Þriðjudagur 16. júlí 2024

Hátt hlutfall með eigin aðgang að samfélagsmiðlum þrátt fyrir aldurstakmark

Ný skýrsla um tækjaeign og virkni á samfélagsmiðlum meðal barna og ungmenna á aldrinum 9-18 ára

Hlutfall barna á aldrinum 9-12 ára sem nota samfélagsmiðlana TikTok og Snapchat lækkar töluvert frá árinu 2021. Þá voru um 60% barna sem sögðust nota miðlana en það hlutfall er nú 36% fyrir TikTok og 41,5% fyrir Snapchat. Fleiri stúlkur en strákar nota miðlana í þessum aldurshópi. Vert er að taka fram að 13 ára aldurstakmark er á bæði TikTok og Snapchat.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um tækjaeign og virkni á samfélagsmiðlum meðal grunn- og framhaldsskólanema á aldrinum 9-18 ára. Skýrslan er fyrsti hluti af sex og byggir á niðurstöðum könnunarinnar „Börn og netmiðlar“ sem Menntavísindastofnun framkvæmdi fyrir Fjölmiðlanefnd í 53 grunnskólum og 25 framhaldsskólum. Er þetta í annað sinn sem Fjölmiðlanefnd, í samstarfi við Menntavísindastofnun, birtir niðurstöður slíkrar umfangsmikillar könnunar. Fyrirhugað er að að gera sambærilega könnun á tveggja til þriggja ára fresti til að kanna miðlanotkun og færni barna og ungmenna þannig að hægt verði að bera saman niðurstöðurnar og hvernig notkun þróast.

Fleiri strákar eiga sína eigin leikjatölvu og sitt eigið sjónvarp heldur en stelpur

Hlutfall stráka og stelpna sem eiga sinn eigin farsíma er nokkuð jafnt. Mestur munur á snjalltækjaeign stráka og stelpna er eign á leikjatölvum. Rúmlega helmingi fleiri strákar en stelpur segjast eiga sína eigin leikjatölvu. Þá er einnig hærra hlutfall stráka sem segjast eiga sitt eigið sjónvarp. Meðal grunnskólanema eru strákar líklegri til að eiga sína eigin tölvu/fartölvu. Spjaldtölvueign er hins vegar örlítið algengari meðal stelpna en stráka. Snjallúr (sem hægt er að hringja með) er álíka algeng eign meðal stráka og stelpna.

Hátt hlutfall með eigin aðgang að samfélagsmiðlum þrátt fyrir aldurstakmark

Youtube er algengasti samfélagsmiðillinn sem nemendur á aldrinum 4.-7. bekk nota. Google og Roblox koma þar á eftir. Snapchat, Youtube og TikTok eru þeir miðlar sem flestir nemendur í 8.-10. bekk segjast nota. Heldur færri í þeim aldurshópi nota Roblox en í yngsta hópnum. Á framhaldsskólastigi eru Instagram, Snapchat og TikTok þeir miðlar sem flestir nemendur nefna. Youtube er sá netmiðill sem lendir í fjórða sæti. Meðal yngsta aldurshópsins (4.-7. bekk) er hátt hlutfall notenda Facebook, Instagram, Snapchat, TikTok og Youtube með sinn eigin aðgang á miðlunum þrátt fyrir að aldurstakmörk þeirra séu 13 ára. Í þessum unga aldurshópi eru hlutfallslega fæstir með eigin aðgang að Youtube af uppgefnum samfélagsmiðlum. Meðal eldri hópanna eru nánast allir sem nota netmiðlana með eigin aðgang, en Youtube sker sig þó úr, þar sem hlutfallslega færri hafa eigin aðgang að þeim miðli. Ekki er að sjá mikinn mun á hlutfalli stráka og stelpna sem hafa eigin aðgang að þeim netmiðlum sem þau nota, fyrir utan meðal Youtube notenda. Í 8.-10. bekk segjast 20% fleiri strákar en stelpur með eigin aðgang að Youtube. Strákar sem nota samfélagsmiðla eru mun líklegri en stelpur til að vera með opinn aðgang sem allir geta séð. Mestur er munurinn meðal þátttakenda í 4.-7. bekk á TikTok þar sem 70% stráka sem eru með TikTok segjast vera með opinn aðgang. Með hækkandi aldri dregur úr hlutfalli stráka með opinn aðgang á TikTok en hlutfall stelpna eykst.

Meirihluti þátttakenda telur sig eyða miklum tíma á samfélagsmiðlum

Langflestir þátttakendur á unglinga- og framhaldsskólastigi segjast sammála því að hafa mikið samband við vini sína á samfélagsmiðlum. Einnig telur meirihluti þátttakenda að þeir eyði miklum tíma á samfélagsmiðlum. Innan við þriðjungur þátttakenda er sammála því að þeir deili því sem þeim þyki mikilvægt eða hitti fólk með sameiginleg áhugamál og þau á samfélagsmiðlum. Um fjórðungur þátttakenda á unglingastigi (24%) hefur séð eftir því sem þeir hafa deilt á samfélagsmiðlum en hlutfallið meðal framhaldsskólanema er nokkuð hærra eða 42%. Heilt yfir eru stelpur á báðum skólastigum líklegri til að vera sammála öllum ofangreindum fullyrðingum. Hlutfallslegur munur er 5-13% fleiri stelpur sem samþykkja fullyrðingarnar fyrir utan þá sem snýr að því að hitta hóp fólks á samfélagsmiðlum með sömu áhugamál og þær. Strákar eru líklegri til að samþykkja þá fullyrðingu (8-10%).

Stelpur líklegri en strákar til að deila eigin myndefni á netinu

Spurt er út í tíðni þess að nota netið eða deila myndum/myndböndum á netinu. Það sem þátttakendur eru ólíklegastir til að gera er að deila myndum eða myndböndum í opnum aðgangi á netinu. Nærri helmingur svarenda gerir það aldrei eða segjast ekki vita hversu oft þeir geri það. Flestir á unglinga- og framhaldsskólastigi nota netið daglega við skólavinnu eða nám. Í 4.-7. bekk er hlutfallið nokkuð lægra eða 14%. Um þriðjungur framhaldsskólanema deila myndböndum eða senda þau, deila myndum/myndböndum sem sýna andlit viðkomandi eða deila myndum/myndböndum í lokuðum hópum. Stelpur eru aðeins líklegri en strákar til að vera virkar í þeim aðgerðum á netinu sem spurt var um að undanskyldum þeim fámenna hópi sem segist deila daglega myndum/myndböndum í opnum aðgangi á samfélagsmiðlum.

Helmingur skoðar vikulega eða oftar hluti sem hægt er að kaupa á netinu

Algengt er á öllum skólastigunum þremur að setja „læk“ eða hjarta við færslur á samfélagsmiðlum auk þess að leita upplýsinga með leitarvélum eins og Google. Að setja komment við færslur á samfélagsmiðlum vikulega eða oftar er algengast meðal nemenda á unglingastigi. Minna en fjórðungur þátttakenda í 6. bekk og eldri eru daglega eða vikulega í hópum á samfélagsmiðlum með fólki sem eru með sömu áhugamál og þau. Langflestir í 6. bekk og eldri kaupa sjaldnar en mánaðarlega eða aldrei neitt á netinu. Tæpur helmingur nemenda á unglinga- og framhaldsskólastigi segist skoða hluti sem hægt er að kaupa á netinu vikulega eða oftar. Ekki er umtalsverður munur milli stráka og stelpna hvað varðar að leita upplýsinga með leitarvélum eins og Google daglega eða setja inn komment á samfélagsmiðlum. Hins vegar eru aðeins fleiri stelpur en strákar sem setja „læk“ eða hjarta daglega við færslur annarra á samfélagsmiðlum. Í 6. bekk og eldri er algengara meðal stráka en stelpna að vera daglega í áhugamannahópum á netinu. Sárafáir strákar og stelpur kaupa hluti daglega á netinu eða um 1%. Svipað hlutfall stráka og stelpna á unglingastigi (15%) skoða hluti sem þau geta keypt á netinu daglega en á framhaldsskólastigi er hlutfall stráka (15%) hærra en stelpna (10%).

Yngri nemendur fylgjast mest með tölvuleikjum en þeir eldri með tónlist og tísku

Allir þátttakendur voru spurðir ýmissa spurninga sem tengjast áhrifavöldum, YouTube-stjörnum og bloggurum sem þau mögulega fylgja eða skoða á netinu. Að fylgjast með tölvuleikjum og fólki að spila þá er vinsælast meðal yngri aldurshópanna tveggja og þar á eftir kemur að fylgjast með íþróttum. Hins vegar er vinsælast meðal þátttakenda á framhaldsskólastigi að fylgjast með tónlist á netinu. Tíska, föt og förðun kemur svo þar á eftir. Mikill munur er á milli kynja á öllum skólastigum hvað varðar það að fylgjast með spilun tölvuleikja og íþróttum. Verulegur munur er einnig milli stráka og stelpna hvað varðar tísku, föt og förðun en þar er hlutfall stelpna hærra.

Fjórðungur framhaldsskólanema hefur notað ChatGPT til að leysa skólaverkefni

Spurt var út í þekkingu og notkun á snjallmenninu ChatGPT. Athygli vekur að mun fleiri strákar en stelpur þekkja til ChatGPT en munurinn minnkar með hækkandi aldri. Meðal nemenda á unglingastigi er 38% munur á strákum og stelpum sem þekkja til snjallmennisins, þ.e. um sjö af tíu strákum þekkja til ChatGPT samanborið við þrjár af hverjum tíu stelpum. Sama hlutfall stráka og stelpna (19%) sem þekkja til snjallmennisins segjast hafa notað það til að leysa verkefni fyrir skólann. Í framhaldsskóla þekkja 90% stráka til snjallmennisins en tæpur helmingur þeirra (46%) segist hafa notað það til að leysa skólaverkefni. Sjö af hverjum tíu stelpum (69%) þekkja ChatGPT og 40% þeirra segjast hafa notað það til að leysa skólaverkefni.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search