Hressó fagnar 25 ára afmæli í ár

Það er ekki sjálfgefið í ekki stærra bæjarfélagi en Vestmannaeyjar eru að geta valið úr þegar kemur að líkamsrækt. Elst í dag er Íþróttamiðstöðin með æfinga- og tækjasali og frábæra sundlaug. Á eftir komu Týsheimilið og Þórsheimilið þar sem ýmislegt var í boði fyrir þá sem vildu svitna og taka á. Þannig var þetta þangað til fyrir 25 árum að þær systur, Anna Dóra og Jóhanna Jóhannsdætur ákveða að opna líkamsræktarstöð á annarri hæðinni í Vosbúð sem var í eigu fjölskyldunnar.
Þær opnuðu Hressó með bravör í janúar 1995 og fagnar stöðin því 25 ára afmæli í ár. Þær hafa staðið við stjórn-völin síðan. Fengu reyndar Gilla Hjartar í lið með sér sem slysaðist þarna inn fyrir nokkrum árum og endaði í fanginu á Jóhönnu. Einkarekin líkamsrækt var ekki nýtt fyrirbrigði í Eyjum, Dúdda á Hól, Óla Heiða og fleiri vaskar konur buðu upp á leikfimi þar sem ég held að Jane Fonda hafi verið fyrirmyndin að ógleymdri kallaleikfiminni sem enn lifir.


Flaggskip
En þær systur komu inn af miklum krafti og buðu upp á líkamsræktarstöð sem er rekin allt árið með tækjasal og tímum þar sem flestir eiga að finna eitthvað við sitt hæfi. Á þessum 25 árum hefur áhugi á líkamsrækt vaxið og fleiri aðilar komið inn en flaggskipið er Hressó sem hefur vaxið og dafnað á þessum aldarfjórðungi sem liðinn er frá stofnun stöðvarinnar.
Það er með þennan sem þetta skrifar eins og Gilla, að hann byrjaði fyrir slysni á Hressó í apríl 1995, í ekki alltof góðu standi. Þá voru snillingar eins og Smári Harðar, Gyða Arnórs að ógleymdri Jóhönnu með tíma sem fengu karlinn til að svitna svo um munaði. Og síðan hefur margur svitadropinn fallið og sambandið við Hressó hefur eflst með hverju árinu.
Þá var slegist um plássin
Þegar litið er til baka rifjast margt upp, eins og airobictímar þar sem hver átti sinn stað í salnum. Endaði stundum með slagsmálum hjá konunum ef einhver þeirra vogaði sér að fara inn á svæði annarrar. Það var tekið á og mikið hopp og ekki var þetta létt. Með stjörnur fyrir augunum, í andnauð og púlsinn í toppi var ekki séns að gefast upp með glæsikonur á allar hliðar. Ekki bætti úr þegar konan við hliðina var komin sjö mánuði á leið og kennarinn átta. Uppgjöf var ekki inni í myndinni. Þú varðst að standa þig og brosa í gegnum tárin.


Haninn sem féll
Hjólatímar í litla herberginu í suðausturhorninu á neðstu hæðinni eru líka eftirminnilegir. Mætt klukkan sex á morgnana og ég, eins og stundum, einn með konum. Leið pínu eins og hana í hænsnahópi en sú tilfinning hvarf þegar yngri menn slógust í hópinn. Þá var maður fljótur að detta niður virðingarstigann hjá þessum elskum.
Það hefur verið stefnan hjá Hressó alla tíð að bjóða upp á fjölbreytta tíma þar sem fylgt er nýjustu straumum og stefnum í líkamsrækt. Ég hef komið mér upp ákveðnu prógrami sem eru tímar í hádeginu þrisvar í viku og svo fyrir hádegi á laugardögum.
Allt í föstum skorðum en ég hef stundum lent í ýmsu eins og Buttlift og Core. Hélt þetta vera léttar lyftingar og mætti óhræddur eins og alltaf. En það runnu á mig tvær grímur þegar ég var mættur í fullan sal af konum sem voru þarna komnar til að lyfta og hressa upp á rassinn. Þarna blöstu við mér 40 til 50 rasskinnar, allar flottar og til í slaginn og ég kallinn með mínar tvær.
Allt slapp þetta en fleiri hafa Buttlift og Core tímarnir ekki orðið hjá mér. Jóhanna Birgis, vinkona mín mikil, skoraði á mig að mæta í Zumbatíma hjá Dagmar. Það var eins og ég vissi, Dagmar er frábær kennari en við Zumba eigum ekki samleið. Sem er einmitt málið hjá Hressó, þú getur valið og fundið prógram sem hentar.


Að ætla sér ekki um of
Það er viss áfangi að ná því að verða fimmtugur, sextugur og sjötugur á Hressó. Kannski sá fyrsti en vonandi ekki sá síðasti. Steini í Bankanum, sem var mikill áhugamaður um líkamsrækt og hreyfingu almennt sagði einu sinni við mig; – það er mikill munur á milli þess að hlaupa tíu kílómetra á dag og gera ekki neitt. Eitthvað sem gott er að hafa í huga þegar aldurinn færist yfir, að ætla sér ekki um of. Vera þakklátur fyrir það sem maður getur og vera ekki að velta sér upp úr því sem ekki er hægt.


Þakklæti
Þá er það hin hliðin og ekki sú sísta, það er félagsskapurinn og fólkið sem maður hefði ekki kynnst annars. Hressó er ekki bara líkamsræktarstöð heldur líka félagsmiðstöð þar sem fólk kynnist, hittist og spjallar. Eitthvað sem maður kann betur að meta með hærri aldri.
Ég mun alltaf líta til Önnu Dóru, Jóhönnu og Gilla með þakklæti og líka allra kennarana sem hafa hvatt fólk til dáða. Allt fólk sem hefur ástríðu fyrir því sem það er að gera og alltaf tilbúið að leiðbeina. Stöðin hefur líka stækkað og fjölbreytni aukist.
Eitt að lokum; Hressó er ein af stoðum samfélagsins og megi stöðin lifa sem lengst. Það eru forréttindi að fá að fagna með þeim 25 ára afmælinu en ég lofa ekki að vera enn að þegar Hressó fylllir 50 árin. En Hver veit?


– Ómar Garðarsson

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search