Karlakór Vestmannaeyja heldur sína árlegu vortónleika í Höllinni á uppstigningardag fimmtudaginn 18. maí næstkomandi, að þessu sinni í samstarfi við hljómsveitina Molda.
„Kórmeðlimir hafa fengið smjörþefin af rokklíferninu eftir að hafa nokkrum sinnum stigið á stærstu svið landsins í Herjólfsdal og Hörpu. Á síðasta ári héldum við svo tónleika í Höllinni með okkar eigin hljómsveit og nú sætta menn sig ekki við neitt minna,“ sagði Snorri Þór Guðmundsson meðlimur og stjórnarmaður í Karlakór Vestmannaeyja. „Tónleikarnir í ár verða tvískiptir. Fyrir hlé ætlum við að syngja alla karlakóra klassíkina eins og hún leggur sig við undirleik bæjarlistamannsins okkar, Kitty Kovács. Þarna verða slagarar eins og Brennið þið vitar, Brimlending og að sjálfsögðu tiltillag tónleikanna Hraustir menn,“ sagði Snorri af mikilli tilhlökkun.
„Eftir hlé ætlum við svo að taka nokkur lög með rokkhundunum í hljómsveitinni Molda. Þar munum við flytja nokkur lög frá þeim í bland við eldri rokkslagara. Þetta verður klikkað! Það ætti eiginlega bara að vera skyldumæting á þetta,“ sagði Snorri og hló.
Helgi Rasmussen Tórzhamar forsprakki hljómsveitarinnar Molda sagðist fullur eftirvæntingar enda verkefnið einstaklega spennandi. „Bandið er funheitt enda nýbúnir að spila á annað tug sýninga á Rocky Horror hjá Leikfélagi Vestmannaeyja. Við höfum því sjaldan verið í eins góðu spilaformi og nú. Þetta er ekki síður skemmtilegt verkefni enda alveg stórkostlegur kór og skemmtilegur að vinna með. Páll Viðar Kristinsson mund leika með okkur á tónleikunum líkt og hann gerði í leikhúsinu og svo mun hún Kristín Viðja spila nokkur lög á gítarinn líka. Þannig að ég get alveg lofað fólki frábærri skemmtun,“ sagði Helgi.
Þetta verða sjöttu vortónlekar kórsins sem er nú á sínu áttunda starfsári. En hinsvegar þeir fyrstu undir stjór nýs stjórnanda, Matthíasar Harðarsonar sem tók við kórnum um síðustu áramót. Eins og fyrr segir fara tónleikarnir fram fimmtudaginn 18. Maí og opnar húsið kl. 19:30 og hefjast tónleikarnir kl. 20:00 á slaginu. Miðaverð er kr. 3.900 og fer miðasala fram á Tix.is/hollin. Einnig verður hægt að kaupa miða við dyrnar.