var að koma á land. Áður en við fórum þangað litum við inn hjá Hlöðveri „Súlla“ Johnsen, elsta bjargveiðimanninum í Eyjum – yfirjarlinum í Bjarnarey. Hann hafði verið á sjúkrahúsi í nokkra daga. Við greindum honum frá því sem hafði gerst fyrr um daginn. Hann þakkaði guði fyrir að við skyldum bjargast. „Þið hefðuð aldrei komist sjálfir upp í eyju,“ sagði hann. Súlli lést fimm dögum síðar.“

Gunnlaugur, skipstjóri á Þór, frétti af því að þeir sem hann hafði bjargað væru á leið niður að athafnasvæði Samskipa í Friðarhöfn til að huga að bátnum og mótornum:
„Ég ákvað að kíkja niður eftir. Þegar ég hitti þá fann ég að andrúmsloftið var mjög tilfinningaþrungið. Allajafna þegar ég er með þessum strákum fíflumst við mikið. En þarna ríkti alvara. Ég horfði á „veiðina“ mína frá því fyrr um daginn og var afar glaður yfir því að allir skyldu vera á lífi.

Menn föðmuðust og tókust í hendur. Strákarnir þökkuðu mér fyrir björgunina. Þeir höfðu orðið fyrir mikilli lífsreynslu og voru að jafna sig. Við vorum með kökk í hálsinum og ekki var langt í tárin – allir búnir að átta sig á hve mjóu munaði að þeir hefðu farist. Við sáum nýja hlið hver á öðrum og ræddum um þá tilviljun að við á Þór skyldum hafa verið úti í Klettsvík og Bravó hefði líka verið nálægt.

Þarna skall hurð nærri hælum. Strákarnir hefðu aldrei komist af sjálfsdáðum upp á eyna. Ég hugsaði til þess að hefði Bravó verið í höfn og við á Þór í landi hefði Vestmannaeyjaradíó þurft að hringja í símboðana hjá okkur. Síðan hefði útkallið tekið sinn tíma. Í það hefðu farið dýrmætar mínútur sem sumir í hópnum hefðu ekki mátt við.“

Pétur er sannfærður um að almættið hafi staðið á bak við björgunina:
„Það er alveg ljóst að æðri máttarvöld gripu í taumana. Ég er vissulega alinn upp í guðsótta og mér voru kenndar bænir. Oft er það með menn að þeir leita til guðs ef eitthvað bjátar á. Þegar við vorum í sjónum hugsaði ég til Guðbjargar, konu minnar, og fjölskyldunnar. Sonur okkar og tengdadóttir voru nýbúin að færa okkur barnabarn og ég ætlaði mér að komast heim.

Þegar ég fór að hugleiða möguleika okkar á sjálfsbjörgun var eina vonin að synda að berginu og reyna að krafsa sig þar upp. Hins vegar var lítil von til þess að komast þangað upp í frákastinu. Ef við Jens hefðum reynt að synda hefðum við örugglega sprungið á sama hátt og þeir hinir – sennilega á miðri leið.“

Ómar kenndi eymsla fyrir brjósti. Líf hans hafði í raun hangið á bláþræði:
„Eftir að ég kom heim ákvað ég að fara upp á spítala vegna verkja í brjóstkassanum. Þá mældist líkamshitinn 35 gráður þó að ég hefði verið búinn að hlýja mér heima. Við lungnamyndatöku kom í ljós að sjór hafði farið í lungun og mér voru gefin sýklalyf.
Þegar ég kom heim aftur varð mér hugsað til þess er ég var á kafi í sjónum uppi við bergið í Bjarnarey. Þá fannst mér allt búið. Ég var viss um að ég myndi drukkna. En ég jafnaði mig fljótlega og fór í vinnu strax daginn eftir. Kannski hefur það hjálpað til við að dreifa huganum. En næstu daga varð mér aftur og aftur hugsað til þess hvað ég hafði verið nálægt því að deyja og hvað ég hafði verið heppinn.“

Ekki var nóg með að mennirnir fimm hefðu bjargast við Bjarnar ey heldur náðist bátur Björgvins einnig heill eftir ósköpin. Það var þó aukaatriði í huga eigandans:
„Mér var alveg sama um bátinn. Aðalatriðið var að við björguðumst, enda vorum við í mikilli lífshættu. Samt var ég ekki hræddur – kannski hefur það bjargað miklu. Ekki var verra að ég fann lítið fyrir kulda fyrr en búið var að bjarga okkur.

Gylfi, sem hafði haft áhyggjur af bátnum, sagði við mig eftir á að hegðun okkar strákanna hefði verið þannig á leiðinni í land að hann hefði ekki einu sinni náð að verða dapur. „Þið létuð eins alveg eins og fífl,“ sagði hann.
En gálgahúmorinn kom auðvitað til af því að við vorum í upp námi. Við grínuðumst til að halda sönsum. Þetta var bara afleiðing áfallsins.

Mistök okkar voru að vera ekki í björgunarvestum. Auk þess var þetta bara skemmtibátur og við með mikinn þunga í honum. Síðan var ekki að sökum að spyrja þegar fyllan kom á hann að aftan.

Hvað sem mistökum okkar líður var atburðarásin mjög sérstök. Það réð úrslitum að við náðum símasambandi. Hefðum við verið á sjónum við hina uppgönguleiðina í Bjarnarey tel ég mjög ólíklegt að við hefðum náð sambandi. Blessaður GSM-síminn er stundum ekki öruggari en þetta.

Ég hef stundum hugsað um hve heimurinn er lítill. Á vinnustað mínum, Flutningamiðstöð Vestmannaeyja, vinna að jafnaði 5-6 manns. Þorsteinn Viktorsson framkvæmdastjóri lenti í því síðastliðinn vetur að aka lyftara í Vestmannaeyjahöfn. Hann sökk niður á margra metra dýpi í myrkri en tókst samt að komast sjálfur upp á bryggju og gera vart við sig. Okkur vinnufélögunum hefur gjarnan verið strítt eftir þessar hrakfarir okkar. En ætli við séum ekki bara fæddir undir heillastjörnu.“

Hjálmar á Bravó segir það með ólíkindum að mennirnir skyldu hafa bjargast við Bjarnarey:
„Það er útilokað mál að nokkur maður geti synt eitthvað að gagni í ísköldum sjó, öldugangi og sterkum straumi. Menn eru svo ótrúlega fljótir að kólna og örmagnast. Við slíkar aðstæður eru þeir í stöðugri nauðvörn þegar hver aldan af annarri skellur á. Menn sökkva síðan eins og grjót er þeir verða úrvinda – ef þeir eru ekki í björgunarvesti.
Ég er trúaður maður og sé handleiðslu guðs í þessum atburði. Náð og miskunn var yfir þessum mönnum. Eftir á fannst mér líka á þeim sjálfum að þeir gerðu sér grein fyrir að atburðarásin var mjög óvenjuleg. Í tilviki Ómars tel ég að sekúndur hafi skipt máli. Hann gat gefist upp og sokkið á hverri stundu. Þótt hann væri fílhraustur hefði ein væn gusa sennilega dugað til að hann missti takið á bensínbrúsanum.

Ég hafði sjálfur unnið á Loftskeytastöðinni í Eyjum í 15 ár og vissi því að það er ekki sjálfsagður hlutur að sá sem þar er á vakt nái að taka símann upp við fyrstu hringingu. Þarna þurfa menn stundum að hlusta á margar stöðvar í einu.

Ekki vann ég hetjudáð þennan dag. Ég gerði bara það sem í mínu valdi stóð. Síðan vissi maður ekki af fyrr en allt var afstaðið.
En mér finnst skilaboðin tvímælalaus. Drottinn kemur stundum til manna og minnir á sig. Í þessum svokallaða úteyjabransa eru menn yfirleitt ekki í björgunarvestum. Ég hef sjálfur verið þátttakandi í slíku um áratugaskeið og er því ekkert betri en aðrir. En ég held að þetta slys hafi verið skilaboð um að menn gæti að sér í svona ferðum og fari betur útbúnir en þeir félagar þennan dag.

Jens sleppti farsímanum góða aldrei frá sér í sjónum – tæki sem hann hafði átt í tvö ár:
„Ég var nú búinn að sjá fyrir alvöru hverju farsími getur komið til leiðar. Eftir slysið ætlaði ég að láta laga símann minn. En það kom auðvitað í ljós að hann var ónýtur.
Við Pétur fórum síðan til tryggingafélags míns þar sem ég var með heimilistryggingu. Sá sem varð fyrir svörum fór að kanna málið og hringdi til höfuðstöðvanna í Reykjavík. Þar var sagt að heimilistryggingin mín bætti ekki símann – það þyrfti að sértryggja hann.

Þá sagði fulltrúinn minn að þetta hefði verið síminn sem bjargaði lífi mannanna fimm við Bjarnarey.
„Þá skulum við bæta manninum símann,“ svaraði hinn þá. Ég fékk síðan bæði útvarpið mitt og myndavélina bætt.
Eftir þetta fékk Jóhann Friðfinnsson, forstöðumaður Byggða safnsins í Vestmannaeyjum, ónýta símann í hendur. Hann sagði að þetta væri sennilega fyrsti GSM-síminn sem hann vissi til að hefði bjargað mannslífum í sjóslysi. Síminn er nú geymdur þar í borði með gleri yfir.

Þegar ég var í sjónum stakk ég farsímanum ekki í brjóstvasann fyrr en ég kom auga á Bravó.
Ég hafði haldið svo fast um hann að sennilega eru enn för eftir greipina á honum og þá var ég samt búinn að vera að toga í Björgvin. En ekki sleppti ég takinu á símanum.

Mér finnst merkilegast við þennan atburð hvað okkur auðnaðist að vera rólegir meðan við vorum í sjónum – hvernig menn sameinuðust í hrakningunum. Ég er sannfærður um að verstu óvinir myndu haldast í hendur við aðstæður sem þessar.
Ég hafði misst frænda minn í sjóslysi en hann missti besta vin sinn í öðru slysi. Ég held að það sé alveg sama hvað maður fer gætilega, slysin koma þegar þau eiga að koma.

Ég segi eins og Pétur, Hjálmar og fleiri að einhver hafi vakað yfir okkur þennan dag. Hvort það var guð eða einhver annar veit ég ekki. Helst hallast ég þó að almættinu. Það er eins og menn fari ekki fyrr en þeirra tími er kominn.
Þegar mannslíf eru í húfi er hver mínúta ómetanleg. Ég held að fólk geri sér þetta ekki að fullu ljóst fyrr en það lendir í raunum sem þessum. Tvær til þrjár mínútur geta verið ótrúlega langar en um leið dýrmætar.“

Jens, Pétur og Omar hafa farið margar ferðir út í Bjarnarey eftir slysið – alltaf í björgunarvestum. Þegar komið er út í eyju festa þeir vestin hjá lendingarstaðnum við steðjann og fara aftur í þau þegar snúið er til báts á ný. Viðhorf þeirra til öryggismála hefur breyst. Þeir vita nú að veiðiferðir geta breyst í martröð á skammri stundu. Ómar fékk sér GSM-síma eftir slysið og er orðinn meðlimur í Veiðifélagi Bjarnareyinga. Hann dvaldi tvær vikur í eynni síðastliðið sumar.

Lokaorð þessarar frásagnar á Bergþór Atlason, loftskeytamaður í Eyjum. Hér lýsir hann öðrum atburði sem varpar ljósi á hve umbunin er mikilvæg í starfi hans:
„Þegar ég, ungur maður, vann á Loftskeytastöðinni á Siglufirði var eitt sinn sent út neyðarkall um miðja nótt. Það var æpt með svo miklum látum í talstöðina að ég skildi ekki hvað maðurinn var að segja. Ég varð að æpa á hann og skipa honum að tala rólega.

Þegar maðurinn talaði skýrar kom í ljós að trilla frá Akureyri hafði siglt upp í skerjagarðinn vestan við innsiglinguna í Grímsey. Maðurinn hafði ekkert séð vegna brimróts og báturinn var strandaður. Ég vissi hvernig veðrið var í Grímsey og byrjaði að kalla út.

Flutningaskip svöruðu mér en fáir bátar voru á sjó. Tveir stærstu bátarnir í Grímsey voru hins vegar að landa. Þeir höfðu flúið inn vegna veðursins. Ég náði ekki sambandi við bátana í höfninni og ákvað því að hringja strax í hreppstjórann á eynni. Ég bað hann að hlaupa niður á bryggju til að láta trillukarlana vita hvað gerst hefði. Síðan hélt ég áfram að reyna að kalla á þá í talstöðina. Fljótlega heyrði skipstjórinn á öðrum bátnum í mér: „Bátar við Grímsey, mayday relay!“

Þegar ég skýrði út fyrir honum hvað væri að gerast beið hann ekki boðanna og bakkaði bátnum út. Hann hafði verið í miðri löndun, með spilið í notkun, og tvo löndunarkarla um borð. Það sturtaðist allt um koll í lönduninni. Balarnir lentu meðal annars í höfninni.

Síðan sigldi skipstjórinn út í myrkrið en hann var nokkurn veginn viss um hvar báturinn hafði strandað. Hann og löndunarkarlarnir náðu síðan skipbrotsmönnunum af stefni bátsins sem var það eina sem stóð upp úr sjónum. Skipstjórinn sagði mér síðar hvað hann hefði verið heppinn að hafa þessa tvo löndunarkarla um borð.

Þeir höfðu komist fram á stefnið og náð mönnunum upp í bátinn. A meðan bakkaði hann á fullri ferð til að þeir lentu ekki sjálfir á skerinu. Hann sagði að þarna hefðu tvær til þrjár mínútur skilið á milli feigs og ófeigs. Ef þeir hefðu þurft að bíða eftir að hreppstjórinn kæmist niður á bryggju er ekki víst að það hefði dugað.
Þegar ég hugsa um þetta og atburðinn við Bjarnarey kemur óneitanlega upp í hugann að það er kannski vegna svona atburða að maður hefur tollað svona lengi í þessari vinnu – þegar maður finnur áþreifanlega að maður hafi gert eitthvert gagn.“

Fimm fræknir félagar sem lentu í hinni snöggu en hrikalegu lífsreynslu við Bjarnarey sem er hægra megin að baki þeirra á myndinni. Frá vinstri, Gylfi, Jens, Pétur, Ómar og Björgvin

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is