Góður nætursvefn í tjaldi

Sumu fólki finnst tilhugsunin um að sofa í tjaldi skelfileg. Það horfir á óþægindin við að bogra um í þröngu og litlu tjaldi og sér fyrir sér kulda, bleytu og vosbúð og óttast að lenda í vondu veðri þannig að tjaldið beinlínis fjúki út í buskann.

Í góðu veðri geta flugur verið til ama auk þess sem það getur orðið óbærilega heitt í tjaldinu að morgni og allt of bjart.  Hljóðvistin er sumum erfið þegar vindurinn lemur tjaldið. Og undirlagið getur verið hart eða ójafnt og hallinn á tjaldinu óþægilegur.

„Of mikill fatnaður getur gert illt verra.“

Svo eru aðrir sem beinlínis elska að sofa í tjaldi. Vita ekkert betra en hljóðið þegar vindurinn stýkur gróðrinum eða taktfastan niðinn þegar regndropaher trommar tjaldhimininn. Elska ferska loftið, nálægðina við náttúruna, söng lóunnar og vængjaþyt hrossagauksins. Fólk sem líður svona í tjaldi er hins vegar undantekningarlaust að nota góðan búnað og hefur mikla reynslu. Það veit að því verður ekki kalt í nóttinni.

Því þetta er eins og allt annað spurning um æfingu. Það getur hent alla að eiga erfitt með svefn við framandi aðstæður. En gott tjald, góð uppblásin útilegudýna sem einangrar frá jörðinni, og svefnpoki sem hentar hitastiginu skipta sköpum.

Sumir kjósa að sofa í innsta lagi ullarfatnaðar á meðan aðrir sofa berir. Það hefur verið afsannað að það sé betra að sofa allsber en hins vegar er gott að hafa í huga að of mikill fatnaður getur gert illt vera.

Svefnpokinn virkar þannig að loftið í honum hitnar og ef ekkert loftrými er eftir fyrir klæðnaði þá er hætt við að vistin verði köld. Þetta getur líka leitt til þess að fólk svitnar þegar líða tekur á nóttina sem síðan getur orðið mjög óþægilegt.

Þegar svefnpoki er valinn er gott að hafa í huga að það hitastig sem hann er sagður þola dugar til að halda manni lifandi í gegnum nóttina en ekki mikið meira en það. Poki sem þolir -10 gráður er þannig þokkalegur sumarpoki á íslandi.

„Reyndustu tjaldbúarnir reyna að pissa að minnsta kosti tvisvar sinnum áður en farið er í svefnpokann.“

Það getur verið þjóðráð að hafa augnleppa eða buff til að setja yfir augun þegar sofið er í íslensku sumarnóttinni og eins geta eyrnatappar reynst þeim vel sem eiga erfitt með að svefn vegna umhverfishljóða. Buff eru ágætt til þess að halda höfðinu heitu þannig að með þessu má slá tvær flugur í einu höggi.

Reyndustu tjaldbúarnir reyna að pissa að minnsta kosti tvisvar sinnum áður en farið er í svefnpokann. Einu sinni hálftíma áður en lagst er til hvílu og svo aftur rétt áður en skriðið er inn í tjald. Sumir reyna jafnvel að ná þremur ferðum fyrir svefninn.  Það er vesen og getur verið óþægilegt að þurfa að fara á klósettið um miðjar nætur, sérstaklega ef veðrið er ekki upp á marga fiska.

Það getur verið ágæt regla að hafa vatnsflösku við höfðalagið í tjaldinu – sérstaklega ef tjaldað er í gönguferð og nauðsynlegt er að hafa vatnsbúskap líkamans í góðu standi. Þá getur lítill matarbiti reynst ótrúlega drjúgur ef kuldi gerir vart við sig í nóttinni.

Annað gott ráð við kulda er að gera æfingar áður en farið er í pokann. Hita sig upp með kvöldgöngu eða bara armbeygjum og hnébeygjum á staðnum. Sumir sjóða vatn og setja á flösku sem þeir hafa ofan í svefnpokanum sé næturkuldi.

Þá getur verið gott að flytja sokkinn af hægri fæti yfir á vinstri fótinn, og öfugt, eftir að ofan í pokann er komið og búið er að renna upp rennilásnum. Þegar þessu verkefni er lokið ætti að vera kominn góður hiti í pokann. Þá má jafnframt reyna við þessa þraut án þess að nota hendur.

„Ólíkt því sem gerist víða erlendis stafar lítil hætta af villtu dýralífi þegar tjaldað er á Íslandi.“

Ef þú ætlar bara að eiga eitt tjald þá er létt göngutjald málið. Það dugar í flestar aðstæður og notagildið eykst mikið ef það er fjögurra árstíða göngutjald. Ef ætlunin er að tjalda beint út úr bílnum má sjá fyrir sér stærra tjald. Hitt er svo annað mál að eftir því sem tjald er stærra tekur lengri tíma að tjalda því og lengri tíma að taka það saman aftur. Svokölluð “popp-up” tjöld, sem eiginlega tjalda sér sjálf, eru góð lausn þegar ætlunin er að tjalda frá bíl.

Það fylgir því mögnuð frelsistilfinning að axla bakpoka sinn með tjaldi, svefnpoka og vistum til nokkurra daga og vita að hægt er að velja sér náttstað hvar sem er. Hverfa inní slóðina og vita að framundan eru dagar einfaldrar ánægju þar sem lífið snýst um að skoða, rannsaka stórt og smátt, halda sér heitum, þurrum og mettum.

Ólíkt því sem gerist víða erlendis stafar lítil hætta af villtu dýralífi þegar tjaldað er á Íslandi. Engar fregnir hafa þannig borist af því að íslenski heimskautarefurinn hafi nagað andlitið af sofandi tjaldbúa í skjóli nætur og því engar raunverulegar ástæður til að hafa áhyggjur. Nema þá kannski af ísbjörnum en þeir hafa engan drepið á Íslandi frá því árið 1321 en þá mun einn ísbjörn hafa drepið 8 menn í Heljarvík á Ströndum.

—————–

Hvar má tjalda á Íslandi? 

Við alfaraleið í byggð er heimilt að tjalda hefðbundnum viðlegutjöldum til einnar nætur á óræktuðu landi sé tjaldsvæði ekki í næsta nágrenni og landeigandi hefur ekki takmarkað eða bannað aðgang að svæðinu með merkingum við hlið og göngustíga umferð manna og dvöl þeirra innan svæðisins.

Við alfaraleið í óbyggðum, hvort heldur er á eignarlandi eða þjóðlendu, er heimilt að setja niður hefðbundin viðlegutjöld.

Utan alfaraleiðar hvort heldur sem á eignarlandi eða þjóðlendu, er heimilt að tjalda hefðbundnum viðlegutjöldum nema annað sé tekið fram í sérreglum sem kunna að gilda um svæðið.

 

Fengið frá útivistarvefnum: vertuuti.is

 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search