Sólveig Adólfsdóttir eða Dollý eins og flestir þekkja hana greindist með Covid19 þann 21. mars sl. og var þá orðin alvarlega veik. Hún var send á Landsspítalann á covid-deildina í einangrun. Tígull fékk að heyra hennar reynslu af veirunni.
Nafn, fjölskylda og aldur:
Sólveig Adolfsdóttir, gift Þór Í. Vilhjálmssyni og eigum við þrjú
uppkomin börn, 8 barnabörn og 4 barnabarnabörn. Ég er 74 ára gömul.
Hvenær greindist þú?
Ég veikist 13. mars en greinist með COVID – 19 laugardaginn 21. mars.
Hvernig grunaði þig að þú værir smituð?
Mig grunaði það svo sem ekki þar sem ég var búin að vera skoðuð
nokkrum sinnum hjá læknum upp á Heilbrigðisstofnuninni og það var ekki orðað þá. Það er ekki fyrr en ég er komin í sjúkraflugvél, alvarlega
veik á leiðinni til Reykjavíkur sem það lá fyrir að ég var smituð af
þessari veiru.
Hvernig lýstu veikin sér hjá þér?
Ég fékk mjög háan hita viku áður en ég greindist með veiruna og var
mjög máttfarin. Ég hafði ekki krafta til að standa í fæturnar sjálf og
kom það fyrir að ég hreinlega datt niður og réð ekki við að koma mér upp aftur. Ég fékk lungnabólgu, mikinn hósta og vanlíðan. Ég missti allt bragð- og lyktarskyn og átti erfitt með að nærast. Þessu fylgdi mikill niðurgangur.
Varstu við fulla heilsu þegar þú greindist?
Já miðað við aldur var ég í ágætis formi. Ég var dugleg að hreyfa mig,
var t.d. í Janusarverkefninu og í sundleikfimi ásamt því að fara í
daglega göngutúra.
Hvernig ertu í dag 4 mánuðum eftir útskrift?
Ég á enn langt í land. Ég er er mjög máttfarin og úthaldslítil þrátt
fyrir að ég sé farin að hreyfa mig aðeins aftur. Jafnvægisskynið mitt er
ekki gott og hefur það áhrif. Ég er búin að fara í rannsóknir hjá
Landsspítalanum og komu niður-stöður þar ekki nægilega vel út. Það er fyrirhugað að ég fari aftur í rannsóknir til þeirra í haust.
Hvað viltu ráðleggja fólki sem var að greinast?
Að taka þessari veiru mjög alvarlega. Fara eftir því sem fyrir er lagt
í einu og öllu. Þessi veira er dauðans alvara.
Hvað viltu ráðleggja fólki sem tekur þessu ekki full alvarlega ?
Í dag hljóta allir að taka þessu alvarlega. Við höfum misst fólk og
margir hafa misst heilsuna sína eins og ég. Þetta er því dauðans alvara.
Hvernig leið þér þegar þú fékkst jákvæða niðurstöðu út testinu?
Ég á erfitt með að svara því þar sem ég var svo veik og ekki með fulla
meðvitund á þeim tíma. Ég þurfti á súrefnisgjöf að halda og lá í
einangrun inn á COVID deildinni á Borgarsspítalanum (deild A-7) og svaf mikið. Ég hafði ekki einu sinni orku til að tala við fjölskylduna mína í síma, það veik var ég.
Gerðir þú þér grein fyrir alvar-leikanum þá ?
Já, ég hélt að ég myndi ekki hafa þetta af. Ég heyrði að fólk var að
deyja á deildinni sem ég lá á og var ég hrædd, enda mikið veik.
Að lokum langar mig að færa starfsfólkinu á Smitsjúkdóma-deildinni A-7 á Landsspítalanum mínar bestu þakkir fyrir frábæra umönnun á afskaplega erfiðum tímum. Starfsfólkið var vakið og sofið yfir sjúklingunum sem lá
þarna og margir þeirra gengið fram af sér í vinnunni. Erfitt að gefa ráðleggingar þar sem veikindin geta verið svo mismunandi á milli einstaklinga.