Helga Þórisdóttir forsetaframbjóðandi

Helga Þórisdóttir hefur boðið sig fram til embættis forseta Íslands. Þrátt fyrir að hafa starfað sem forstjóri Persónuverndar í rúm 8 ár og hafa farið í mörg hundruð viðtöl við fjölmiðla, þá er Helga ekki landsþekkt, nema kannski fyrir það starf, og því tilvalið að fá að setjast niður með henni og kynnast henni betur.

Helga Þórisdóttir er fædd 15. júlí 1968 og er gift Theodóri Jóhannssyni (Tedda) og eiga þau þrjú börn. Helga er lögfræðingur að mennt og hefur starfað við það í 29 ár. Helga gekk í Langholtsskóla og var ung send í sveit, í Hörgárdal í Eyjafjarðarsýslu og einnig til útlanda, til að læra tungumál, bæði til Skotlands og Danmerkur. Helga fór svo í Menntaskólann við Sund og lauk þaðan stúdentsprófi. Hún var heilt sumar “au-pair” í La Baule, í Frakklandi og lagði síðan stund á diplómanám í frönsku og frönskum bókmenntum í Université Paul Valery í Montpellier í Frakklandi. Helga er lögfræðingur frá Háskóla Íslands, auk þess að hafa réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi. Helga lauk síðan AMP frá IESE í Barcelona. Á starfsferlinum hefur hún starfað hjá embætti ríkissaksóknara, á nefndasviði Alþingis, hjá EFTA í Brussel – í deild sem fjallaði um viðskipti á Evrópska efnahagssvæðinu, hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Lyfjastofnun og nú síðast hjá Persónuvernd.

Helga hefur undanfarið ár einnig verið formaður félags forstöðumanna ríkisstofnana.

Helga Þórisdóttir ásamt fjölskyldunni. Ljósmynd/Íris

Fjölskyldan

Ég er yngsta dóttir Þóris Helgasonar og Auðar Jónsdóttur og á tvær systur, Önnu Sesselju og Hildu Klöru sem eru 10 og 12 árum eldri en ég. Svo ég er örverpið. Pabbi var sérfræðingur í lyflækningum, prófdómari og kennari við Læknadeild Háskóla Íslands og stofnaði göngudeild sykursjúkra á Landspítalanum. Mamma fagnar 91 ári í lok þessa mánaðar. Hún er mjög dugleg og syndir alla virka morgna í Laugardalslaug. Hún var ein af fyrstu flugfreyjum landsins hjá Flugfélagi Íslands og síðar læknaritari. Systur mínar eru báðar læknar – og önnur þeirra gift lækni frá Vestmannaeyjum.

Teddi, maðurinn minn er sjúkraþjálfari og hann er einn af eigendum Sjúkraþjálfunar Reykjavíkur og Garðabæjar. Hann hefur starfað sem sjúkraþjálfari í tæp 30 ár. Saman eigum við þrjú börn. Auður Katarína er 25 ára, hugbúnaðarverkfræðingur og býr í Gautaborg þar sem hún starfar hjá Boeing. Kolbeinn er 23 ára og er á þriðja ári í læknisfræði við Háskóla Íslands. Loks er það Lilja Dórótea sem er 12 ára og nemi í Fossvogsskóla.

Hverjir eru helstu kostir þínir og gallar? 

Ég er heiðarleg, traust, opin og glaðlynd – og að sama skapi óhrædd við að taka erfiðar ákvarðanir. Teddi segir að ég setji mig stundum of mikið í spor annarra og geri kannski stundum of miklar kröfur til mín. En ég held að allir gallar geti líka verið kostir manns.

Einhver sturluð staðreynd?

Þegar ég var barn þá var ég stundum send í hvítum fötum í leikskólann og ég kom heim í þeim jafn hvítum. Ég var ótrúlega stillt og prúð en mamma segir að ég hafi samt alltaf haft munninn fyrir neðan nefið og hef þannig svarað fyrir mig, ef á þarf að halda, alla tíð.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Spaghetti Bolognese. Málið er að mamma var mjög góður kokkur og ég er alin upp við virkilega góða matseld. Pabbi eldaði hins vegar alltaf á laugardögum – Spaghetti Bolognese og lét kjötsósuna malla í marga klukkutíma og stóð yfir henni allan tímann – sem aftur kallaði á mikla og góða samveru fjölskyldunnar í eldhúsinu. Alla tíð síðan ég stofnaði fjölskyldu, þá höfum við haft sama rétt á borðum á hverjum einasta laugardegi – enginn annar matur kemur til greina á þeim degi.

Hunda eða kattarmaneskja?

Ég elska öll dýr en ég verð að segja hundar. Það hefur verið hundur á heimilinu okkar í 17 ár. Í dag eigum við dalmatíuhundinn Sesar, sem er þriggja ára. Við fengum hann til okkar þegar hann var eins árs því hann gat ekki verið áfram á sínu fyrsta heimili. Hann er mjög orkumikill og ansi mikill prakkari en algjör sjarmör og hann fær mikla ást á heimilinu.

Hvaða hreyfingu stundar þú?

Ég elska að vera úti við og í dag stunda ég aðallega göngu og fer stundum á fjöll. Sesar þarf sína hreyfingu á hverjum degi og við hjónin förum alltaf í um klukkustundargöngu með hann og þá getum við líka farið yfir hvernig dagurinn okkar var og þess háttar. Þegar ég var yngri þá var ég í fimleikum og svo sundi en fór loks í badminton þar sem ég fann mig algjörlega. Ég komst í unglingalandsliðið og er margfaldur Íslandsmeistari í tvíliðaleik í yngri flokkum. Okkur hjónunum finnst líka mjög gaman að dansa.

Hefurðu komið til Vestmannaeyja?

Heldur betur. Ég hef komið á mörg fótboltamótin með börnunum mínum. Þvílík fegurð í Eyjum og þvílík gæði á flottum veitingastöðum. Hlakka til að heimsækja fögru eyjuna fljótlega. 

Hver er ástríðan þín og eldmóður – hvað drífur þig áfram? 

Í grunninn brenn ég fyrir að skila góðu dagsverki á hverjum degi.

Ertu sparsöm eða eyðslukló?

Fyrstu rúm 20 ár lífs míns átti ég aldrei pening, var alltaf send eitthvert til að læra tungumál eða í sveit. Í dag myndi ég segja að ég væri þokkalega sparsöm en mér finnst alveg gaman að versla fallega hluti. Ég hef mikinn áhuga á nýtingu verðmæta og hef undanfarin ár tekið virkan þátt í að selja og kaupa notaðar vörur bæði föt og innbú á hinum ýmsu mörkuðum.

Hverju ertu stoltust af varðandi vinnuferilinn?

Ég er stoltust af því að hafa undanfarin ár staðið vörð um persónuvernd einstaklinga á Íslandi.

Af hverju á fólk að kjósa þig?

Sem forseti Íslands vil ég fyrst og fremst vera þjónn fólksins. Ég vil tala fyrir verndun íslenskrar tungu, góðri menntun og fyrir bættum hag aldraðra. Ég hef sérþekkingu á réttindum og öryggi einstaklinga á tækniöld, sem aldrei hefur verið mikilvægari en nú. Festa, fagmennska og heiðarleiki eru mín einkunnarorð. Ég hef dug og þor til að stíga í fæturnar fyrir íslenska þjóð ef á þarf að halda.

Getur þú lýst þér í þremur orðum? Ákveðin, dugleg – en líka stuðbolti .

Uppáhalds tónlist?

Allur góður taktur fær mig til að dilla mér 

Uppáhalds sjónvarpsefni 

Breskir sakamálaþættir og norrænir – ekki neitt til betra en það.

Bíó eða leikhús? 

Bæði – alæta á menninguna.

Helsta áhugamál? 

Ganga, lestur, finna gömul verðmæti á mörkuðum, hönnun og tíska.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search