Þriðjudagur 23. júlí 2024
Lögreglan

Helstu verkefni lögreglu á undanförnum vikum

17.04.2020

Á facebooksíðu Lögreglunnar í Vestmannaeyjum er greint frá þessu:

Lögreglan hefur haft í ýmsu að snúast á undanförnum vikum og tengjast helstu verkefni því almannavarnarástandi sem er á heimsvísu og snýr að COVID-19 faraldrinum.

Verkefni lögreglu hafa meðal annars verið að aðstoða smitrakningateymi sóttvarnalæknis og almannavarna við að rekja smitleiðir og setja fólk í sóttkví sem hefur verið í návígi við smitaða einstaklinga.

Þá hafa verkefni lögreglu jafnframt snúist að því að fylgjast með að samkomubann sem sett var á með auglýsingu heilbrigðisráðherra þann 23. mars sl. sé haldið, m.a. með því að fara í verslanir, á íþróttavelli og aðra staði þar sem fólk safnast saman. Rétt er að taka það fram að ef grunur er um brot á samkomubanni, brot á sóttkví eða einangrun skal tilkynna það til lögreglu.

Lögreglan hefur jafnframt verið að sinna öðrum málum sem komið hafa upp, er þar helst til að nefna umferðaróhöpp, umferðarlagabrot, líkamsárásir og heimilisófrið.

Af ofangreindu má nefna að þann 17. mars sl. var lögreglu tilkynnt um umferðaróhapp á Strandvegi þar sem ökumaður bifreiðar missti stjórn á bifreiðinni þannig að hún lenti utan vega og hafnaði á ljósastaur. Ökumaðurinn og farþegi í bifreiðinni voru handteknir skammt frá vettvangi og voru vistaðir í fangageymslu sökum ölvunar. Við rannsókn málsins kom í ljós að bifreiðin hafði verið tekin ófrjálsri hendi. Málið er í rannsókn.

Þann 25. mars sl. var lögreglu tilkynnt um hóp manna sem voru að slást í bakgarði við Vesturveg. Einn aðili var handtekinn og vistaður í fangageymslu og var skýrsla tekin af honum þegar víman var runnin af honum. Málið er í rannsókn.

Aðfaranótt 7. apríl sl. var lögreglu tilkynnt um innbrot og eignaspjöll á veitingahúsinu Canton v/Strandveg. Eigandi staðarins stóð innbrotsþjófinn að verki en honum tókst að komast undan. Þeir sem einhverjar upplýsingar hafa um atvikið eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu.

Tvö vinnuslys hafa verið tilkynnt til lögreglu á undanförnum vikum og áttu bæði sér stað um borð í skipum. Í fyrra tilvikinu slasaðist skipverji um borð í Otto N Þorláksson VE-5 þar sem skipið var að veiðum 20. mars sl. Mun skipverjinn hafa fengið krók í aðra höndina með þeim afleiðingum að hann handleggsbrotnaði. Skipverjinn var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar.

Í hinu tilvikinu slasaðist skipverji um borð í Blæng NK-125 þegar hann lenti undir trollpoka þar sem skipið var að veiðum á Selvogsbanka þann 4. apríl sl. Ekki var um alvarlegt slys að ræða og var skipverjinn fluttur á sjúkrahús.

Þann 11. apríl sl. var lögreglu tilkynnt um umferðarslys á Friðarhafnarbryggju á móts við N1 en þarna hafði bifreið sem ekið var áleiðis suður Friðarhafnarbryggju verið beygt til vinstri áleiðis austur bryggjuna í hóp unglingsstúlkna. Lenti bifreiðin á einni stúlkunni með þeim afleiðingum að hún kastaðist í götuna. Slasaða leitaði til læknis vegna áverka sem hún fékk. Tildrög slyssins virðast vera þau að ökumaðurinn, ungur að árum, ætlaði að stríða þeim sem þarna voru á gangi með áður nefndum afleiðingum. Málið er í rannsókn.

Lögreglan vill minna ökumenn á að akstur er ekki leikur, heldur dauðans alvara. Sá sem stjórnar ökutæki ber alla ábyrgð á þeim sem eru með honum í bifreiðinni og því tjóni sem bifreiðin veldur öðrum. Lögregla brýnir fyrir ökumönnum að fara varlega til að forða slysum.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search