Sunnudagur 25. febrúar 2024

Hálfnaður að ganga í kringum hnöttinn

Kári Bjarnason forstöðumaður Safnahúss Vestmannaeyja er fæddur árið 1960 og bjó lengstum í 101 Reykjavík

Hann ólst þó upp að hluta í Breiðholtinu og þegar hann var þrettán ára var hann sendur í Reykjanesskóla sem var heimavistarskóli við Ísafjarðardjúp. Hann var þar í þrjá vetur, var sendur þangað að eigin sögn sem venjulegur pörupiltur af mölinni.

Kári minnist þessa tíma með hlýhug. “Ég verð að segja að þetta var einn besti skóli ævinnar. Ég þurfi að rífa mig sjálfur upp af eigin mætti eins og Munchausen greifi forðum og naut jafnframt þeirrar gæfu að eignast þar góða vini sem hafa fylgt mér alla ævi, það er mér mjög dýrmætt,” segir Kári.

Kári Bjarnason.

Kári hefur alltaf haft yndi af bókum og fór að vinna á Landsbókasafninu 1989 og fór fljótlega í handritadeild Landsbókarsafnsins. Þar var hann helst að vinna með gömul íslensk handrit frá 17. , 18. og 19. öld.

Kári er íslenskufræðingur en hann tók lauk einnig námi í heimspeki. Hans  áhugasvið eða sérsvið er handrita- og bókaheimurinn og að vinna við menningararfinn.

Kári hefur alltaf haft yndi af bókum og hér er hann aðeins 4 ára með bók við hönd.

“Það er merkilegt við þessi gömlu handrit að þú sérð ekkert endilega það sem er þarna heldur það sem þú telur að eigi að vera þarna. Þú horfir á hin skrifuðu orð  en lítur framhjá hinum fallegu myndskreytingum, nótum sem víða sjást í handritum og fleira sem þarna finnst og er fyrir utan hið skrifaða orð. Fyrir tilviljun varð það hlutskipti mitt í allmörg ár að vinna með Helgu Ingólfsdóttur, sem þekktust er sem stjórnandi Sumartónleika í Skálholti, að því að draga saman kvæðin og sálmana sem finnast með nótum í íslenskum handritum. Þar birtist undrafögur veröld,” segir Kári.  Hann vann að þessu verkefni með Helgu og fleirum á árunum 1998-2005 og segir að kveðskapurinn hafi verið sitt svið en að Helga hafi séð um að fá tónskáld til að útsetja tónlistina. “Margir komu að þessu verkefni og heil veröld eins og birtist út úr handritunum, tónskáld, fræðimenn og aðrir hafa síðan haldið verkefninu áfram með ýmsum hætti,” sagði Kári að lokum.

Hafði aldrei komið til Vestmannaeyja og ekki pælt neitt sérstaklega í þeim

Kári vann að verkefninu í Reykjavíkurakademíunni og hætti á Landsbókasafni. Þegar verkefnið var búið var hann á ákveðnum tímamótum í sínu lífi. Það var þá sem að hann fékk tilboð um styrk til þess að vinna næstu fjögur árin meira með íslensku handritin. En skilyrðið fyrir styrknum var að flytja út á land enda handritin öll þaðan. Frosti Gíslason sá um að útbúa vef ásamt vini sínum sem geymdi vinnuna við verkefnið. 

“Frosti stakk upp á því að ég myndi flytja til Eyja en ég hafði aldrei komið til Vestmannaeyja á ævinni og hafði ekki pælt neitt sérstaklega í þeim. Elliði Vignisson kom svo í Reykjavíkuarakademíuna í júní 2006 og talaði mig endanlega inn á að koma hingað. Einu minningarnar sem ég hafði um Vestmannaeyjar fram að þeim tíma var að ég átti að mæta í íslenskupróf að morgni 23. janúar árið 1973.

Ég var illa undirbúinn fyrir prófið og því stressaður en þegar ég mætti í prófið þá sagði kennarinn okkar að það yrði ekkert próf þar sem það væri byrjað að gjósa í Vestmannaeyjum,” segir Kári. Maður á auðvitað ekki að segja svona en þessi 13 ára krakki þakkaði þarna Guði fyrir að hafa bjargað sér undan prófinu, þó aðferðin hefði kannske verið ansi stórtæk. 

Skrýtin tilviljun

Þau hjónin ættleiddu barn frá Kína árið 2007 en það voru 8 fjölskyldur í hópnum sem fór saman út og voru þau að hittast reglulega hjá hvert öðru allt frá árinu 2005. Í hópnum voru hjón frá Vestmannaeyjum, Sarah Hamilton og Víkingur Smárason. Þegar Kári kynnist þeim segist hann hafa hugsað, skrýtið að búa í Eyjum, hvernig ætli það sé?

Hópurinn ákvað að hittast að ári liðnu frá ættleiðingu í Vestmannaeyjum. Kári hugsaði með sér að það gæti verið gaman að fara í fyrsta skipti til Eyja. Svo leið tíminn og þegar þetta ár var liðið og hópurinn hittist í Eyjum var hann og fjölskyldan þá þegar flutt til Vestmannaeyja. Skrýtin tilviljun.

Þau tóku hús á leigu sem þau keyptu í framhaldinu enda fundu þau fljótt hvað það er gott að búa í Eyjum og engar áhyggjur af börnunum að hafa. En Kári og fyrrverandi konan hans Ágústína eiga tvær stelpur.  “Eldri stelpan okkar,  Jóna María var þá 8 ára en hún er 23 ára í dag og býr hér líka í Eyjum. En hún er ólétt og á von á sér í febrúar svo það styttist í að ég verði afi í fyrsta sinn,” segir Kári.

Kári ætlaði sér að vera í 4 ár í Eyjum en svo gerist það að starf forstöðumanns losnar. Þá ákvað hann að sækja um og fékk starfið. 

“Þá byrjaði að falla með mér mesta gæfan sem er að geta tengt starfið (Safnahúsið) við að vinna með menningararfinn í Vestmannaeyjum. Mesta undrunarefnið mitt þegar ég flyt hingað er hvað menningararfurinn hér er mikill og víðfeðmur. Ég hafði alls ekki áttað mig á því áður en ég kom hingað. Á hverjum morgni geng ég glaður og þakklátur til vinnu og lít á það sem forréttindi að fá að vinna við mitt mesta áhugamál.

Ég hef einnig verið óvenjulega heppinn með að kynnast góðu fólki sem hefur mikinn áhuga á að vinna með menningararfinn úr Eyjum á svo margvíslegan hátt og er ávallt tilbúið til að leggja mikið á sig í sjálfboðavinnu til að ná því,” segir Kári. Hann bætir því við að hann sé einnig lánssamur með samstarfsfólk enda ekki hægt að ná nokkrum árangri öðru vísi en sem samstillt starfsmannaheild.

Klausturferðir

Kári í klaustrinu 2005. Myndin er tekin við jarðarför eins reglubróður og þá er venja að nunnur af nærliggjandi klaustri komi í heimsókn.

Kári hefur farið fjórum sinnum frá árinu 2005 í eitt stærsta klaustur Bandaríkjanna eða að jafnaði á um 5 ára fresti. Klaustrið er staðsett á risastóru eiginlandi í um tveggja klukkustunda akstursfjarlægð frá Boston. Klaustrið býður upp á það sem mætti kalla tímabundna heimilisgesti. Þar er tekið á móti allt að tveimur til fjórum utanaðkomandi aðilum á ári og þeim leyft að kynnast klaustrinu innan frá í þrjá mánuði. En Kári reiknar ekki með að fara aftur á lífsleiðinni, enda þótt reynslan hafi ævinlega verið stórkostleg. 

“Þetta er gott samfélag með um 80-90 reglubræðrum og framfleyta þeir sér með því að búa til alls konar hluti, á borð við sultu, bjór o.fl. 

Fyrir mig var ferðin þangað tilraun til að núllstilla sig og setja fókusinn rétt. Fannst heillandi að komast inn í þennan heim og fá að fara þarna á bakvið, líkt og fara þúsund ár aftur í tímann. Þarna var ekkert sjónvarp, ekkert útvarp og enginn sími og í raun ekkert nema fullkomin þögn. Ég tók þátt í öllu, fór á hverjum degi sjö sinnum til kirkju, tvisvar til vinnu og var þrisvar við sameiginlegt borðhald svo ég kynntist lífi bræðranna ansi vel. Við borðhaldið var lesið upp úr bók og var það kannski það eina sem maður heyrði af mannlegu máli þann daginn.

Það mátti tala á vinnutíma sem er þá á milli 09:00-12:00 og svo 14:00-16:00 en oft voru menn að vinna einir svo það var ekki mikið sagt innan þessa tíma heldur. Klausturlífið  kennir manni þó fyrst og fremst að meta gæði þess sem maður hefur. Maður kynnist því að hér eru einstaklingar sem hafa farið þá leið í lífinu sem fæstir ná í dag. Þeir hafa gefið mikið frá sér til að fara þessa leið og maður sér hvað þetta hefur styrkt þá og gert þá að betri manneskjum. Einkennilegt með þessa einstaklinga hvað það er inngróið í þá að gera allt fyrir aðra / gefa af sér án þess að fá neitt í staðinn. Þeir missa allt, jafnvel nafnið sitt þegar að þeir fara í klaustrið, eru ekkert og eiga ekkert. En þá, kannske, er maður loksins orðinn eitthvað sem máli skiptir!

Trúarbrögð, fótbolti og eftirsjá

Ég hef töluvert lesið mér til um trúarbrögð og sú áhugaverðasta er Hindúismi enda þótt ég telji mig vera kristinnar trúar. En ég held að öll trúarbrögð séu að segja sama hlutinn. Trúarbrögð eru einfaldlega mismunandi leiðir að einu og sama markinu, segir Kári.

Kári les töluvert og er alltaf með nokkrar bækur í gangi í einu. Einnig er hann að lesa mikið í íslenskum fræðum. Hann hefur mikið dálæti af Njálu, heldur mikið upp á Völsungasögu og svo eru ýmsir rithöfundar eins og Gunnar Gunnarsson og Halldór Laxness. Hefur mikið gaman að lesa ljóð og jafnframt mikinn áhuga á ýmsum trúarlegum ritum. “Þar hefur mér sem dæmi fundist tímaritið Gangleri, rit guðspekifélagsins vera frábær andleg næring.”

Kári horfir ekki mikið á sjónvarp en hefur gaman að fótbolta, hans lið er Manchester United og hefur verið í tugi ára.

Hann hefur unun af því að fara á Hásteinsvöll, bæði á leiki hjá stelpunum og strákunum og hefur mætt á flesta leiki að frátöldum síðastliðnum tveimur árum vegna covid.

Eitt af því sem Kári sér mest eftir er að hafa ekki farið í skátana þegar hann var lítill. Hann telur það eitt það flottasta og besta sem er í boði til að örva börn til útiveru og heilnæms lífernis og vill hvetja foreldra til að ýta börnum sínum í skátastarfið. Tvennt finnst honum vera einstakt í Eyjum,  náttúrufegurðin og nábýli við hafið. “Ég hef fulla trú á því að hafið gefi manni orku og jákvæðni. Maður ræður yfir sínu hugarfari, velur að vera jákvæður og lausnamiðaður. Ég vel að hreyfa mig mikið og borða hollt því það er gott fyrir mann og það margverðlaunar sig,” segir Kári.

Kominn hálfa leið hringinn í kringum jörðina

“Hippókrates, faðir læknisfræðinnar sagði eitt sinn: Það er til eitt lyf við öllum veikindum – það er ganga. Ég trúi þessu staðfastlega, segir Kári. Hann gengur að lágmarki 15.000 skref á dag sem eru um 12 kílómetrar eða sem jafngildir 4500 – 5000 kílómetrum á ári eða sem nemur því að arka árlega þvert yfir Bandaríkin. Fyrir fjórum árum síðan gaf samstarfsfólk Kára honum gjafabréf í Geisla og hann keypti sér heilsuúr fyrir peninginn.

Það gerbreytti lífi hans. Hann segist að vísu alltaf hafa haft unun af því að ganga, er ekki með bílpróf og aldrei þurft á bíl að halda. Hann gekk um allt þegar hann bjó í miðbæ Reykjavíkur þar sem hann einnig vann og sama er að segja um hér í Eyjum. “Samt breytti heilsuúrið lífi mínu varanlega,” segir Kári. Í þessi 4 ár hef ég markvisst tekið líf mitt í gegn, fyrst hreyfingu og enda þótt ég hefði verið gönguhrólfur fyrir tíma úrsins þá snarjókst meðvitund mín um gildi hreyfingar og mikilvægi þess að vera alltaf að.

Á þessum fjórum árum síðan ég fékk heilsuúrið hef ég gengið sem samsvarar um 20.000 km. sem svarar til að gengið sé um hálfa leið um miðbaug kringum hnöttinn. Lykilatriðið til að ná þessu er að enginn dagur má falla út. Kári hefur gert tilraunir með skrefafjöldann en hann komst að því að 15 þúsund skref eru passleg, það er mikið en ekki of mikið, segir hann. Hann prófaði 20 þúsund skref sem eru um 15 kílómetrar  og fannst það of mikið, aðallega hversu tímafrekt það er. Til að ná markmiði sínu gengur hann því til og frá vinnu, upp og niður stiga og allar sínar ferðir. Ef vantar upp á skrefin eftir daginn þá skellir hans sér í göngutúr til að klára skref dagsins.

Eftir því sem maður eldist þá áttar maður sig betur á því að það er ótrúlega mikið sem er á okkar eigin valdi, auðvitað ráðum við ekki því hvað kemur fyrir okkur en við ráðum hinu hvernig við vinnum úr því sem að kemur fyrir okkur.

Ég hef smám saman sökkt mér dýpra í lestur á bókum um heilsusamlegt líferni, hollt mataræði og hreyfingu og þá sé maður að það er ekki nóg að taka bara einhvern einn lið fyrir, heldur þarf að hafa heildarmyndina og kjarninn í heildarmyndinni er hreyfing, hollt mataræði, rétt hugarfar og hugleiðsla,” segir Kári.  Þá stundar hann einnig lotubundnar föstur og segir að þær séu ótrúlega hollar og mikilvægar ef þær eru stundaðar af skynsemi.

Kári borðar langmest af fiski en fær sér kjöt á hátíðum eða við önnur tilefni.  “Fiskurinn er ótrúlega hollur matur að ekki sé talað um fiskmeti í svona sjávarplássi þar sem fiskurinn syndir nánast beint upp á diskinn hjá manni.” Hann saknar fiskbúðarinnar sem var hér og vill fá fiskbúð aftur. 

Vilji er allt sem þarf, sagði skáldið og er Kári sammála því. Viljinn skapar ákvörðun. Ákvörðunin laðar fram rútínuna, áður en þú veist af er það sem það sem þig  langaði raunverulega til að gera orðið að inngróinni venju. “Við erum skaparar eigin lífs langt umfram það sem við áttum okkur að jafnaði á,” segir Kári að lokum.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search