Tígull kíkti á þau Berglindi og Sigga sem opnuðu GOTT aftur síðastliðinn föstudag eftir miklar breytingar. Við fengum að heyra meira um framkvæmdirnar á GOTT og hvað væri framundan hjá þeim.
Hvenær kom hugmyndin fyrst upp að stækka staðinn?
Fundum fljótlega fyrir því eftir að við opnuðum GOTT að á sumum tímum og þá sérstaklega sumrin að staðurinn var of lítill. Það komu stórar helgar og þá vorum við háð veðri hvort hægt væri að bjóða fólki að sitja úti. En við höfum leyst það síðustu tvö árin með að vera með tjald bakvið. Þar sem við verðum að nýta sumrin mjög vel til að vega uppá móti vetrinum er mikilvægt að hafa sæti fyrir alla sem vilja borða hjá okkur.
Við vildum líka vera með aðstöðu fyrir gestina okkar þar sem væri meira næði og með bar aðstöðu getum við boðið meira úrval af drykkjum.
Við erum líka með þessu að bæta alla vinnuaðstöðu. Stækkunin á eldhúsinu kom aðeins á undan og það var bylting og svo núna fyrir þjónana, að hafa almennilegt svæði að vinna á. Við skiljum það ekki núna hvernig við fórum eiginlega að þessu, hvernig við höfum látið þetta ganga með litla eldhúsið eins og það var og litla afgreiðsluborðið en það var skynsamlegast að gera þetta í einhverjum skrefum. Bræðurnir Simmi og Siggi hafa nánast gert allt í þessari byggingu, þeir eru ótrúlegir, það eru aldrei vandamál bara verkefni og það er ekkert til sem ekki er hægt að framkvæma.
Hvað tóku framkvæmdirnar langan tíma?
Við gerðum þetta í skrefum. Steyptum fyrir eldhúsinu og salnum í einu en kláruðum eldhúsið alveg fyrst. Notuðum tjald í tvö ár baka til en fórum svo í framkvæmdir á salnum í janúar. Brutum niður vegginn milli salana eftir þrettándann. Þá var það sem er salurinn núna bara grá steypan með nelgt fyrir gluggana svo það er búið að gera ótrúlega mikið á stuttum tíma. Simmi hefur dregið það áfram. Bræðurnir fóru í vinnu þegar það var rauð viðvörun sem er auðvitað útí hött en þeir eru óstöðvandi þegar það er verkefni í gangi.
Þú Berglind innréttaðir staðinn, hver var þinn helsti innblástur? Ég vildi vera trú conseptinu sem er að vera umhverisvæn og endurnýta. Ég elska að sjá fegurð í því sem aðrir kannski sjá ekki sem nýtanlegt. Ég vildi gefa þessum útsaumuðu myndum nýtt líf. Það hefur fólk lagt ómælda vinnu við að gera þær, vikur, mánuðir og jafnvel ár og þessar myndir voru nánast komnar í ruslið, í Góða hriðinum, geymslum og kreppumörkuðum. Ég auglýsti líka eftir myndum og náði því miður ekki að þiggja allar. Þegar ég sótti sumar fékk ég persónulegar sögur um myndirnar og það gefur staðnum enn meira tilfinningalegt gildi. Ég vil að staðurinn sé með karakter ekki bara samansafn af dóti sem sé raðað saman. Mosaík verkið sem Helga Jónsdóttir gerði fyrir okkur er líka unnið úr brotnum diskum. Helga er einstakur listamaður og vann verkið stórkostlega. Mig langar að taka meira af list inná staðinn eftir local listamenn. Verkið hennar Helgu er einn liður í því. Fólk fer ekki út að borða bara til að fylla magann það fer líka fyrir upplifunina. Við höfum verið með handmáluðu steinana hennar Steinunnar, við ætlum að selja handgerðu sápurnar hennar Jacke sem hún er snilllingur í að gera, þær eru lífrænar, umbúðalausar og sannarlega falla vel að okkar consepti. Við viljum halda áfram á þessari leið. Við erum komin með smá GOTT búð inná staðnum þar sem við seljum bækurnar okkar, boli, kaffið okkar, handheklaðar tuskur, espresso bolla og svona ýmislegt skemmtilegt mest eftir local listamenn og munum bæta þar við á árinu.
Verðið þið með einhverjar nýungar?
Við erum með einhverjar breytingar á matseðli en reynum að vera með nýjungar í rétti dagsins og svo sérstaka sérmatseðla eins og á konudaginn síðasta og kannski steik um helgar. Við verðum með sushi í þessari viku fimmtudag og föstudag o.s.frv. Með nýja barsvæðinu og koníaksstofunni erum við farin að bjóða meira úrval af allskonar drykkjum sem við einfaldlega réðum ekki við að gera á litla borðhorninu sem við höfðum til að vinna á áður.
Hvað tekur þá staðurinn marga í sæti núna eftir breytingar? Það eru amk 100, svo koníaksstofa og útisvæði þegar veður leyfir. Við munum geta leigt út t.d. innri salinn fyrir útskriftaveislur og annað svo lengi sem dagsetningin stangast ekki á við eitthvað annað.
Eitthvað að lokum?
Ég vil þakka velvild í okkar garð varðandi GOTT og verkefnin sem við höfum verið í tengt staðnum. Eyjamenn eru einstakir í því að hjálpa til og gefa af sér. Okkur hlakkar til að taka á móti öllum til okkar, þó þetta sé veitingastaður lítum við svo á að við séum að bjóða fólki heim og við viljum að gestum okkar líði vel hjá okkur. Við erum einstaklega heppin með starfsfólk það er grunnur alls og við erum þakklàt fyrir starfsfólkið okkar sem tekur þátt með okkur að bjóða fólk velkomið til okkar. Í svona vinnu er ekki nóg að stimpla sig inn og svo út. Þú þarft að gefa af þér, hafa ákveðið passion og geta unnið í takt við aðra svo hlutirnir gangi upp. Það er alls ekki sjálfgefið og oft vanmetið.
Fyrsta helgin liðin og þó það hafi gengið vel þá erum við að læra á ýmislegt við þessar nýju aðstæður og eðlilegt að við þróum það áfram með reynslunni. Verið velkominn kæru Eyjamenn og gestir við munum taka vel á móti ykkur.