Höldum áfram!

Í september 2021 skrifuðu  forsætisráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, og bæjarstjóri, fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar, undir sameiginlega viljayfirlýsingu sem fól m.a. í sér kaup á listaverki í tilefni 50 ára goslokaafmælis. Á þeim grundvelli lagði forsætisráðherra fram þingsályktunartillögu um sama efni þann 13. júní 2022 sem var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á Alþingi. Síðan þá hafa verið teknar á annan tug ákvarðana í bæjarstjórn, bæjarráði og í umhverfis og skipulagsráði varðandi verkefnið. Allar ákvarðanir sem teknar hafa verið í bæjarkerfinu hafa verið samþykktar samhljóða af öllum fulltrúum þeirra þriggja framboða sem sæti eiga í bæjarstjórn. Þar með talin ákvörðun í bæjarstjórn haustið 2022 um að í fjárhagsáætlun fyrir 2023 var gert ráð fyrir 50 m.kr. í þessu skyni.

Fljótlega kom á daginn að af ýmsum ástæðum – ekki síst fyrir milligöngu Eyjamannsins Martins Eyjólfssonar, þáverandi sendiherra Íslands í Þýskalandi –  hafði kviknað mikill áhugi hjá einum þekktasta og eftirsóttasta myndlistarmanni samtímans á þessu verkefni. Þetta er Ólafur Elíasson, sem á Íslandi er þekktastur fyrir ytra byrðið á Hörpunni. 

Virðing fyrir náttúrunni – engin umhverfisspjöll

Samið var við listamanninn um ákveðna undirbúningsvinnu og í framhaldi af því kynnti hann hugmyndir sínar fyrir málsaðilum, sem meðal annars fela í sér hönnun og uppbyggingu á nýjum göngustíg umhverfis gíginn í Eldfelli. Stígurinn verður hluti af listaverkinu og kemur í stað þeirra slóða sem fyrir eru. Að gefnu tilefni er rétt að taka fram að það er ekkert sem bendir til þess að ásýnd Eldfells eða náttúrunnar í kring verði raskað með óafturkræfum hætti enda á endanleg hönnun og útlit umrædds göngustígs og listaverksins alls eftir að fara í gegnum skipulagsferli áður en framkvæmdaleyfi verða gefin út. Og það er rétt að taka sérstaklega fram að þær furðumyndir sem birst hafa í tengslum við fréttir af þessu máli eiga auðvitað ekkert skylt við veruleikann, eru hreinn tilbúningur og hafa ekkert með verk listamannsins að gera.

Fjárhagsramminn tryggður

Eftir því sem verkinu hefur miðað skýrðust línur varðandi hugmyndir listamannsins og þar með áætlaðan kostnað við framkvæmdina í heild, sem nú stendur í um 200 m.kr. Nýverið var tryggður fjárhagslegur rammi utan um framkvæmdina, m.a. fyrir atbeina menningar- og viðskiptaráðuneytisins, án þess að gert sé ráð fyrir að upphafleg skuldbinding Vestmannaeyjabæjar breytist, þ.e. hún er áfram 50 milljónir eða um 25% af kostnaðinum. Sömuleiðis liggur nú fyrir, óundirritaður, endanlegur samningur við listamannin.

Ótæk tillaga

Það er í þessari stöðu málsins – allar ákvarðanir verið teknar samhljóða yfir 30 mánaða tímabil; búið að tryggja fjárhagsrammann  og ekkert eftir nema að undirrita samninginn við listamanninn og setja verkefnið á fulla ferð – að fram kemur í bæjarstjórn Vestmannaeyja tillaga um setja málið í íbúakosningu. Slík kosning fer venjulega fram ÁÐUR en ákvarðanir eru teknar en ekki EFTIR að allt er um garð gengið. Hér má nefna til samanburðar tillögu sem meirihlutinn lagði fram á síðasta bæjarstjórnarfundi um íbúakosningu varðandi hugsanlega nýtingu á svæði í miðbænum á eða undir nýja hrauninu sem er nefnt M2 í skipulagi. Þá verða íbúar spurðir ÁÐUR en farið verður að skipuleggja svæðið hvort þeir vilja halda hrauninu þarna ósnertu eða taka hluta af því undir byggð. Þannig á að standa að íbúakosningu. Fá fram vilja bæjarbúa í stórum og oft tilfinningatengdum málum ÁÐUR en ákvarðanir eru teknar. Þar fyrir utan var tillaga minnihlutans ótæk vegna þess að það vantaði spurninguna. Um hvað átti að kjósa? Upphaflegu viljayfirlýsinguna og fjárveitinguna eða listaverkið sjálft? Eða allar ákvarðanirnar sem voru teknar þar á milli? 

Það var engin leið önnur en að fella þessa tillögu.

Áfram gakk!

Við undirrituð sem myndum meirihlutann í bæjarstjórn erum sannfærð um að ákvörðunin um þetta listaverk er mikið heillaspor fyrir Vestmannaeyjar. Verk af þessari stærðargráðu og eftir þennan listamann mun áreiðanlega vekja heimsathygli eins og öll verk hans af þessu tagi hafa gert um margra ára skeið víða um heim. Þetta mun verða mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn og gesti og verða eitt af kennileitum Eyjanna til langrar framtíðar. Við höldum stolt áfram!

 

Helga Jóhanna Harðardóttir

Íris Róbertsdóttir

Jóna Sigríður Guðmundsdóttir

Njáll Ragnarsson

Páll Magnússon

 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search