26.10.2020
Haustið okkar á Kirkjugerði fer vel af stað, þrátt fyrir Covid sem ætlar eitthvað enn að stríða okkur. En við látum það ekki ræna okkur gleðinni og höldum ótrauð áfram í leik og starfi.
Aðlögun minnstu krílanna okkar gekk vel, henni lauk í síðustu viku og una litlu krílin okkar vel við leik og störf. Það er mikill áfangi í lífi sérhvers barns að byrja á leikskóla og er fátt dásamlegra en að fylgjast með krílunum okkar taka fyrstu skrefin í hinum stóra heimi sem leikskólinn er. Sum þeirra eru enn svo ung að þau eru ekki einu sinni farin að labba en þau láta það nú ekki á sig fá heldur halda ótrauð áfram og gefa stóru börnunum okkar ekkert eftir.
Eldri börnin okkar eru einnig afar dugleg í sínu og er hópastarf komið af stað á öllum deildum. Það er yndislegt að fylgjast með duglegu börnunum okkar takast á við verkefni hvers dags af gleði, áræðni og áhuga. Frjálsi leikurinn fær mikið og gott pláss hjá okkur á Kirkjugerði enda er það marg sannað að í gegnum leikinn læra börnin best. Einnig erum við að vinna mikið með Lubbi finnur málbein, Floorbooks og hreyfingu.
Útivera er í miklu uppáhaldi hjá öllum börnum og höfum við verið einstaklega heppin með fallegt haustveður sem hefur verið vel nýtt til útiveru. Reyndar er það svo að börnin okkar una sér einstaklega vel úti og skiptir það þau í rauninni litlu máli hvernig veðrið er, það er fátt skemmtilegra en hressandi útivera í rigningu, hoppa í pollum, drullumalla og búa til drullukökur í bakaríið í sandkassanum.
Covid hefur reynt vel á í haust en það er aðdáunarvert að fylgjast með foreldrum, kennurum og börnum takast á við breytta sviðsmynd, eins og ráðamenn okkar og konur segja. Gleðin er alls ráðandi og svo greinilegt að við ætlum ekki að láta Covid stjórna ferðinni heldur fær gleðin að stjórna og stýra okkur í þá átt sem við helst kjósum-Við kjósum alltaf hamingju, bros, vináttu, samkennd og hlátur
Kærleikskveðjur frá okkur á Kirkjugerði
Frétt frá vef Vestmannaeyjabæjar.