Hljóp fyrstur heilt maraþon um Heimaey

Það er vel hægt að segja að hér er á ferðinni einn af Ultra hlaupurum landsins

Friðrik Benediktsson hljóp á dögunum fyrstur heilt maraþon um Heimaey. Friðrik er fæddur 1983 og því 38 ára á árinu. Friðrik er giftur Kolbrúnu Jónsdóttur og saman eiga þau Ronju Lísbet, Emil Elvis og Karítas Ídu.
Friðrik er fæddur í Reykjavík en ólst upp í Grafarvogi.

Við fengum að forvitnast um hvað væri framundan hjá Friðrik í hlaupunum.

Ég er á leiðinni núna 5. júní í hlaup sem heitir Hengill Ultra og er 106 km fjallahlaup með 4000m hækkun. Það tekur milli 14-18 klst að klára það ef allt gengur upp og veðrið er hliðhollt manni.
Næst á eftir því stefni ég á að fara í hlaup 18. september sem heitir Bakgarður náttúruhlaupa, Backyard Ultra. Þar er hlaupinn 6,7 km hringur og þú hefur 60 mínútur til að klára hringinn og svo er alltaf farið af stað á nýjum klukkutíma og svo bara farið eins marga hringi og þú getur, þannig ef ég næ að fara 160 km eins og ég stefni að þá þarf ég að hlaupa 24 hringi og það eru þá 24 klst sem það tekur og jafnvel lengur ef vel gengur. Þetta er svona það stóra sem er á planinu hjá mér en aldrei að vita hvort eitthvað skemmtilegt detti inn í millitíðinni.

Hvernig æfir maður sig fyrir svona löng hlaup?
Maður þarf að setja margar klukkustundir í undirbúning fyrir öll hlaup, í raun alveg sama hversu stór þau eru. Í svona Ultra hlaup þá er gríðarlegur undirbúningur sem maður er til í að leggja á sig. Maður telur vikurnar í raun ekki í km heldur í klst og hæðar metrum.

Rólegar vikur hjá mér eru 5-7 klst á viku (50-60 km) og það eru hvíldarvikurnar mínar. Venjulegar vikur eru 8-11 klst (70-80 km) á viku. Stóru löngu vikunar eru 12-16 klst (90-110 km) á viku og yfirleitt með 3-5000m hækkun.

Ég fer mikið upp á land að æfa og fer þá á Esjuna mikið og er að taka þar 3-5 ferðir með allskonar útfærslum. Hef verið að fara á Fimmvörðuháls og Eyjafjallajökul ásamt fleiri fjöllum í kringum Reykjavík (eyjan er eiginlega of lítil til að æfa fyrir svona hlaup en ég reyni að finna út góðar æfingar í eyjum ef ég kemst ekki upp á land).

Svo þarf að æfa það að borða á ferðinni og finna út hvað hentar og hvað ekki. Ég t.d. tek ekki inn neina orku í hlaupum sem taka minna en 3 klst og þá er ég að kenna líkamanum og skipta á milli því að eyða fitu og kolvetnum.
Svo mæli ég alltaf með því að vera með þjálfara til að hjálpa sér því það er mjög létt að fara fram úr sér og þá fer maður að meiðast og þá fer allt í vaskinn.

Maður er alltaf að dansa á mjög þunnri línu og það má ekki mikið út af bregða. Ég er með 2 frábæra þjálfara sem heita Þorbergur Ingi (Tobbi) og Eva konan hans.
Einnig borgar sig að eiga góðan maka sem skilur hvað það er sem maður þarf að leggja á sig til að ná árangri og fær fullan stuðning frá.

Hvað er það lengsta sem þú hefur hlaupið og hvar var það?
Lengsta sem ég hef hlaupið var America to Europe Ultra sem var 55 km um Reykjanesið 10 dögum eftir 46 km Esju Marathon.

Hvenær byrjaðir þú að hlaupa og hvernig æxlaðist það að þú fórst að hlaupa?
Ég byrjaði að hlaupa í Ágúst 2018, skokkaði þá 3 km og var gjörsamlega sigraður. Þá kom keppnisskapið upp í mér og 3 km urðu 5 km og 5 km að 7 km og svo eru þessir 3 km komnir í 100+ km.

Æfir þú annað með hlaupum?
Ég er með tvær styrktaræfingar í viku sem er blanda af lyftingum og mobility æfingum. Ég hjóla líka svolítið og fer í fjallgöngur, þegar ég fer í styttri fjallgöngur þá tek ég oftast annað ef ekki bæði börnin með sem og í hjólatúra um eyjuna.

Hvað er mikilvægast í hlaupunum?
Það sem mér finnst mikilvægast er að hafa æfingarnar fjölbreyttar og þær verða að vera skemmtilegar annars er enginn að fara að endast neitt í hlaupum eða annarri hreyfingu ef út í það er farið.

Skórnir skipta svakalega miklu máli. Þetta er ekki alveg eins einfalt og oft er sagt „að fara bara út að hlaupa“. Maður verður að vera í góðum skóm og skipta þeim út þegar þeir eru búnir.

Hvað áttu best í 10 km?
Ég hef bara keppt í tveimur götuhlaupum. Annað var gamlárshlaup ÍR 2018 var þá 52 mín með 10 km og svo Iceland Running Festival í byrjun júní 2019 og var þá um 47 mín með 10 km. Mér finnst hrikalega óspennandi að hlaupa götuhlaup og geri það helst ekki en ég á best óskráð 40:21 í 10 km.

Ertu að spá mikið í mataræðið og svefn?
Já og nei varðandi mataræðið ég hef prófað ýmislegt en ég í rauninni passa það en leyfi mér helling. Allt snýst þetta um að næra skrokkinn og ég passa að ég fái allt þetta helsta. Borða mikið af ávöxtum og eggjum og borða bara það sem fær mig til að líða vel.

Með svefnin þá passa ég upp á hann, ég er alltaf farinn upp í rúm milli 21:30-22:00 á virkum dögum og um 23 um helgar. Mér finnst mikilvægt að ég fái alltaf amk 7-9 klst svefn.

Ertu með eitthvað drauma hlaup?
Ég er með nokkur draumahlaup en bara eitt á Íslandi. Það er Súlur Vertical og er 55 km með 3000m hækkun og er á Akureyri alltaf um Verslunarmannahelgina, sem er mjög mikið vesen fyrir mann sem er giftur konu sem dýrkar Þjóðhátíð.

Ég er svo með nokkur hlaup erlendis t.d Transvulcania sem er á Kanarí og er 128 km með 6400m hækkun CCC (100 km með 6100m) og TDS (120 km með 7200m) sem eru systra hlaup. UTMB sem er drauma hlaupið mitt 170 km með 10400m, það er hringur í kringum Mont-Blank Fjallgarðin. CCC og TDS eru undir hlaup frá UTMB hlaupinu. Þetta er svona sem er á framtíðarplaninu. Ég er að safna punktum til að mega sækja um þessi hlaup. Ég er kominn með punkta fyrir þrjú af þessum fimm hlaupum þannig að vonandi get ég tekið eitthvað af þessu á næstu árum.

Hvað áttu marga hlaupaskó á þessari stundu?
Ég á 6 pör af skóm sem ég nota til skiptis, 5 utanvega og 1 götu fyrir utan þá mörgu sem hafa bókstaflega klárast. Maður finnur það um leið þegar sólinn klárast og því mikilvægt að fylgjast vel með og skipta út reglulega.

 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search