Hlaupakappinn Hlynur Andrésson sló eigið Íslandsmet í einnar mílu hlaupi á innanhúsmóti í Athlon í Írlandi í dag. Hlynur nálgast fjögurra mínútna múrinn í greininni.
Hlynur hljóp míluna á fjórum mínútum og 3,61 sekúndu í dag og bætti þar með eigið met sem hann setti í Bandaríkjunum árið 2017. Þá hljóp Hlynur á 4:05,78.
Hlynur var sjöundi í mark í keppni dagsins en Eþíópíumaðurinn Samuel Tefera kom lang fyrstur í mark á 3:55,86. Hann var jafnframt sá eini sem hljóp míluna á undir fjórum mínútum í dag.
Hlynur nálgast hinn fræga fjögurra mínútna múr í míluhlaupi en lengi vel var talinn ógjörningur fyrir mann að hlaupa mílu á undir fjórum mínútum. Allt þar til Bretinn Roger Bannister afrekaði það árið 1954 er hann hljóp á 3:59,4.
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson – RÚV