Blaðamaður Tíguls heyrði í þjálfurum meistaraflokkanna í handknattleik fyrir komandi tímabil. Magnús Stefánsson þjálfari Meistaraflokks karla í handknattleiks tók við af Erlingi Richardssyni eftir síðasta tímabil en Magnús var aðstoðaþjálfari á síðastu leiktíð. Sigurður Bragason þjálfari Meistaraflokks kvenna tók við þeim árið 2020 en var áður aðstoðarþjálfari 2019 þegar að Hrafnhildur Skúladóttir var með liðið. Sigga Braga til halds og traust er Hilmar ágúst Björnsson sem hefur verið með Sigga síðan hann tók við sem aðalþjálfari. Kvennalið ÍBV vann öruggan sigur á KA/Þór í heimsókn í KA-heimilið í upphafsleik Olísdeildar kvenna í gær, 29:20, eftir að hafa verið sex mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 15:9. Einnig átti karlaliðið leik í gær sem var gegn Stjörnunni í Garðabænum. Niðurstaðan var níu marka sigur, 33:24. Stjarnan var marki yfir í hálfleik, 14:13.
Magnús Stefánsson:
Magnús Stefánsson, þjálfari
Hvernig leggst komandi tímabil í þig?
Komandi tímabil leggst vel í okkur, það er mikil tilhlökkun í drengjunum og þeir hafa æft vel í sumar og það sem af er hausti.
Eru miklar breytingar á hópnum og hverjar þá?
Það er óhætt að segja að það séu talsverðar breytingar á liðinu en þeir Róbert, Rúnar og Janus hafa róið á önnur mið og því talsverður missir af þeim bæði í vörn og sókn. Við fengum til liðs við okkur ungan dreng frá Portúgal, Daniel Vieira sem leikur í stöðu hægri skyttu. Hann á eftir að aðlagast liðinu og deildinni en hann kemur til með að styrkja liðið. Svo erum við ríkir af ungum og mjög efnilegum leikmönnum sem eru farnir að banka á dyrnar hjá okkur en það eru drengir sem komið hafa upp í gegnum öflugt yngri flokka starf hjá okkur, svo það er óhætt að segja að framtíðin sé björt hvað það varðar.
Hvernig er staðan á hópnum, eru allir heilir?
Staðan á leikmanna hópnum er góð, við erum með góða blöndu af eldri og yngri leikmönnum og það er mjög heilbrigð samkeppni um stöður í liðinu.
Reiknaru með að styrkja hópinn enn frekar?
Við erum gríðarlega ánægðir með hópinn eins og hann er í dag og sjáum ekki fram á að bæta fleiri leikmönnum við enda er það óskrifuð stefna hjá okkur að reyna að koma eins mikið af okkar ungu og efnilegu leikmönnum á legg, því viljum við skilja eftir smá svigrúm fyrir þá að athafna sig í.
Við finnum fyrir miklum meðbyr í bænum okkar og miklum áhuga fyrir liðinu sem gefur drengjunum mikinn drifkraft í að standa sig. Eins eru mjög margir sjálfboðaliðar að leggja hönd á plóg við hin ýmsu verkefni sem tengjast liðinu, leikjunum eða umgjörðinni í heild sinni, það eitt og sér er mikil vítamínsprauta inn í hópinn og hvetur drengina til að standa sig eins vel og þeir geta því við vitum það vel að það er ekki sjálfsagt að hafa alla þessa sjálfboðaliða að sinna þessu gríðarlega óeigingjarna starfi sem þeir gera frábærlega. Við viljum koma á framfæri sérstökum þökkum til sjálfboðaliða okkar, þeir eiga hvað stærstan þátt í velgengni ÍBV í handbolta síðastliðin rúman áratug, án þeirra værum við ekki neitt.
Sjáumst á vellinum gott fólk, áfram ÍBV.

Sigurður Bragason:

Hvernig leggst komandi tímabil í þig?
Við erum öll bara mjög spennt. Við áttum frábært tímabil í fyrra, í raun það besta í kvennaboltanum hér í einhver 15-20 ár. Þannig að við viljum reyna að halda okkur þarna í toppnum og spila fleiri stóra leiki.
Eru miklar breytingar á hópnum og hverjar þá?
Já það eru eru 6 stelpur sem áttu leiki í fyrra sem verða ekki með. Þar munar mest um Hörpu Valey sem flutti á Selfoss, hún hefur verið í stóru hlutverki hjá okkur síðustu 4 tímabil. Þá er Ásta Björt ófrísk og fær þar að leiðandi frí. Við misstum 3 unga markverði sem voru í hóp í fyrra. Þá flutti Ólöf María í borgina, en hún fær pottþétt ógeð þar um áramót og kemur aftur.
Nýjir leikmenn eru Britney Cox skytta sem kom frá Stjörnunni, Ásdís Guðmundsdóttir línumaður frá Akureyri (hún lék í Svíþjóð í fyrra), Edda Bognar markmaður frá ungverjalandi, Margrét Castillo skytta kemur frá Gróttu og svo Dagbjört Ólafsdóttir hornamaður úr ÍR.
Hvernig er staðan á hópnum, eru allar heilar?
Staðan er mjög góð, Hanna fór í nokkuð stóra aðgerð á hné og hásinum í sumar. Það er enn nokkuð í land með hana. Þá fór Sunna í aðgerð á olnboga í sumar og er að byrja á fullu. Annars eru allar nokkuð brattar
Reiknaru með að styrkja hópinn enn frekar?
Nei, við förum inn í veturinn með hópinn svona. Það verður að viðurkennast að ég er nokkuð hræddur við markmannsstöðuna. Þar eru bara 2 stelpur og það má lítið gerast svo við lendum ekki í vondum málum. Það opnar aftur félagaskiptagluggi um jólin, ef við lendum í vandræðum þá bætum við við þá.