Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi

Halla Tómasdóttir gefur kost á sér til embættis forseta Íslands.  Kosið verður til þann 1. júní 2024 og þegar þetta er ritað hafa 69 manns gert slíkt hið sama. 

Halla Tómasdóttir, fædd 1969, er alin upp á Kársnesi í Kópavogi og á ættir að rekja til Skagafjarðar og Vestfjarða. Hún er frumkvöðull og rekstrarhagfræðingur með meistaragráðu og hóf starfsferil sinn í Bandaríkjunum hjá fyrirtækjunum Mars og Pepsi Cola. Halla kom að uppbyggingu Háskólans í Reykjavík þar sem hún stofnaði og leiddi meðal annars Opna háskólann og verkefnið Auður í krafti kvenna.

Halla hefur ávallt haft brennandi áhuga á forystu og frumkvöðlastarfsemi og hefur kennt þúsundum nemenda á öllum aldri. Hún varð fyrst kvenna framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs vorið 2006. Ári síðar stofnaði Halla ásamt Kristínu Pétursdóttur fjármálafyrirtækið Auður Capital. Fyrirtækið lagði áherslu á ábyrgar fjárfestingar og að skila hagnaði á grunni góðra gilda. Auður Capital og viðskiptavinir þess fóru tjónlaust gegnum efnahagshrunið árið 2008. Halla kom í kjölfarið að stofnun Mauraþúfunnar sem hélt Þjóðfund árið 2009 þar sem slembiúrtak þjóðarinnar vann að framtíðarsýn og gildum þjóðarinnar.

Halla hefur síðastliðin sex ár verið forstjóri B Team þar sem hún starfar á heimsvísu að sjálfbærni, jafnrétti og ábyrgð í forystu. B Team vinnur með fyrirtækjastjórnendum og stjórnmálaleiðtogum að bættu siðferði sem og réttlátum og gegnsæjum reglum fyrir efnahags- og viðskiptalíf. Halla er vinsæll alþjóðlegur fyrirlesari og hefur meðal annars stigið fjórum sinnum á TED-sviðið ásamt því að halda fyrirlestra fyrir stærstu fyrirtæki heims.

Fjölskyldan

Dóttir Skagfirðingsins Tómasar B. Þórhallssonar pípulagningameistara og Strandakonunnar Kristjönu Sigurðardóttur, þroskaþjálfa. Gift Grindvíkingnum Birni Skúlasyni og við eigum tvö börn, Tómas Bjart (22) og Auði Ínu (20). þau eru bæði í háskólanámi í New York. Tómas Bjartur stundar þar nám í viðskiptafræði og spilar fótbolta og Auður Ína nemur sálfræði.

Fjölskyldan á góðri stundu með uppáhaldi allra honum Mola sem kvaddi fjölskylduna nú í febrúar og hélt í sumarlandið.

 

Við hvað vinnur maðurinn þinn?

Eiginmaður minn er heilsukokkur og rekur eigið fyrirtæki, justbjorn.com, sem markaðssetur norrænar haftengdar heilsuvörur eins og collagen-fæðubótarefni sem búið er til úr fiskroði. Hann spilaði lengi fótbolta með Grindavík og KR og starfaði í tryggingageiranum og fjármálafyrirtækjum áður en hann gerðist frumkvöull. 

Hvað hefur þú starfað við?

Ég var í sveit öll sumur æskunnar og vann í fiski á Austfjörðum á unglingsárunum. Ég hef komið víða við í íslensku atvinnulífi og hef einnig víðtæka alþjóðlega starfsreynslu. Ég tók virkan þátt í uppbyggingu Háskólans í Reykjavík, stofnaði og leiddi verkefnið Auður í krafti kvenna og Stjórnendaskólann – sem heitir núna Opni háskólinn í HR – og kenndi nemendum á öllum aldri. Ég var annar stofnenda Auðar Capital, ein þeirra sem kom að undirbúningi Þjóðfundar árið 2009 og hélt alþjóðlega jafnréttisráðstefnu á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Síðastliðin sex ár hef ég starfað sem forstjóri B Team, en það eru alþjóðleg samtök leiðtoga í atvinnulífi og stjórnmálum, sem setja vellíðan fólks og umhverfis á oddinn. Vegna starfs míns hjá B Team hef ég verið með annan fótinn í New York undanfarin ár, en hef alltaf haldið sömuleiðis heimili á Íslandi og verið hér langdvölum.

Áttu tengingu við Vestmannaeyjar?

Systkini foreldra minna giftust góðu Eyjafólki og Eyjalögin hafa ávallt verið í hávegum höfð á mínu heimili. Svo býr æskuvinkona mín, Þjóðhildur Þórðardóttir, í Vestmannaeyjum og við eigum töluvert af góðum vinum úr Vestmannaeyjum. Þá má ekki gleyma fjölda fótboltamóta og leikja. Við Bjössi höfum svo ákveðna matarást á Sigurði Gísla og Berglindi Sigmars, sem reka veitingastaðinn Gott og svo borðuðum við einhverja bestu máltíð allra tíma á Slippnum.

Hefur þú komið á Þjóðhátíð?

Ég hef komið þrisvar á Þjóðhátíð og sjaldan skemmt mér betur. 

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Íslandi?

Ætli það sé ekki brekkan á Þjóðhátíð, þúsundir Íslendinga að syngja saman útí guðsgrænni náttúrunni, hvað toppar það?

Uppáhaldsstaður erlendis?

Mikla Gljúfur, fór í tveggja vikna ferð í gegnum það undur veraldar á gúmmíbátum og kayak og utan Íslands hef ég aldrei orðið jafn agndofa yfir stórbrotinni náttúru.

Hvar og hvenær líður þér best?

Hvar sem er í íslenskri náttúru, en líður einnig vel heima, helst í kringum matarborðið með fjölskyldu og góðum vinum.

Ertu til í að lýsa þér í þremur orðum?

Hugrökk, heiðarleg og hlý

Hvernig nærðu slökun?

Í íslenskum sundlaugum, hvar sem er í náttúrunni, við lestur bóka og í hugleiðslu.

Besti matur í heimi?

Allt sem Bjössi eldar og þá helst ef það er úr hafinu.

það sem heillar mig er….

Jákvæðni og gleði og fólk sem leggur sig fram um að gera gagn og láta gott af sér leiða.

Leikhús eða bíó? 

Leikhús

Uppáhaldstónlist?

Gamalt og gott, til dæmis vel flest sem sungið er í brekkunni á Þjóðhátíð. Ég hef sérstakt dálæti á íslenskum sönglögum og það er auðvelt að fá mig til að bresta í söng.

Hvaða þrjá hluti myndir þú taka með þér á eyðieyju?

Veiðistöng, hníf og eldspýtur

Ertu safnari?

Maðurinn minn myndi líklega segja það já, ég myndi frekar segja að ég sé nýtin.

Ertu A eða B týpa?

Var B, en er núna A týpa. Tek daginn snemma og finnst fátt betra en að fara tímanlega í rúmið.

Uppáhaldshlutur?

Mynd af mér með Mola mínum, hundinum okkar sem fór því miður í Sumarlandið nýlega.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search