Guðmundur, útgerðarstjóri Bergs – Hugins, lætur af störfum

Guðmundur Arnar Alfreðsson, útgerðarstjóri Bergs – Hugins ehf. hélt upp á sjötugsafmælið sl. laugardag og við þau tímamót lét hann af störfum hjá útgerðarfélaginu.

Á vef Síldarvinnlunnar er farið yfir starfsferil Guðmundar Arnars og rætt við nokkra af hans samstarfsfélögum í gegnum tíðina.Við óskum Guðmundi til hamingju með daginn. Hér er frásögn Síldarvinnslunnar:

Guðmundur lauk námi frá Vélskóla Íslands vorið 1973 og allar götur síðan hefur hann starfað hjá Bergi – Hugin. Áður hafði hann reyndar um tíma starfað hjá Bergi hf., öðru þeirra félaga sem stofnuðu Berg – Hugin árið 1972. Guðmundur starfaði því í hálfa öld hjá sama fyrirtækinu og þar hefur hann verið traust kjölfesta. Hann er einn þeirra manna sem sífellt hefur verið unnt að treysta á og hann hefur alla tíð gegnt störfum sínum af einstakri samviskusemi. Í upphafi sinnti Guðmundur vélstjórastörfum á skuttogaranum Vestmanney en að því kom árið 1986 að hann tók við starfi útgerðarstjóra.

Ekki kemur á óvart að Guðmundur er mjög tæknilega sinnaður og fylgist vel með allri framþróun sem á sér stað á hinu tæknilega sviði. Fyrir allmörgum árum fékk Guðmundur mikinn áhuga á flugi, lauk einkaflugmannsprófi árið 1986 og hefur síðan svifið um loftin blá í frístundum sínum eða til að sinna erindum uppi á landi. Þá hefur hann lengi haft ljósmyndadellu og hefur heimasíða Síldarvinnslunnar fengið myndir frá honum hvenær sem á hefur þurft að halda.

Magnús Kristinsson var framkvæmdastjóri Bergs – Hugins til ársins 2017 og það var hann sem fékk Guðmund til að taka að sér útgerðarstjórastarfið á sínum tíma. Magnús segir að hann hafi verið sannfærður um að ekki fengist betri maður í starfið. „Guðmundur er góður drengur, heilsteyptur og hefur aldrei hallmælt nokkrum manni. Þá er hann athugull, yfirvegaður og lausnamiðaður. Vinnusemi hefur alla tíð einkennt hann og þegar mikið er að gera þá hefur hann alltaf verið síðasti maður heim. Það voru forréttindi að starfa með Guðmundi,“ segir Magnús.

Guðmundur var vélstjóri á gömlu Vestmannaey

Síldarvinnslan festi kaup á Bergi – Hugin árið 2012 og hefur samstarfið á milli móður- og dótturfélags verið afar farsælt frá upphafi. Gunnþór B. Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, ávarpaði afmælisbarnið á afmælisdaginn og fjallaði hann um kynni sín af Guðmundi. Sagði Gunnþór að strax í upphafi hefðu menn áttað sig á því að útgerðarstjóri Bergs – Hugins nyti alls staðar virðingar. Þá gat hann þess að Guðmundur væri fagmaður fram í fingurgóma og það skipti engu máli á hverju bjátaði því Guðmundur fyndi ávallt leið út úr vandanum. Fyrir utan samviskusemina og hæfni til að gegna útgerðarstjórastarfinu væri maðurinn bráðskemmtilegur og með afar góða nærveru. Sagði Gunnþór að starfsmenn eins og Guðmundur væru vandfundnir.

Arnar Richardsson, rekstrarstjóri Bergs – Hugins, segir að söknuður verði af Guðmundi. Arnar hóf störf hjá Bergi – Hugin árið 2006 og síðan hafa þeir Guðmundur átt í nánu samstarfi. Arnar segir að Guðmundur hafi verið einkar hæfur til að gegna starfi sínu og hann sé dugnaðarforkur auk þess að vera prýðismaður í alla staði. Þá getur Arnar þess að þó Guðmundur verði ekki fastur starfsmaður lengur þá sé hann ekki horfinn á braut og verði örugglega fenginn til að taka að sér ýmis verkefni fyrir Berg – Hugin á komandi tímum.

Síldarvinnslan og Bergur – Huginn vilja þakka Guðmundi fyrir vel unnin störf síðastliðna hálfa öld.

 

 

Frá afmælisveislunni sl. laugardag. Talið frá vinstri: Magnús Kristinsson, afmælisbarnið Guðmundur, Arnar Richardsson og Gunnþór B. Ingvason

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search