09.11.2020
200 mílur eru með flott viðtal við Georg Eið Arnarson sem hann Ómar Garðarsson tók hér fyrir neðan er brot af því viðtali.
Georg Eiður Arnarson er Eyjamaður, trillu- og lundakarl og hefur marga fjöruna sopið á langri útgerðarsögu. Komist í hann krappan oftar en einu sinni. Misst báta, bæði í sjóinn og til bankans en alltaf staðið upp aftur og er enn að. Sækir í það sem náttúran gefur en er um leið náttúrverndarsinni án þess kannski að hafa hugmynd um það. Hefur skoðun á hlutunum og bendir óhikað á þegar honum finnst ekki rétt að farið. En umfram allt er Georg Eiður skemmtilegur karl og bara sáttur við Guð og menn þegar upp er staðið.
Hann er fæddur 1964 og byrjaði snemma á sjó. „Ég var tólf ára þegar ég fór einn túr í starfskynningu á Dala-Rafni VE með skólabróður mínum þá, Engilbert Eiðssyni, sem fór niður með Hellisey VE 1984. Var mikið sjóveikur, ældi eins og múkki frá því við fórum þar til við komum í land. Ég held ég hafi ælt daginn eftir líka,“ segir Georg sem reyndi fyrir sér á togara rúmlega tvítugur. Leist ekki á enda hluturinn ekki hár. „Það er annað í dag,“ segir Georg sem stuttu seinna kaupir fyrstu trilluna.
Fyrstu skrefin í útgerðinni
Hún hét Kópur, eitt og hálft tonn og stýrishúsið ekki stærra en svo að hann horfði yfir það um leið og hann stýrði en stýrið var úti. Þetta var haustið 1987. Það er svo á fyrstu vertíðinni, 1988, að hann fær eldskírnina sem trillusjómaður. „Ég fer á sjó með tvær tölvuvindur og er kominn inn á Danska hraun. Er að fara að ýta á start þegar komin er nokkur alda en alveg logn. Áður en færin eru komin niður á 30 metrana er skyndilega kominn 20 metra stormur. Á þessu horni sigldi ég í land, allt á hlið og þegar ég kom í Faxa gengu öldurnar yfir hann öðrum megin og upp úr honum hinum megin. Maður réð ekki við eitt eða neitt enda var þetta algjört horn en kom manni þó í land.“
Næst kaupir Georg afturbyggðan trébát sem er ennþá við Klettsnefið við innsiglinguna til Vestmannaeyja. „Um miðjan desember 1989 fer ég hérna vestur fyrir með línu. Það skellur á austan rok og þegar ég kem til baka eru skaflarnir við Klettinn. Þetta var eldgamall trébátur, opinn og framþungur og á fyrstu öldu flaut yfir. Ég var heppinn, náði að snúa við, og komast í var norðan við Heimaklett og lagði bátnum á bóli. Það var algjörlega ófært fyrir mig að ætla að komast til hafnar og Rabbi á Kirkjubæ náði í mig og fór með mig í land.“
Ætlunin var að ná í bátinn daginn eftir en óveðrið hélst í þrjá daga. „Við fundum aldrei bátinn þannig að hann er þarna einhvers staðar á bóli,“ segir Georg og glottir.
Smelltu hér til að lesa allt viðtalið
Myndirnar tók Óskar PéturFriðriksson.