Hildur þakkaði keppinautum sínum, manninum sínum og síðan syni og mömmu sem hún sagðist ekki vita hvar sætu í salnum.
Það var ýmislegt sem benti til að þetta yrði niðurstaðan því í fyrsta skipti var stjórnandi hljómsveitarinnar sem lék undir kona og það voru bara konur sem afhentu verðlaunin. Þær áttu það reyndar allar sameiginlegt að hafa leikið þekktar hetjur í kvikmyndasögunni; Brie Larson er Captain Marvel, Gal Gadot Ofurkonan og Sigurney Weaver lék auðvitað Ripley í Alien-myndunum.
#Oscars Moment: Hildur Guðnadóttir (@hildurness) wins Best Original Score for @jokermovie. pic.twitter.com/uwrOuBszuD
— The Academy (@TheAcademy) February 10, 2020

Hildur Guðnadóttir braut í nótt blað í sögu íslenskrar kvikmyndagerðar þegar hún varð fyrsti Íslendingurinn til að hljóta hin eftirsóttu Óskarsverðlaun. Þetta var hápunkturinn á lygilegri sigurgöngu Hildar en frá því í september hefur hún unnið Emmy, Golden Globe, Grammy, Bafta og nú Óskarinn.
Allir helstu spekingar höfðu spáð Hildi sigri en tónlist hennar leikur stórt hlutverk í kvikmyndinni Joker.
Bæði Todd Phillips, leikstjóri myndarinnar og aðalleikarinn Joaquin Phoenix hafa talað um það hversu mikilvæg tónlist Hildar var þegar sýna átti hvernig brjálæðið yfirtekur aðalpersónuna Arthur Fleck og breytir honum í Jókerinn. Hildur samdi stóran hluta hennar áður en myndin fór í tökur sem þykir einstakt.
Sigurganga Hildar hófst í september þegar hún hlaut Emmy-verðlaunin fyrir tónlistina við sjónvarpsþættina Chernobyl. Síðan hlaut hún Golden Globe-verðlaunin fyrir Jóker og svo Grammy fyrir Chernobyl. Hún stóð síðan uppi sem sigurvegari á bresku Bafta-verðlaununum sem gaf til kynna að þetta yrði niðurstaðan.
Hildur er fyrsta konan til að vinna þessi verðlaun í 22 ár, sú síðasta sem gerði það var Anne Dudley fyrir Full Monty. Keppinautar hennar voru allt miklir reynsluboltar, Randy Newman hefur unnið tvenn Óskarsverðlaun eins og Alexander Desplat. Þá hefur John Wiliams verið tilnefndur til 52 Óskarsverðlauna og hlotið þau fimm sinnum. Helsti keppinautur Hildar var hins vegar Thomas Newman sem hefur fimmtán sinnum verið tilnefndur til verðlaunanna en aldrei unnið.
Hildur er jafnframt fyrsti Íslendingurinn til að hljóta þessi eftirsóttu verðlaun. Friðrik Þór Friðriksson, Björk Guðmundsdóttir og Sjón, Rúnar Rúnarsson og Þórir Snær Sigurjónsson og Jóhann Jóhannsson hafa öll verið tilnefnd en farið tómhent heim.
