kauptu bíómiða, heimsókn í tröllasmiðjuna eða einkaheimsókn frá Grýlu og Leppalúða
Hópfjármögnun er hafin á Karolina Fund fyrir Þrettándann, heimildarmynd SIGVA media. Framleiðendur myndarinnar má styrkja meðal annars með „tröllaklappi á bakið“ og kaupum á bíómiðum.
„Við bjóðum upp á fjölbreyttar og spennandi leiðir til að styrkja við framleiðslu myndarinnar,“ segir Sighvatur Jónsson, einn af höfundum Þrettándans. „Á söfnunarsíðu okkar á Karolina Fund getur fólk keypt heimsókn í tröllasmiðjuna í Eyjum sem er ævintýraheimur út af fyrir sig. Í þessu látlausa atvinnuhúsnæði kviknar bókstaflega líf á fyrstu dögum ársins þar sem tröll af ýmsum stærðum og gerðum koma saman fyrir þrettándann. Þeir sem þora geta komið með okkur framleiðendum í sérstaka sýningarferð um tröllasmiðjuna í kringum áramótin,“ segir Sighvatur. Þrettándagleði ÍBV fer að þessu sinni fram að kvöldi föstudagsins 3. janúar 2020.
Þorir þú að fá Grýlu og Leppalúða í heimsókn?

Eyjafólkið Sighvatur Jónsson, Geir Reynisson og Hrefna Díana Viðarsdóttir hafa unnið að heimildarmyndinni ásamt mörgum sem koma að undirbúningi þrettándagleði ÍBV. „Við upptökur myndarinnar hefur myndast náið samband við Grýlu og Leppalúða. Ég náði einstökum myndum af óvæntri heimsókn þeirra hjóna til Geirs og fjölskyldu hans eftir þrettándann 2015. Það er upplifun sem ég gleymi aldrei, ekki frekar en blessuð börnin á heimilinu og amman sem Grýla og Leppi reyndu að taka með sér til fjalla,“ segir Sighvatur.

Höfundum myndarinnar tókst að ná samkomulagi við ólíkindatólin Grýlu og Leppalúða um að bjóða styrktaraðilum myndarinnar að panta heimsókn frá þeim heiðurshjónum í lok þrettándagleðinnar 2020. „Maður veit aldrei upp á hverju gömlu hjónin taka svo það verður að viðurkennast að við erum að taka vissa áhættu að bjóða upp á þennan valmöguleika á Karolina Fund síðunni okkar,“ segir Geir.
Höfundar myndarinnar vilja taka fram að takmarkaður fjöldi heimsókna frá Grýlu og Leppalúða er í boði – fyrstir panta, fyrstir fá. „Ég mæli með því að fólk sem eru nógu hugað í þetta komi öðrum veislugestum á óvart og láti ekki vita að Grýlu og Leppalúða hafi verið boðið í þrettándakaffið,“ segir Geir og brosir tröllslega.
Þrettándinn frumsýndur í Eyjabíói milli hátíða
Heimildarmyndin Þrettándinn verður frumsýnd í Eyjabíói í Vestmannaeyjum föstudaginn 27. desember næstkomandi. Stefnt er að sýningu myndarinnar í kvikmyndahúsi á höfuðborgarsvæðinu og verða nánari upplýsingar veittar um það síðar.
Fylgstu með nýjustu fréttum af framleiðslu Þrettándans á Facebook síðu myndarinnar.
Söfnunarsíðan á Karolina Fund
Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Sighvatur Jónsson, framleiðandi hjá SIGVA media.
845 8033