Halldór Ben

Gott ár á enda runnið!

Íris Róbertsdóttir fer yfir árið:

Í þessum áramótapistli ætla ég að stikla á stóru í því jákvæða sem gerst hefur í bæjarlífinu á árinu sem er að líða. Ekki vegna þess að það sé ekki ýmislegt sem betur má fara, heldur vegna þess að okkur hættir stundum til að gleyma því sem gott er og einblína á hitt. 

Árið hefur nefnilega verið óvenju viðburðaríkt og á margan hátt skemmtilegt og merkilegt fyrir okkur Eyjamenn.

Vestmannaeyjakaupstaður varð formlega 100 ára gamall 1. janúar og við höfum notað allt þetta ár til að fagna þessum merka áfanga í sögu okkar. Bærinn hefur staðið fyrir á annað hundrað menningar- og sögutengdum viðburðum af þessu tilefni. Einnig var haldin óvenju glæsileg Goslokahátíð sem fléttaðist inn í afmælishátíðarhöldin.

Herjólfur og Landaeyjahöfn

Við fengum nýjan Herjólf. Auðvitað fylgja því ýmsir byrjunarörðugleikar að taka nýtt og flókið skip í notkun en reynslan fram að þessu hefur í öllum aðalatriðum verið góð. Það skiptir líka máli í þessu samhengi að það tókst að fá því framgengt að gamli Herjólfur yrði ekki bara áfram til taks um sinn heldur yrði staðsettur í Vestmannaeyjum.

Nýr viðbótarsamningur um dýpkun Landeyjahafnar sem gerður var í vetur felur í sér hreina byltingu miðað við það ástand sem ríkt hefur. Dýpkun verður nú haldið óslitið áfram út janúar og dýpkunarskipið og áhöfn þess, staðsett í Vestmannaeyjum. Á þetta hefur að vísu ekki reynt mikið fram að þessu í vetur því ástandið í Landeyjahöfn hefur verið óvengu gott. Einnig felur viðbótarsamningurinn í sér að ef á þarf að halda í vordýpkun er hægt að kalla til aðila með öflugri og afkastameiri tækjakost en Björgun hefur yfir að ráða. Þannig má gera ráð fyrir að ef Landeyjahöfn lokast vegna sandburðar seinna í vetur þá taki mun skemmri tíma að opna hana aftur en við máttum þola síðastliðið vor.

Það voru góð tíðindi að Alþingi samþykkti fyrir skömmu að ráðist skyldi í óháða úttekt á Landaeyjahöfn sem á að svara því hvað gera þarf til að hún verði sú heilsárshöfn sem að var stefnt í upphafi. Þessari úttekt á að ljúka næsta haust og hjálpar okkar vonandi í því eilífðarverkefni að bæta samgöngur milli lands og Eyja til frambúðar.

Nýtt háskólanám í Eyjum

Fyrir skömmu gerðum við samstarfssamning við Háskólann í Reykjavík og mennta- og menningarmálaráðuneytið um nýtt háskólanám hér í Eyjum. Samningurinn felur í sér að frá og með næsta hausti, 2020, verður íþróttafræði á háskólastigi kennd hér í Eyjum. Þetta er gott og jákvætt skref enda áhugi á þessum fræðum mikill hér í Eyjum og tengist öflugu íþróttalífi í bænum og ótrúlega góðum árangri á því sviði.

Sýslumaður og sjúkraþyrla

Nú undir árslok var loksins tekið skref í þá átt að færa til betri vegar þá afleitu ráðstöfun sem gripið var til í upphafi árs, að kalla sýslumanninn frá Eyjum. Nú hefur staða sýslumanns í Eyjum verið auglýst og jafnframt tilkynnt um flutning á nýjum verkefnum til embættisins. Þessu ber að fagna.

Það ber líka að fagna þeirri ákvörðun heilbrigðisráðherra, sem kynnt var núna í desember, að ráðast í tilraunaverkefni með sjúkraflutningaþyrlu í okkar landshluta. Í því samhengi var sérstaklega nefnt að þessi nýja þyrla, með sérhæfðri áhöfn, mun að sjálfsögðu bæta mjög öryggi okkar hér í Eyjum og auka viðbragðsflýti þegar á þarf að halda.

Þessi atriði sem ég hef nefnt hér að ofan snúa flest að samskiptum okkar hér í Eyjum við hin ýmsu ráðuneyti og stofnanir ríkisins. Ég vil sérstaklega þakka öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóginn í þessum framfaramálum; ráðherrum, þingmönnum, bæjarfulltrúum, embættismönnum og fleirum. Svona árangur næst ekki nema með samstilltu átaki margra.

Forsetar og mjaldrar

En það er ýmislegt fleira jákvætt og skemmtilegt að gerast.

Í fyrsta skipti í langan tíma kom erlendur þjóðhöfðingi í opinbera heimsókn til Eyja. Forseti Þýskalands kom í heimsókn ásamt fríðu föruneyti, þar með töldum íslensku forsetahjónunum, heppnaðist þessi viðburður afar vel. Vestmannaeyjar fengu í tengslum við þetta talsverða umfjöllun í þýskum fjölmiðlum sem getur reynst afar jákvætt fyrir ferðamennskuna.

Koma mjaldrasystranna tveggja frá Kína getur sömuleiðis haft jákvæð áhrif á ferðamennskuna og systurnar eru skemmtileg viðbót við það sem fyrir er og laðar fólk til Eyja.

Íbúar ekki verið fleiri í tæp 20 ár

Rekstur bæjarins gengur vel og stefnir í meiri afgang en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun, þrátt fyrir loðnubrest. Helstu framkvæmdir á árinu voru við íbúðir fyrir fatlaða á Ísfélagsreitnum og eiga að afhendast á næsta ári. Það er spennandi ár framundan í framkvæmdum: loksins verður hafist handa við að byggja nýja slökkvistöð, sorporkustöð á að rísa og Skipalyftukanturinn verður endurnýjaður. Sömuleiðis verður gaman að fylgjast með undirbúningi á stækkun Hamarsskóla.

Á Þorláksmessu voru íbúar í Vestmannaeyjum 4.355 og hafa ekki verið fleiri síðan árið 2000. Á annað hundrað nýrra íbúða voru teknar í notkun, voru í byggingu eða í umsóknarferli á árinu sem er að líða.

Af framansögðu má ljóst vera að sem bæjarfélagi hefur okkur gengið flest í haginn á því ári sem nú er að ljúka. Ég geri mér samt fulla grein fyrir því að það er ýmislegt sem má betur fara og við megum aldrei sofna á verðinum. Það er líka mikilvægt að við hjálpumst öll að við að gera góðan bæ betri. Verkefni eins og „Viltu hafa áhrif?“  hjálpa þar til en það er framlag bæjarbúa sjálfra sem skiptir mestu máli. Skemmtilegt dæmi um það er Stjörnuleiknurinn. Þar leggja strákarnir í ÍBV handbolta mikið á sig á hverju ári til að þessi dásamlegi leikur verði að veruleika. Þessi leikur gleður okkur öll, skipuleggjendur, þátttakendur og áhorfendur; og skilar Gleðigjöfunum miklum ávinningi. Þetta sást vel í frábæru innslagi í Landanum um jólin.

Ég vil þakka Eyjamönnum samfylgdina á þessu góða ári og óska ykkur öllum velfarnaðar á nýja árinu.

Íris Róbertsdóttir Bæjarstjóri

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is