Dæmt var í árlegu ljósmyndakeppni sjómanna sem haldin er af Sjómannablaðinu Víkingi
Það voru 68 myndir frá þrettán sjómönnum sem bárust í keppnina. Vegna covid aðstæðna hittist dómnefndin í gegnum fjarfundabúnað. Dómnefndin var skipuð sömu aðilum þriðja árið í röð sem eru Sigurður Ó. Sigurðsson atvinnuljósmyndari, Sigrún Sigurðardóttir áhugaljósmyndari og Sigrún Elín Svavarsdóttir, stýrimaður og listamaður.
Niðurstaðan var sú að mynd Hlyns Ágústssonar, háseta á Þórunni Sveinsdóttur VE, var valin í fyrsta sæti. Hlynur hreppir því fyrsta sætið annað árið í röð.

Fjölskylda: Ingibjörg ósk eiginkona mín og svo eigum við tvo peyja þá Kára Snæ og Þórð Ágúst.
Á hvaða bátum hefur þú verið og á hvaða bát ertu núna?
Fór einn túr á Sighvat Bjarna þegar ég var 17 ára. Svo kom löng pása á ferlinum. Fór nokkra túra á Jónu Eðvalds með Gumma fósturpabba. Byrjaði svo ferilinn fyrir alvöru á Kristbjörgu VE 71. Færði mig yfir á Brynjólf VE 3 þegar Kristbjörginni var lagt og er núna á Þórunni Sveinsdóttur VE 401.
Hver er skemmtilegasti félaginn um borð?
Þetta eru allt svo miklir snillingar þarna, bæði áhöfn og þeir sem sjá um allt í landi. En ef ég á að velja á milli þá eru það kokkarnir, enda gefa þeir mér að borða.
Hvenær byrjaði áhuginn á ljósmyndun?
Áhuginn byrjaði held ég á efri árum í grunnskóla. Ég var reglulega með einnota myndavélar og smellti myndum af hinu og þessu. Áhuginn fór svo á flug 2008 þegar ég eignaðist mína fyrstu DSLR(digital single lens reflex)vél sem var Canon 400d minnir mig.
Hvernig myndavél áttu og hver er uppáhalds linsan?
Í dag á ég Canon 6d Mark ii. Uppáhalds linsan er og hefur alltaf verið Canon 50mm 1.8. Föst linsa sem hefur alltaf verið í myndavélatöskunni öll þessi ár.
Ertu að taka ljósmyndir annars staðar en á sjónum?
Ég var alltaf duglegur að taka röltið um hér og þar um eyjuna og taka landslagsmyndir. Það hefur eittthvað aðeins minnkað í gegnum árin. Ég fæ samt aldrei leið á því að rölta um suma staði og mynda eins og Vilhjálmsvík og meðfram hamrinum í Vesturbænum.
Hver eru þín helstu áhugamál fyrir utan ljósmyndun?
Ætli það sé ekki bara fjölskyldan og heimilið. Svo finnst mér voðalega gott að skella á mig heyrnatólum og hlusta á tónlist, uppgötva nýja tónlist. Svo er fátt sem toppar góða kvöldstund með góðum vinum og mat.
Tígull óskar Hlyni til hamingju með vinningsmyndina!