Gott sem við gerum sjálf – hitt síðra!

Það var líklega meira áberandi á nýliðnu ári en oft áður hvað það skiptir algjörlega í tvö horn með málefni okkar Eyjamanna. Annars vegar eru öll þau mál sem eru undir okkur sjálfum komin – og hins vegar þau sem við eigum undir ákvörðunum annarra; aðallega ríkisins.
Það er skemmst frá því að segja að í okkar eigin málum vorum við í afskaplega góðum málum á árinu. Athafna- og atvinnulíf var á blússandi siglingu og miklar framkvæmdir og fjárfestingar bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hæst ber auðvitað uppbygginguna hjá Laxey – landeldi á laxi – en þar er á ferðinni stærsta einstaka framkvæmd á vegum einstaklinga í sögu Vestmannaeyja. Það sem gerir þetta enn jákvæðara er að þarna á í hlut fjölskylda Sigurjóns Óskarssonar, sem eftir nokkrar kynslóðir í útgerð notar afraksturinn úr þeirri grein til fjárfestinga í nýrri atvinnugrein í sinni heimabyggð. Til fyrirmyndar!

En árið var ekki bara athafnasamt heldur líka skemmtilegt. Hæst bar allskonar viðburði tengda því að 50 ár voru liðin frá gosi. Það var sérstaklega ánægjulegt hversu vel þessir viðburðir allir voru sóttir, sem vonandi er vísbending um að við Eyjamenn ætlum ekki að gleyma; ætlum að halda á lofti minningu og afrekum þeirra sem með dugnaði, áræðni og ósérhlífni gengu þannig fram fyrir 50 árum að Vestmannaeyjar eru það sem þær eru í dag. Eyjamenn standa í ævarandi þakkarskuld við þetta fólk.
Mennta- og menningarlíf var afar gróskumikið á nýliðnu ári. Nægir þar að nefna þann góða árangur sem þegar er kominn í ljós af hinu stórmerka rannsóknar- og þróunarverkefni Kveikjum neistann í Grunnskóla Vestmannaeyja. Verkefnið hefur hlotið mikla athygli um allt land – bæði meðal almennings og skólafólks. Ég vil heldur ekki láta hjá líða að nefna hina stórgóðu uppfærslu Leikfélags Vestmannaeyja á söngleiknum Rocky Horror. Sýningin hlaut þann dóm fagfólks að hún væri athyglisverðasta áhugamannaleiksýning á Íslandi 2022/2023 og Leikfélaginu var í framhaldinu boðið með sýninguna á svið Þjóðleikhússins.
Æskulýðs- og íþróttastarf var öflugt eins og jafnan áður. Meistaraflokkur kvenna varð Bikarmeistari í handbolta og karlarnir Íslandsmeistarar. Ég verð hins vegar að játa að mér þótti þyngra en tárum tekur að horfa á eftir bæði körlunum og konunum okkar falla úr efstu deild í fótbolta. En nú dugir ekki annað en bíta í skjaldarendur og brjóta okkur leið upp í efstu deild strax aftur!
Hér á undan hef ég stiklað á mjög stóru í öllu því jákvæða og góða sem er í gangi í samfélaginu okkar. Við þetta mætti svo bæta góðum og traustum rekstri Vestmannaeyjabæjar og könnunum sem sýna að ánægja Eyjamanna með bæinn sinn er sú mesta sem mælist á Íslandi. Og fólkinu fjölgar jafnt og þétt. Bæjarbúar voru 4,631 í árslok og hafði fjölgað um 107 á árinu.

Þar sem við ráðum ekki…
Þegar við lítum til þeirra málaflokka og innviða sem við ráðum ekki sjálf heldur eigum undir öðrum – aðallega ríkinu en jafnvel líka einstaka fyrirtækjum á borð við HS Veitur – blasir við talsvert önnur mynd.
Síðustu misseri höfum við verið óþyrmilega minnt á þá veikleika sem eru í flutningum á bæði raforku og vatni til Vestmannaeyja – og samgöngurnar hafa verið með versta móti það sem af er vetri. Þar verða Vegagerðin og ríkið að gera betur!
HS Veitur virðast geta dúndrað á Eyjamenn ítrekuðum verðhækkunum á þjónustu í krafti þeirra sérleyfa sem fyrirtækið starfar eftir. Starfsemi HS Veitna í Vestmannaeyjum þyrfti að koma til endurskoðunar í heild sinni og væri nú ekki verra að njóta liðsinnis þingmanna kjördæmisins í þeim efnum.
Í sinni einföldustu mynd er staðan sem sagt þessi: Þar sem við ráðum ferðinni sjálf gengur allt að óskum – þar sem við eigum undir aðra að sækja gengur ekki eins vel. Á nýju ári eins og þeim liðnu mun því stór hluti af tíma og þreki bæjaryfirvalda fara í hagsmunagæslu gagnvart þessum ‘’utanaðkomandi’’ aðilum. Og við munum ekki láta deigan síga í þeim efnum.

Ég óska Eyjamönnum farsældar og gleði á nýju ári – og þakka samfylgdina á því liðna.

Páll Magnússon

 

 

 

 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search