16.10.2020
Þetta er meðal þeirra breytinga á sóttvarnaráðstöfunum sem heilbrigðisráðherra hefur ákveðið og kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun. Þær eru að mestu leyti þær sömu og sóttvarnalæknir hefur lagt til og munu gilda í 2-3 vikur. Stöðugt endurmat á að eiga sér stað á þeim tíma.
Engin breyting verður á skólahaldi.
Meðal annarra breytinga má nefna að leyfður hámarksfjöldi einstaklinga í sama rými verður 20 manns um allt land. Þá verður íþróttaiðkun, sem ekki krefst snertingar, leyfð aftur á höfuðborgarsvæðinu að hámarki 20 manns í hópi án áhorfenda, svo framarlega sem tveggja metra reglan sé virt. Allt íþrótta- og tómstundastarf barna á leik- og grunnskólaaldri sem krefst snertingar verður óheimilt á höfuðborgarsvæðinu.
Almenningur er áfram hvattur til að halda sig sem mest heima.
Takmarkanir utan höfuðborgarsvæðisins – helstu breytingar:
- Nándarmörk milli einstaklinga verða 2 metrar.
- Skylt verður að nota andlitsgrímur þar sem ekki er hægt að tryggja 2 metra nándarmörk, m.a. í verslunum.
- Á viðburðum verður einungis heimilt að hafa 20 gesti í hólfi í hverju rými sem skulu sitja í númeruðum sætum sem skráð eru á nafn.
- Engir áhorfendur mega vera á íþróttaviðburðum, hvorki innan- né utandyra.
- Íþróttaiðkun, einnig sú sem krefst snertingar eða mikillar nálægðar, verður heimil, jafnt innan- og utandyra.
- Líkamsræktarstöðvar verða áfram lokaðar.
Takmarkanir á höfuðborgarsvæðinu – helstu breytingar:
- Allt íþrótta- og tómstundastarf barna á leik- og grunnskólaaldri sem krefst snertingar verður óheimilt.
- Skólasund verður óheimilt.
- Íþróttaiðkun sem ekki krefst snertingar verður heimil en fjöldi þátttakenda má að hámarki vera 20 einstaklingar og 2 metra nándarmörk skulu virt. Engir áhorfendur mega vera viðstaddir.
- Æfingar og keppni í íþróttum sem krefjast snertingar verða óheimilar, innan húss og utan, jafnt hjá börnum og fullorðnum.